Evrópuráðsþingið

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 15:23:02 (5981)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vænti að mér fyrirgefist það að blanda mér inn í þá umræðu sem fram fer um skýrslu fulltrúa Alþingis á Evrópuráðsþinginu, en ég vil jafnframt geta þess að mér finnst dálítið á skorta að fylgst sé með þessum málum af hálfu Alþingis af þeirri athygli sem þau verðskulda, þ.e. þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi. Gildir það í rauninni um hvað eina þar sem Alþingi á hlut að máli að það varðar miklu að þingið í heild átti sig á mikilvægi þess starfs sem þar er unnið og þingmenn séu eðlilegir þátttakendur í því. Ég vil út af fyrir sig ekki draga neinar sérstakar ályktanir af þátttöku í þessari umræðu eða fjölda þeirra sem með henni fylgjast nú og vona að í reynd sé nú áhuginn á þessu starfi meiri en það ber vott um.
    Ég held, virðulegur forseti, að það væri hins vegar þörf á því fyrir Alþingi að reyna að stuðla að skipulegri skoðanaskiptum þeirra fulltrúa sem sitja sem fulltrúar í hinum ýmsu alþjóðlegu nefndum eða stofnunum fyrir Alþingis hönd til þess að miðla reynslu og til þess að samræma með vissum hætti störf af hálfu þingsins á þessum vettvangi. Nú er það vissulega veruleg framför að hinar einstöku nefndir eða deildir hafa mótað sér sérstakar reglur eða fastar reglur um starfshætti. Það er nýmæli frá allra síðustu árum að frá því sé gengið með þeim hætti sem vera ber í rauninni þannig að ljóst sé eftir hvaða reglum unnið sé á hverjum vettvangi af hálfu þingsins. Ég vil varpa því fram sem hugmynd hér í tengslum við þessa umræðu hvort það væri ekki ómaksins vert fyrir þá þingmenn og þá hópa sem taka þátt í alþjóðasamstarfi að setjast niður þó ekki væri nema dagsstund til þess að fara yfir málin og bera sig saman því að þarna

er að sjálfsögðu margt á hreyfingu eins og við þekkjum og hér hefur borið á góma í umræðunni af hálfu hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar m.a. sem minnti á breytingar sem væru á norrænu samstarfi og hann lét að því liggja að hugsanlega mundi það breyta einhverju um gildi þátttöku Íslands í starfi Evrópuráðsins. Ég vil ekki fara að ræða það efni sérstaklega. Skýrsla Norðurlandaráðs sem fyrirhugað var að væri einnig á dagskrá þessa fundar verður rædd síðar og ég vil hvetja þá sem eiga þátt í samstarfi á víðara vettvangi í Evrópu að fylgjast með því sem fram kemur í þeirri skýrslu, sem þegar hefur verið fram lögð af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, vegna þess að það er vissulega ástæða til þess að átta sig á þeim breytingum sem í gangi eru og sem við ekki nema að litlu leyti fáum ráðið í hvaða farveg stefna.
    Ég nefni hér undir þessum dagskrárlið þessa hugmynd, einnig vegna þess að formaður nefndar okkar, Íslandsdeildarinnar í Evrópuráðinu, er jafnframt formaður í utanrmn. þingsins og væri ekkert óeðlilegt þó að það yrði rætt hugsanlega á þeim vettvangi eða að formenn hinna ýmsu deilda bæru sig saman um þetta, því að ég hugsa að það væri vissulega þörf á því að bera saman bækurnar í raun fyrr en seinna með þeim hætti og hreyfi því þessari hugmynd hér.
    Það er margt sem væri ástæða til að ræða í sambandi við þessa skýrslu að því er varðar Evrópuráðið. Ég vil fyrst aðeins fjalla um viss atriði sem snerta form. Það hefur verið upplýst hér og má lesa það í skýrslunni að ramminn um þetta samstarf á vegum Evrópráðsins er breytingum háður. Það er verið að fjölga aðildarríkjum og það liggja fyrir umsóknir. Og formaður deildarinnar, hv. þm. Björn Bjarnason, gat þess að til stæði að ræða það mál sérstaklega, hvar ætti að draga mörkin um Evrópuráðið, hvar væru mörk Evrópu í þessu samhengi. Ég sé það í skýrslunni að Rússland hefur sótt um aðild og spannar nú víðar landfræðilega séð en til Úralfjalla, sem sumir hafa tengt sem mörk Evrópu til austurs. Ég vil inna eftir því hér, hvort það hafi verið mótuð einhver stefna um það af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsins hvernig við ætlum að taka á því máli, hvernig litið er á það mál af okkar hálfu og hvaða meðferð líklegt sé að þessi umsókn Rússlands hljóti á vettvangi Evrópuráðsins því að það er auðvitað áhugavert að átta sig á því í hvert efni þar stefnir. Ég geri ráð fyrir það það kunni að ráðast að einhverju leyti af þeirri þróun sem verður í Rússlandi á næstunni að því er snertir þau málasvið sem Evrópuráðið fjallar um og sem varðar stofnsáttmála Evrópuráðsins og þá ekki síst spurninguna um lýðræðisþróun í Rússlandi en eins og við vitum, þá er þar ýmislegt í deiglu nú sem áður og ekki er hægt að fullyrða í raun á þessari stundu í hvert efni stefnir á allra næstu tímum.
    Annað atriði sem varðar form var til umræðu af hálfu formanns Íslandsdeildar Evrópuráðsins, þ.e. þátttaka Alþingis í þingmannasamtökum á vegum RÖSE og hvernig henni væri fyrir komið. Það er auðvitað nauðsynlegt að það verði rætt og afráðið hvernig að því verður staðið að svo miklu leyti sem það hefur þegar verið gert á milli þingflokka. En einnig vék þingmaðurinn að spurningunni um þátttöku í þingmannasamstarfi Vestur-Evrópusambandsins sem er hugtak sem ég er ekki viss um að allir hv. alþm. séu alveg vissir um, og á ekki við þá sem hér sitja sem ég geri ráð fyrir að átti sig á hvaða samtök það eru sem ganga undir nafninu Vestur-Evrópusambandið, WEU. Það er eitt af þessum ,,union``-fyrirbærum, ,,West-Europian Union`` minnir mig að þetta heiti á enskunni og kom aðeins við sögu hér á Alþingi, líklega í nóvembermánuði þegar það gerðist með fárra daga fyrirvara að upplýst var að Ísland ætlaði sér að gerast aukaaðili, eins og kallað er, að þessu hernaðarsamstarfi Evrópubandalagsins sem er inntak þessa Vestur-Evrópusambands. Það er hernaðararmur Evrópubandalagsins sjálfs. Formaður utanrmn. viðraði það sjónarmið að Íslendingar ættu --- ég tók ekki alveg eftir hvernig hv. þm. hagaði orðum sínum --- að tengjast þingmannasamstarfi á vegum þessa hernaðarsamstarfs sem þarna er undir hatti Evrópubandalagsins þó ekki séu öll Evrópubandalagsríki beinir aðilar þar að enn sem komið er.
    Ég tel þetta vissulega vera umræðuvert og hef ekki verið hvetjandi þátttöku okkar, hvorki sem aðili eða aukaaðili að þessum hernaðararmi Evrópubandalagsins og ég set vissulega spurningarmerki við það að hve miklu leyti við eigum að fara að tengjast þessu enn frekar í gegnum þingmannasamstarfið o.s.frv.
    Mér finnst rétt í þessu sambandi að nefna að þegar okkur var skotið þarna inn af ríkisstjórninni án samþykkis og formlegrar umfjöllunar á Alþingi --- því að málið var eingöngu rætt utan dagskrár daginn áður en aðild okkar að Vestur-Evrópusambandinu var ,,signeruð`` úti í löndum --- þá var því heitið innan utanrmn. að leitað yrði eftir á samþykkis Alþingis við þessum gjörningi. Ég hef ekki orðið var við að slíkt mál kæmi fram í formi ályktunartillögu til þingsins og vek á því athygli af þessu tilefni en ræði þetta ekki frekar í tilefni þessarar skýrslu.
    Þetta var um form. Svo aðeins um innihald og þau verkefni sem verið er að vinna og ég heyri og sé að eru mjög fjölþætt og varða hagsmuni okkar á margvíslegan hátt og ég þakka fyrir þær upplýsingar sem fram hafa komið um þessi efni. Ég tel t.d. að það sé ekkert smáræðisverkefni sem Ísland átti í raun frumkvæði að að upp var tekið innan Evrópuráðsins þar sem eru sjávarspendýrin og hvalveiðar í því samhengi. Það er mikil ábyrgð sem í rauninni hvílir á fulltrúum okkar í Evrópuráðinu, hvernig á því máli er haldið og það er jafngott að menn, sem í því standa, njóti nauðsynlegs stuðnings bæði við að undirbúa tillögur og mál og kynna mál innan Evrópuráðsins fyrst að menn eru að færa þau inn á þann vettvang. Ætla ég Íslendingum þó ekki einum að hafa verið frumkvæðisaðilar um það en átt þó hlut að því máli að ég hef skilið. Ég tel mikla þörf á því og þykist vita að reynt verði að samræma þessi mál í einhverju í gegnum utanrmn. þingsins sem fjallar auðvitað um þessi þýðingarmiklu atriði og þarna þurfi að vanda vel til málafylgju því vissulega gæti þetta farið á annan veg en til er stofnað og ætlað af okkar hálfu og er ég þó engan veginn að lasta það að þessi mál eru tekin þarna upp.
    En við þekkjum það landslag sem þarna er um að ræða í sambandi við hvalina og að við allramman reip er að draga á alþjóðavettvangi að tryggja skynsamlega nýtingu á þeim dýrastofnum með viðlíka hætti og út frá fyllstu sjónarmiðum umhverfisverndar eins og við höfum reynt að vera talsmenn fyrir varðandi nýtingu dýrastofna almennt og ekki síst stofna í hafinu.
    Hv. þm. Lára Ragnarsdóttir ræddi um nokkur atriði sem tengjast starfinu í Evrópubandalaginu og minntist á sinn hlut þar að nokkru. Hún kom ekki að því sem lítillega er getið um hér sem varðar kjarnorkumálefni og hlut hennar á þeim vettvangi sem ég tel allra góðra gjalda verðan og vildi að því tilefni, vegna þess að þessi mál eru umræðuefni og umfjöllunarefni í Evrópuráðinu, inna eftir því hversu langt menn seilast í umfjöllun um þessi mál á vettvangi Evrópuráðsins og hvort íslenska sendinefndin í Evrópuráðinu ætlar sér þar einhvern verulegan hlut að því er snertir kjarnorkumálefni.
    Slysið í Tsjernóbíl og afleiðingar þess eru mál út af fyrir sig og auðvitað víti til varnaðar eins og fjölmörg óhöpp sem orðið hafa í sambandi við kjarnorkuiðnað í svokölluðum friðsamlegum tilgangi þó að það minni mest á vegna þess að það er nálægt okkur í tíma og líka einna alvarlegast af því sem gerst hefur það við þekkjum til. Við vitum að ástand þessara mála er geigvænlega alvarlegt víða í Austur-Evrópu og að neyðarástand blasir við á mörgum svæðum vegna þess hvernig staðið var að kjarnorkumálum, bæði í hernaðartilgangi og eins í svokölluðum friðsamlegum tilgangi, til orkuframleiðslu, á því svæði. Það er víða verið að ræða þau efni. En við skulum ekki gleyma því að hér er við stóran almennan vanda að fást sem snertir öll þau ríki sem fást við orkuframleiðslu í formi kjarnorku, þ.e. standa fyrir kjarnorkuiðnaði. Pottur er mjög víða brotinn í þessum efnum og grundvöllur kjarnorkuiðnaðarins er óheilbrigður og ótækur að margra mati og ég er í hópi þeirra sem telja að það sé gjörsamlega óforsvaranlegt fyrir heimsbyggðina að ætla að byggja orkubúskap sinn til lengri tíma litið á kjarnorku. Með það í huga tel ég að við Íslendingar eigum að standa mjög ákveðið að því á alþjóðavettvangi að beita okkur gegn kjarnorkuiðnaðinum sem slíkum, beita okkur fyrir því að menn reyni að komast út úr þessum vanda fyrr en seinna og að sjálfsögðu að reyna að draga sem mest úr þeim hættum sem þar er við að fást og þar blasa við. En þær eru ekki bara í Austur-Evrópu, þær eru einnig þótt í öðru formi sé í því sem við köllum Vesturlönd og þarf ekki annað en að minna á t.d. þann gífurlega vanda sem tengist úrganginum frá kjarnorkuiðnaðinum, meðferð úrgangsefna og endurvinnslu á hágeislavirkum efnum úr þessum úrgangi. Reyndar veldur þessi endurvinnsla margföldun á úrganginum að umfangi til. Þetta er ekki bara eins og hjá Sorpu þar sem menn geta gert eitthvað nytsamlegt úr úrgangi og nýtt heldur er í rauninni ókleift að komast út úr þessu vegna hins gífurlega endingartíma þessara efna.
    Hér er um að ræða vá sem snertir okkur Íslendinga sem aðrar þjóðir mjög náið. Önnur Norðurlandaríki eru í nágrenni við fyrrverandi Sovétríki, kjarnorkuiðnaðinn á Kólaskaga og viðskilnaðinn þar en eru einnig með kjarnorkuiðnað innan eigin vébanda eins og Finnar og Svíar. Málið er þannig t.d. á vettvangi Norðurlanda að það er engan veginn einboðið að Norðurlönd séu þar samferða og þekkjum við það af norrænum vettvangi. En engu að síður hljótum við að beita okkur í málinu. Kjarnorkuverið í Barsebäck í næsta nágrenni Kaupmannahafnar er auðvitað gífurlegt áhyggjuefni fyrir þá sem nálægt því búa.
    En í þessu sambandi vildi ég minna á Bretland og þá endurvinnslu sem þar fer fram og það hvernig þar er að málum staðið af breskum stjórnvöldum með gersamlega óforsvaranlegum hætti og af frönskum stjórnvöldum að því er varðar plútonflutninga og endurvinnslu á geislavirkum úrgangi yfir í plúton og flutninga á slíku efni. Þarna eru það aðildarríki að Evrópuráðinu sem í hlut eiga og Frakkarnir hafa auðvitað reynt að halda lokinu yfir þessu og tekist það furðanlega gagnvart sínu fólki en þó minni ég á þá öflugu hreyfingu Græningja sem er að gera sig meira og meira gildandi í frönsku stjórnmálalífi og beitir sér a.m.k. að hluta til hart á móti kjarnorkuiðnaðinum.
    Ég leyfi mér að nefna þetta um leið og ég hvet Íslandsdeildina til þess að fylgja þessum málum eftir af fyllstu alvöru og í fullri breidd, þ.e. taka málin fyrir heildstætt og reyna að þoka málum þar til skynsamlegs vegar að því er þetta varðar.
    Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir að þau mál sem varða mannréttindi og verndun lýðræðis og það sem að því lýtur sem og menningarsviðið er kannski burðarás og hefur verið það í sambandi við starf Evrópuráðsins og eru auðvitað gífurlega þýðingarmikil, þar á meðal jafnréttismálin sem hér er minnst á í umræðunni. Ég bið um að mitt innlegg verði ekki skilið þannig, þótt ég fari ekki að ræða þau málasvið, að ég geri minna úr þeim atriðum. En ég taldi ástæðu til þess að nefna þessi atriði sérstaklega vegna þess að þau hafa verið á dagskrá hjá Evrópuráðinu.
    Í lokin vil ég nefna að ég rakst í þessari annars ágætu skýrslu á ónákvæmni á bls. 11 sem ég vildi nefna ef það er rétt skilið hjá mér. Það er verið að vísa til þings sem haldið verði í Palanga í Litáen 29.--31. maí 1992 og talað um það í framtíð. Þarna er einhver smá ónákvæmni á ferðinni sem hefur yfirsést sem og í sambandi við hvalamálin og undirnefndir landbúnaðarmála þar sé ég að innan sviga er getið samtaka sem mér eru að nokkru kunn með ensku heiti og mætti misskiljast þar sem þau eru tengd með einni kommu Alþjóðahvalveiðiráðinu, en þarna er um að ræða ,,World Wildlife Fund for Nature`` og það er ekki þýtt. Þetta eru alþjóðanáttúruverndarsamtökin sem munu hafa verið kölluð svo á íslensku máli og heita nú á ensku ekki World Wildlife Fund for Nature eins og þau hétu til skamms tíma heldur öðru nafni sem ég er ekki viss um að fara rétt með án þess að horfa eftir því en mig minnir að World Wide Fund for Nature sé nafn þessara samtaka og við köllum þau Alþjóðanáttúruverndarsamtökin á íslensku máli.
     Þetta vildi ég aðeins nefna hér og þakka um leið það framlag Íslandsdeildar Evrópuráðsins sem hér liggur fyrir og málflutning talsmanna deildarinnar.