Evrópuráðsþingið

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 15:57:15 (5985)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir hennar viðbrögð og upplýsingar varðandi þessi málefni og ég fagna því að hún hefur verið að setja sig inn í þessi efni sérstaklega í tengslum við störf sín í Evrópuráðinu. Ég vænti þess að hún nýti þá vitneskju sem hún vafalaust þegar hefur fengið til viðbótar við það sem áður var til þess að taka á þessum málum í víðu samhengi eins og full nauðsyn er á. Það er eitt af því sem ég vildi leyfa mér að nefna þar að lútandi og það er sú stofnun sem kallast Alþjóðakjarnorkumálastofnunin. Það er stofnun sem ég tel nauðsynlegt að gjalda varhug við. Það er rík tilhneiging yfirvalda þeirra ríkja sem stunda orkuframleiðslu með kjarnorku að vísa sem flestum málum til Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Ég tel mig hafa þekkingu til þess að fullyrða að sá andi sem svífur yfir vötnunum í þeirri stofnun lýtur fyrst og fremst að því að vernda hagsmuni kjarnorkuiðnaðarins til lengri tíma litið. Vissulega er ekki allt slæmt eða ótækt sem þaðan kemur í viðbrögðum við bættu öryggi o.s.frv. Þeir sem eru að verja hagsmuni kjarnorkuiðnaðarins átta sig á því að þeir verða að bregðast við með einhverjum hætti, ekki bara neikvætt. Kjarni málsins er þó þessi og það heyrði ég t.d. á umhverfisráðstefnunni í Rio de Janeiro frá talsmanni Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Það mátti glöggt heyra út frá hvaða sjónarhorni þar var talað.
    Þetta vildi ég leyfa mér að nefna og aðeins að lokum, virðulegi forseti, bæta því við sem fram kom í ræðu hv. þm. hér áðan varðandi þýðingu á þátttöku Íslands í starfi Evrópuráðsins. Ég tel að sú þýðing sé mikil, hún vaxi ekki sérstaklega ef við skyldum illu heilli fara inn í Evrópskt efnahagssvæði. Hún er einmitt alveg sérstaklega mikilvæg fyrir okkur ef við höfum vit á því að standa utan EES og nýta þennan vettvang til samevrópskra tengsla.