Umhverfisskattar

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 13:41:19 (6065)


     Hjörleifur Guttormsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Það var enginn misskilningur uppi af minni hálfu um það hver gerði tillögu eða athugasemd við þetta á þingfundi í gær og lét ég það koma fram í máli mínu áðan og þess vegna þarflaust fyrir hv. þm. Geir Haarde að vera með ábendingar þar að lútandi. Hitt er ljóst að 1. flm. hefur nú vent kvæði sínu í kross í sambandi við tillögu um það hvert vísa beri þessu máli og mér finnst að flutningsmenn tillagna eigi að vega nokkuð þungt í sambandi við það hvert þingmáli er vísað og ætla ekki að gera athugasemd við það að þetta mál fari til efh.- og viðskn. Ég vakti reyndar athygli á því þegar málið var rætt í þinginu að hér væri í rauninni ekki um umhverfismál að ræða heldur væri Sjálfstfl. að leita að alveg nýjum skattstofni til þess að gefa til kynna að hann væri að breyta eitthvað til í skattamálum. Og ég hvet nú þingmenn til þess að lesa þessa tillögu, greinargerðina alveg sérstaklega.