Evrópskt efnahagssvæði

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 18:01:59 (6418)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er nú svo að vanda þegar þetta mál kemur hér til umræðu, Evrópskt efnahagssvæði, að ræðuaðstaða fyrir þingmenn er heldur ófullkomin því að ég ætlaði að taka með mér örfá málsplögg sem snerta þetta mál. Bara rétt til þess að lýsa fyrir mönnum aðstöðunni, þá tók ég með hér einn lítinn viðauka sem að vísu hefur ekki verið gefinn út heldur er úr því 60 sm safni sem hæstv. utanrrh. sendi þingflokkum í einu eintaki líklega 14. des. sl., 60 sm þykkur bunki á ensku máli að langmestu leyti, aðeins 2 sm á íslensku, og ég er hér með viðauka sem heitir Fræ. Þetta eru reglugerðir Evrópubandalagsins undir heitinu Fræ, og er þó annar doðrantur, að vísu með öðru efni jafnframt, fræ og plöntur sem er viðbót við reglugerðasafnið sem snertir fræ í Evrópubandalaginu. Ég veit að hv. þm. Pálmi Jónsson gleðst mjög yfir því þegar hann fer að kynna sér innihaldið í þessum reglugerðum til þess að átta sig á því hvernig eigi að búa í Húnaþingi, (Gripið fram í.) en það er nokkuð torvelt að fletta þessum gögnum á þessu litla borði. Hér er annað, að vísu mun minna að vöxtum, sem er viðauki 20--27 og varðar m.a. það frv. sem er til umræðu og sérstaklega breytingar sem snerta áfenga drykki og ég mun koma að hér síðar í máli mínu.
    Virðulegur forseti. Þetta frv. um Evrópskt efnahagssvæði sem hér liggur fyrir þinginu á að vera lokahnykkur í þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og þeirra sem bera þetta mál fram. Með framlagningu þessa frv. er það staðfest, sem allir vissu þegar skilið var við þetta mál í janúarmánuði, að frv. sem þá hafði verið rætt og verið til meðferðar á þinginu alllengi, dugði engan veginn til að ganga frá þessu máli. Málið var ófullburða þegar það frv. var afgreitt hér í þinginu og samningurinn í uppnámi --- og ekki

fjölgar þingmönnum ef hæstv. utanrrh. gengur úr sal, virðulegur forseti, ég sá að hæstv. ráðherra var að telja --- en þá var málið samt afgreitt og fært í atkvæðagreiðslu og afgreidd lög nr. 2/1993 og síðan færð fyrir forseta Íslands og birt síðan í Stjórnartíðindum sem gild lög. En þessi lög voru markleysa eins og þau lágu fyrir og ljóst þau mundu aldrei gilda óbreytt og hér er líka komin breytingatillaga við þetta frv.
    Það er óráðin gáta hvers vegna ríkisstjórnin valdi þennan kost að afgreiða málið hér í janúar og láta ganga frá frv. í staðinn fyrir að fresta málinu í 3. umr. eftir að búið var að afgreiða það frá 2. umr. og koma þá með þær breytingar sem samkomulag yrði um hjá samningsaðilum sem breytingar við frv. og eiga þá ekki eftir nema eina umræðu um málið. En um þetta er auðvitað ekki að fást úr því sem komið er og það er fyrst og fremst til óhagræðis fyrir hæstv. ríkisstjórn og þá sem bera þetta mál fram að hafa staðið svona að verki.
    Það er líka orðið heldur lítið úr stóru orðunum hæstv. utanrrh. frá því í desember að hér væri eingöngu um tæknileg atriði að ræða ef samningar tækjust um Evrópskt efnahagssvæði. Hér kemur frv. sem tekur á mörgum atriðum. Sum mega teljast tæknilegs eðlis, önnur eru efnisatriði. Og nú er staðan sú að ákvæðið um gildistöku er ekki lengur fastmælum bundið heldur opið og menn tóku eftir því að það var mun varfærnari og hógværari ráðherra sem stóð í ræðustól áðan og mælti fyrir þessu frv. en sá sem mælti upphaflega fyrir frv. sem varð að lögum í janúar. Þar er mjög ólíku saman að jafna. Nú leggur hæstv. ráðherra ekki í það að vera með neina spádóma uppi um það hvenær þessi samningur hljóti staðfestingu þannig að hann taki gildi á Evrópsku efnahagssvæði og Evrópskt efnahagssvæði verði þar með til. Ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir það að hann skuli hafa lært það af reynslunni í þessum erfiða róðri með þennan samning að hann er ekki uppi með neina spádóma um það og samningurinn liggur þannig fyrir að það er enginn eindagi á honum. Það er að vísu látið að því liggja í orðum ráðherra og greinargerð með þessu frv. að allar líkur séu á því að hann geti tekið gildi fyrir ársbyrjun. Ég ætla ekki að spá neinu ákveðnu um þetta en það kæmi mér ekki á óvart þó að þetta mál þróaðist þannig á þessu ári að enginn EES-samningur væri staðfestur fyrir árslok. Mér finnst satt að segja mjög sennilegt að árið líði án þess að þessi samningur hafi gengið í gildi og ég ætla að ræða það svolítið vegna þess að við hljótum auðvitað þegar við erum að fjalla um þetta frv., spurninguna um staðfestingu á EES-samningi af hálfu Alþingis, að ræða um horfurnar og inn í hvaða stöðu við erum að tefla Íslandi og íslenskum hagsmunum með því að gerast aðilar að þessu svæði eins og mál nú standa. Þar hafa orðið á talsverðar breytingar frá því að þetta mál var rætt á síðasta ári, breytingar sem nauðsynlegt er að menn horfist í augu við.
    Það hefur komið fram á síðustu vikum af hálfu talsmanna ríkja innan Evrópubandalagsins að þeir vilja tengja þetta mál og afgreiðslu þessa máls á þjóðþingum landa sinna eða meta málið þannig að það fari eftir því hver verði örlög evrópska samveldisins, þ.e. Maastricht-samkomulagsins í Evrópubandalaginu, hvaða undirtektir og afgreiðslu EES-samningur fái á þingum landanna. Það er alveg sérstaklega Spánn sem hefur haft uppi ítrekað fyrirvara um þessi efni, Evrópumálaráðherrann, áður en gengið var frá samningnum til undirritunar eins og menn muna, og kom það ráðamönnum hér á landi mjög í opna skjöldu sem og víðar. En síðan samningurinn er undirritaður, þá hefur forsætisráðherra Spánar, Felipe González, ítrekað það af sinni hálfu, mælt mjög skýr varnaðarorð í þá átt að menn þurfi ekki að vera hissa á því þó að það dragist á Spánarþingi að staðfesta þennan samning á meðan Maastricht-samkomulagið er í óvissu. Og það geti svo farið að núverandi kjörtímabil Spánarþings renni út án þess að samningurinn hafi verið staðfestur og það verði fyrst að loknum kosningum þar í landi sem á málinu verði tekið til afgreiðslu á Spánarþingi. Það eru nokkrar líkur á því að kosningar verði á Spáni í haust, í októbermánuði eða svo, og það væri þá nýs þings, ef þetta gengur eftir sem þarna hefur verið látið að liggja af hálfu forsætisráðherra Spánar, sósíaldemókratans Felipe González, að á málinu yrði tekið.
    En hvernig standa málin að því er varðar Maastricht-samkomulagið? Það sem einkum er horft á í því sambandi er atkvæðagreiðslan í Danmörku 18. maí nk., spurningin um það hvort Danir samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu Edinborgarsamkomulagið sem svo er kallað og ég ætla ekki að gera það að umtalsefni sérstaklega, þá stöðu. Það er látið að því liggja að líkurnar séu miklar á því að málið gangi fram í þjóðaratkvæðagreiðslu nú öðru sinni þó það liggi í rauninni fyrir alveg óbreytt frá því sem var þegar samningurinn lá fyrir danskri þjóð til afgreiðslu 2. júní í fyrra. En þá hafa orðið þarna málamyndayfirlýsingar og breytingar sem ekki breyta í rauninni neinu efnislega en svo kann að fara að það nægi til að þoka málinu í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku. Það kemur í ljós.
    Meiri óvissa er e.t.v. um gang mála í Bretlandi, í breska þinginu. Hver verða örlög Maastricht-samkomulagsins breska þinginu og það er ekki kannski síst til þeirra aðila sem forsætisráðherra Spánar er að tala og mæla viðvörunarorð um að það verði á það horft og að Spánverjar tengi afgreiðslu þessa máls við afgreiðslu Maastricht-samkomulagsins hjá þeim sem þar eru tregastir í taumi. Og eins og málin horfa og staðan er í breska þinginu hjá John Major forsætisráðherra, þá þekkja menn það að uppreisnararmur í Íhaldsflokknum breska hefur tekið höndum saman í andófi gegn Maastricht-samkomulaginu með verkamannaflokksþingmönnunum á breska þinginu sem af taktískum ástæðum a.m.k. fylkja liði á móti samkomulaginu eins og það liggur fyrir þó ég hafi skilið marga úr þeim röðum þannig að í rauninni mundu þeir standa að þessu samkomulagi ef þeir væru við stjórn í Bretlandi og segir það nú ekki mjög fallega sögu út af fyrir sig ef menn eru að meðhöndla stórt mál með þeim hætti út frá spurningunni um að geta velt ríkisstjórn eða ekki. Ég hef oft sagt það að þetta mál eigi að vera hafið yfir allar ríkisstjórnir. Þetta

er miklu stærra mál en svo að menn megi leika sér að því út frá stöðunni ríkisstjórn eða stjórnarandstaða. Þetta mál er þannig vaxið. Ég held því að menn þurfi að skoða þetta mál út frá því að það á eftir að líða alllangur tími áður en úrslit ráðast.
    En hvað er að gerast EFTA-megin á þessum sama tíma, hvað er að gerast í EFTA-ríkjunum? Það þekkja menn. Öll hin EFTA-ríkin sem nú eru tengd þessu máli eftir að Sviss og Liechtenstein hafa gengið þar frá í bili a.m.k., öll hin EFTA-ríkin fjögur, Austurríki, Noregur, Svíþjóð og Finnland eru að hefja eða hafa hafið formlegar samningaviðræður við Evrópubandalagið um aðild að Evrópubandalaginu. Kostirnir sem þar blasa við væru umræðu virði. En þetta er staðan. Og færi nú svo að Evrópskt efnahagssvæði væri samþykkt og væri komið á fyrir 1. júlí, þá væri staðan í EFTA-hópnum sú að Ísland stæði þarna eitt eftir ríkja sem ekki ætlar inn í Evrópubandalagið með öll hin EFTA-ríkin fjögur sem eftir standa undir hælnum á Evrópubandalaginu, í þrengingum samningaviðræðna við Evrópubandalagið þar sem þau væru að reyna að gæta sinna hagsmuna. Hvaða hald telja menn að sé í slíkum bandamönnum til þess að takast á í því stofnanakerfi sem sett er upp samkvæmt EES-samningnum? ( Gripið fram í: Ekkert hald í þeim.) Ég er hræddur um að það verði ansi lítið hald í þeim. Ég er hræddur um að Ísland verði býsna eitt á báti í þeim hópi ef takast ætti á um hagsmuni sem okkur skipta einhverju vegulegu máli þegar hin ríkin, forráðamenn þeirra ríkja eru í þeirri stöðu að vilja umfram allt ljúka sem fyrst samningaviðræðum við Evrópubandalagið og stíga yfir þröskuldinn yfir til þeirra. Það er þetta sem íslenskir ráðamenn verða auðvitað að svara þjóðinni, standa reikningsskil þess. Ætla þeir að fara með okkur inn í þessar aðstæður? Eru nú reyndar hættir að tala um tveggja stoða lausnina vegna þess að hún er ekki frambærileg, hún er ekki lengur til staðar. Menn eru þarna eins og mús undir fjalaketti í þessum málum. Hafa ekki nokkra stöðu gagnvart Evrópubandalaginu eins og náttúrlega kom í ljós þegar var farið að endursemja hér, eins og kemur í ljós í sambandi við þróunarsjóðinn, þá bara taka menn ofan, takk fyrir og borga. Slík er staðan. En þetta er reyndar sú staða sem verður áframhaldandi innan Evrópsks efnahagssvæðis ef það verður til einhverrar frambúðar, til einhvers tíma sem ég tel í rauninni verulegar líkur á að verði reyndin. Að nafninu til verði Evrópskt efnahagssvæði byggt upp af nokkrum ríkjum sem séu EFTA-megin að nafninu til og hins vegar Evrópubandalaginu. Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að mitt mat er það að hvorki Noregur, Svíþjóð né Finnland gangi inn í Evrópubandalagið á næstu árum hversu mjög sem núverandi stjórnarherrar í þessum löndum vildu vegna þess að þeir komist ekki í gegnum nálarauga þjóðaratkvæðagreiðslu í löndunum. Það er útilokað með Noreg. Ég fullyrði það að Noregur fer ekki inn í Evrópubandalagið á þessari öld, það sem eftir er þessa áratugar. Slík er andstaðan í Noregi. Svo traust er andstaðan þar að það eru ekki neinar líkur á því að mínu mati að aðild að Evrópubandalaginu nái þar samþykki á næstu árum, sama hverjir koma þar að stjórnvelinum í Noregi.
    Í Svíþjóð er staðan einnig þannig, sem kemur mjög á óvart fyrir þá sem litu á þessi mál og stóðu að því að sækja um aðild fyrir tveimur árum síðan, en sænska þingið samþykkti sumarið 1990 að sækja um aðild. Þá voru sáralitlar umræður í Svíþjóð um þessi málefni. EES var nú bara í þagnargildi að heita mátti og bæði borgaraarmurinn í stjórnmálum í Svíþjóð sem og sósíaldemókratar sem þá voru enn við stjórn, ef ég man rétt, stóð að þessu --- að sækja um aðild. Nú er hins vegar staðan sú að grunnurinn er hruninn undan flokkunum í þessari afstöðu, undan sósíaldemókrötum sem báru ábyrgð á þessari aðildarumsókn, þar sem meiri hluti stuðningsmanna flokksins tjáir sig nú andsnúinn því að gerast aðili að Evrópubandalaginu. Síðustu skoðanakannanir frá Svíþjóð sem ég hef upplýsingar um voru um 44% að mig minnir sem mundu í dag segja nei við aðild að Evrópubandalaginu, þrjátíu og eitthvað, ég hef þessar tölur hér, virðulegur forseti, einhvers staðar hér á borðinu í þessum safni sem ég tók með mér í ræðustólinn, en það var sem sagt drjúgur meiri hluti sem þar tjáði sig á móti en allnokkur hópur sem ekki hafði gert upp hug sinn. Ég er auðvitað ekki með þessu að segja að þetta endurspegli einhvern veruleika eftir eitt eða eitt og hálft ár, auðvitað geta aðstæður breyst. En ég held að það verði ekki til að styrkja þá sem stefna í aðild að Evrópubandalaginu vegna þess sem nú er að koma í ljós og er að verða veruleiki, opnast sem veruleiki fyrir sænskum almenningi, það að kostirnir eru ekki aðrir heldur en Maastricht, verði Maastricht að veruleika. Kostirnir eru ekki aðrir heldur en að taka Maastricht og tillögur stjórnarskrárnefndar eða nefndar sem hefur verið að skoða stjórnarskrárþátt málsins eru mjög einfaldar. Þið verði að breyta sænsku stjórnarskránni í þá veru að taka inn almennt ákvæði sem segir: Evrópurétturinn hefur algeran forgang þar sem við á fram yfir sænsk lög. Bara einföld yfirlýsing í sænsku stjórnarskrána þess efnis og Evrópudómstólinn að sjálfsögðu líka, bæði sem sagt lagasetning í ráðherraráði Evrópubandalagsins og dómar, allt þetta taki fram sænskum rétti, sænskum lögum, þau koma í þriðja eða fjórða sæti. Þegar þetta blasir við sænskum almenningi þá held ég að fari um marga. Í Finnlandi eru náttúrlega aðstæður þannig eins og menn hafa heyrt að þar er allt mjög á reiki. Andstaðan gegn inngöngu í Evrópubandalagið hefur styrkst mjög mikið. Þeir hafa hins vegar verið í þeirri stöðu efnahagslega að það kann að vera að það ýti undir að einhverju leyti að bjarga sér með einhverjum hætti í land. En fari svo að Svíar hverfi frá þá hef ég ekki trú á að það ýti undir Finna að gerast aðilar. Það mun tíminn leiða í ljós þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu ef samningar nást milli ríkisstjórnar Finnlands og EB um niðurstöðu, um inngangsskilmála. Ég ætla ekki að ræða hér Austurríki, ég hef ekki sett mig inn í stöðuna þar nú upp á síðkastið, en þetta leiðir til þess að ég geri ráð fyrir því að sú staða gæti varað hér um nokkurt skeið að í þessum hópi EFTA-megin á Evrópsku efnahagssvæði, verði það að veruleika, verði um sinn nokkur ríki, Norðurlandaríkin, en á þeim buxunum, a.m.k. sterk öfl í löndunum stefni að því við fyrstu hentugleika að komast inn í Evrópubandalagið. Þannig að staðan fyrir okkur sem ætluðum að halda okkur frá Evrópubandalaginu, vonandi, væri eftir sem áður ósköp svipuð og hún er á meðan samningaviðræður standa yfir. Þetta er satt að segja aldeilis skelfileg aðstaða fyrir smáþjóð að tefla hagsmunum Íslendinga inn í þetta samhengi sem þarna blasir við eftir að samningurinn lítur nú út eins og hann gerir að því er snertir okkar hagsmuni. Undanþágur fallnar fyrir róða, í raun eingöngu á öryggisákvæði samningsins að treysta þar sem auðvitað reynir á styrk og stuðning sem flestra ef við ætluðum að reyna að beita öryggisákvæðum til þess að verja okkar hagsmuni ef svo bíður. Þetta finnst mér að hafi ekki verið tekið inn í umræðuna með þeim hætti sem skylt væri.
    Það var ekkert fjallað um það af hæstv. utanrrh. að ég gæti heyrt hvernig fór með bréfið sem átti að senda til Brussel til að hugga nokkra hv. framsóknarmenn hér á þingi. Þannig var að forsrh. hafði góð orð um það og meiri hluti utanrmn. færði það inn í nál. við 2. umr. frv. um EES, fyrra frv., að forsrh., eins og segir í nál. meiri hluta utanrmn., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Forsætisráðherra hefur lýst yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að kanna með bréfi og formlega hjá framkvæmdastjórn EB hver staða Íslands yrði á grundvelli EES kæmi til þess að önnur EES-ríki gengu í EB.``
    Það væri nú fróðlegt ef það upplýstist við þessa umræðu hvort þetta bréf er farið. Hvort ríkisstjórnin hefur átt fyrir póstburðargjaldinu. Og ég er ekki í vafa um að það getur varðað nokkru fyrir hv. framsóknarmenn hvað hefur gerst í þessu máli. Sé bréfið ekki farið, þá hvort búið sé að gera uppkast að því. En það snertir þessa tillögu sem mér skilst að eigi að ræða hér í framhaldi af þessu máli og er á dagskrá fundarins um að hefja tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Málaleitan sem ég hef nú ekki alveg fengið botn í með hvaða hætti menn ætla að standa í slíku á sama tíma og þeir eru að stefna inn í Evrópskt efnahagssvæði. En það er sjálfsagt að ræða þegar það mál kemur á dagskrá og blanda því ekki mikið saman við þetta frv. En ég verð að segja að skelfing er það nú veikur þráður sem framsóknarmenn, sem bera fram þessa tillögu, eru að rétta fram til fólks í sínum flokki og sem hefur stutt þá ef það á að vera einhver huggun, einhver réttlæting gagnvart þeim hópi sem í raun hefur stutt framgang þessa máls í þinginu og ætlar sér væntanlega að innsigla það með ríkisstjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi, þessi hópur sem kallaður var hjásetuliðið fyrr á þinginu.
    Það hefur verið rætt í tengslum við þetta mál og það var nefnt hér af hv. 18. þm. Reykv., Kristínu Ástgeirsdóttur, rifjað aðeins upp hvers eðlis þetta bandalag er sem þarna er verið að ganga inn í með tilliti til umhverfismála. Ég vil eindregið taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. nefndi hér í ræðu sinni og ég hef oft rifjað það upp og rakið það í mínum málflutningi varðandi þetta mál hversu öfugsnúið það kerfi er sem Evrópskt efnahagssvæði byggist á, kerfi fjórfrelsisins, gagnvart þeim framtíðarsjónarmiðum, sem við ættum að horfa til og styðja að því er varðar umhverfismál. Stóra málaflokkinn, eitt meginviðfangsefni mannkyns á komandi öld, einn meginvandi sem mannkynið stendur nú frammi fyrir, þ.e. hvernig menn ætla að komast úr úr þeim vanda, mæta þeim dimma bakka sem blasir við við sjónhring og er sumpart kominn yfir okkur að því er varðar aðstæður í umhverfismálum. Aðstæður sem enginn fær undan vikist. Þar er ekki ráðið að ganga undir lögmál fjórfrelsisins og líta á það sem meginviðfangsefni að auka framleiðslu efnislegra gæða, auka vöruframleiðslu og láta dreifingu vörunnar njóta forgangs, fylgja hinni blindu hagvaxtarbraut eins og hún er skilgreind og vörðuð með aukinni mengun, með aukinni eyðingu náttúrulegra auðlinda, með spillingu umhverfis. En það er afleiðingin af þessu kapphlaupi sem menn ætla að fylkja sér um til þátttöku innan Evrópsks efnahagssvæðis. Kapphlaupi við stóru viðskiptablokkirnar, Norður-Ameríku og Japan. Það er hinn tryllti dans í kringum gullkálfinn sem mun magna upp þann vanda sem við er að fást í umhverfismálum. Ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma í tilefni þessa frv. núna en vil eindregið minna á þessi atriði vegna þess að það er veruleikinn sem við okkur blasir og það er vandinn sem við okkur og öllu mannkyni blasir á komandi árum og þá er það algert óráð að halda þá braut sem hér er verið að leggja inn á.
    Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði hér í frv. sem við ræðum hér sem ég vildi aðeins víkja að frekar. Það var dálítið athyglisvert þegar hæstv. utanrrh. var að tala um hvað hann hefði gert mikið fyrir stjórnarandstöðuna í sambandi við þetta mál. Það var satt að segja afar kynlegur málflutningur en að vísu ekki alveg óskemmtilegt á að hlýða vegna þess að það var svo mikið sem hæstv. utanrrh. hafði gert fyrir stjórnarandstöðuna. Ég heyrði ekki betur en formaður Framsfl. væri bara ánægður með þetta, honum fyndist að það hafi bara verið gert dálítið fyrir þá. En ég er nú alveg handviss um að það var ekki dýru verði keypt sem hæstv. utanrrh. var að reiða fram fyrir foringja stjórnarandstöðunnar og formenn stjórnarandstöðuflokkannan eins og hann orðar það held ég. Það var m.a. að ríkisstjórnin skyldi leggja þennan pappír hér fram á Alþingi og hafa horfið frá því að láta þáltill. um málið nægja eða að utanrmn. legði málið fram á sínum vegum. Þetta er slíkur tilbúningur að mínu mati að það gat náttúrlega aldrei gengið upp. Auðvitað sá hæstv. utanrrh. og veit það, auðvitað gat aldrei neitt annað gengið upp en það kæmi hér fram lagafrv. Að ímynda sér og ætla að fara að telja okkur trú um að það hefði komið til greina að fara að leggja hér fram þáltill. til að ganga frá þessu máli og breyta þeim lögum sem Alþingi er búið að samþykkja. Það er náttúrlega svo fjarstæðukennt að ég er alveg hissa á hæstv. utanrrh. þó hann hafi gaman af að reyna að lítillækka stjórnarandstöðuna með þessum hætti að hann skuli bera þetta fram hér.
    Það er ýmislegt sem fylgir fráhvarfi Sviss. Það eru ýmis fráhvarfseinkenni sem koma fram í þessu

máli. Það er ljóst að það verður að taka upp lagasetninguna varðandi EFTA-dómstól og eftirlitsstofnun EFTA og það er ljóst að það verður nokkur breyting á dómstólnum, m.a. samkvæmt því sem segir um bókunina um breytingu á samningnum milli EFTA-ríkjanna og stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls að það getur komið til þess að einn dómari þurfi að víkja í hverju máli til að ákvæðin um oddatölu gangi upp. Ég er ekki að segja að þetta vegi þungt en það er þó breyting frá því sem var samkvæmt hinu fyrra kerfi ef ég hef skilið það rétt.
    Síðan hef ég nefnt að það er látið að því liggja í athugasemdum við 3. gr. frv. að samningurinn öðlist að öllum líkindum gildi 1. júlí. Það er kátbroslegt að vera að bera það fram hér í frv. á Alþingi, komið fram undir marslok, að þessi samningur sem ekki hefur fengið staðfestingu í rauninni á neinu þingi enn sem komið er í breyttu formi, muni að öllum líkindum ganga í gildi 1. júlí 1993.
    Ég þarf ekki annað en vísa til þess sem ég hef þegar sagt um þetta efni. Það er mjög ólíklegt, það segi ég líka við hæstv. forsrh., það er mjög ólíklegt að þetta mál verði komið á koppinn fyrir árslok. Í rauninni auðvitað algjör óvissa um að þetta verði nokkurn tímann barn í brók, fullkomin óvissa um það.
    Í viðaukunum og breytingum á viðaukunum koma fram atriði sem vert er að vekja aðeins athygli á þó ekki geti stórvægileg talist. Það er t.d. á bls. 10 í þessu þingskjali varðandi bókunina þá er þar tekið fram í 8. gr. að í 2. neðanmálsgrein V. viðbæti og 3. neðanmálsgrein VI. viðbætis við bókun 4 um upprunareglur komi orðin ,,Svíþjóð`` og ,,sænska`` í stað ,,Sviss`` og ,,svissneska``. Þetta kemur manni svolítið spánskt fyrir sjónir. Ég veit ekki hvort ríkisstjórnin hefur alveg sett sig inn í málið. Ég ætla aðeins að nefna það sem lesa má um þessi atriði þar sem hér er verið að breyta. Það segir í þessari neðanmálsgrein, með leyfi forseta: ,,Einungis skal gefa þær upplýsingar sem krafist er í þessum dálkum.`` Þá verður nú að nefna tölul. 1 í þessu neðanmálsskrifi. ,,Ef vörureikningur, afhendingarseðill eða annað viðskiptaskjal sem yfirlýsingin er fest við tekur til ýmissa vörutegunda eða vara sem innihalda ekki efni sem eru ekki upprunaefni að sama leyti verður birgir að greina vandlega á milli þeirra.`` Þetta fæ ég nú að vísu ekki skilið, þetta er einhver ritvilla sem þarna er á ferðinni, verður birgir að greina vanlega á milli þeirra. Kannski hæstv. utanrrh. skilji þetta, mér heyrist að forsrh. hafi náð þessu þó ég nái ekki alveg sambandi við þennan texta. Þar segir í framhaldinu: ,,Einungis skal gefa þær upplýsingar sem krafist er í þessum dálkum ef nauðsyn krefst þess.`` Það er athyglisvert. Síðan kemur dæmi: ,,Í reglu um fatnað úr 62. kafla segir að nota megi garn sem er ekki upprunavara. Ef framleiðandi á slíkum fatnaði í Frakklandi notar innflutta vefnaðarvöru frá Sviss sem fengist hefur þar með því að vefa úr garni sem er ekki upprunavara, nægir svissneska birginum`` --- þarna kemur þessi birgir aftur --- ,,að lýsa í yfirlýsingu sinni efninu sem er ekki upprunaefni sem garni, án þess að nauðsyn beri til að gefa upplýsingar um ST-númer og verðmæti garnsins.`` Hér sjá menn það hefur verið tekið dæmi af Sviss hér sem það væri innflutt vefnaðarvara frá Sviss og einhver svissneskur birgir --- sem er hugtak sem ég átta mig ekki á hvað táknar. Þetta gengur auðvitað ekki upp eftir að búið er að fella í þjóðaratkvæðagreiðslu að Sviss verði aðili að þessum samningi og nú er verið að breyta þessu að í staðinn fyrir Sviss komi Svíþjóð og sænska í staðinn fyrir svissneska. Nú væri fróðlegt að vita: Hvað gerist nú ef Svíþjóð gengur inn í Evrópubandalagið? Þurfum við þá eða eigum við von á að hér þurfi að koma fram sérstakt frv. á Alþingi Íslendinga til að leita nú að enn einu dæmi og ríki sem stæði enn í lappirnar sem aðili EFTA-megin að EES til að þessi samningur félli ekki. Þetta er 2. neðanmálsgrein við V. viðbæti. Það er fleira sem varðar þetta mál þar sem þetta kemur aftur. Á bls. 245 er þetta einnig með vefnaðarvöruna og svissneska birginn. Þessu er sérkennilega fyrir komið þessu máli hér og og hæstv. utanrrh. er auðvitað afar ókátur yfir þeirri stöðu að vera enn með þetta mál í tösku sinni á faraldsfæti.
    En fleira er hér sem mætti nefna í þessum viðaukum. Ég leyfi mér, virðulegur forseti og hæstv. utanrrh., að grípa niður á bls. 17 í frv. Þar kem ég að viðauka, sem ekki hefur verið þýddur á íslenskt mál nema ágrip upp á eina blaðsíðu sem eru viðaukar 20--27 um frjálsa vöruflutninga, byggingavörur, persónuhlífar --- hvað svo sem það nú er --- leikföng, vélar, tóbak, orku og áfenga drykki. Það mun einmitt vera í þessum XXVII. kafla sem verið er að fella niður í þessari lexíu hér á bls. 17 í frv. töluliður 389R1576: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1576/89 --- aðlögunarliður h). --- Hvað lesum við þar, hæstv. ráðherra? Jú, við lesum að þar beri m.a. að fella niður þrúguhratsbrennivín. Ég veit ekki hvaða hv. þm. kannast við þann vökva en kannski hefur hæstv. utanrrh. fengið aðeins að bergja á þessu þrúguhratsbrennivíni á mörgum ferðum sínum erlendis, sem nú á að fella niður úr þessum samningi út af ákvörðun svissnesku þjóðarinnar. En það er ekki bara þrúguhratsbrennivín heldur líka ávaxtabrennivín og hljómar það orð kunnuglegar. Undir þeim lið eru m.a. ,,Baselbieter Zwetschgenwasser`` og ég nefni þetta hér vegna þess að þetta hefði verið kjörið framburðarverkefni í þýsku á stúdentsprófi að komast fram úr þessu sveskjuvatni sem þarna á að fella niður. Það er líka ,,Bernbieter Zwetschgenwasser`` sem á að fella niður og fleira mætti nefna úr þessum lista eins og ,,Freiämter Theilersbirnenbranntwein`` --- hvernig lýst mönnum á? --- og ,,Luzerner Birnenträsch`` og ,,Luzerner Theilersbirnenbranntwein`` o.s.frv. ( Utanrrh.: Öndvegisdrykkir.) Hæstv. ráðherra sér eftir þessu öllu saman út úr textunum. En síðan kemur orð sem ég held að ég verði að biðja hæstv. ráðherra um að liðsinna mér við framburðinn á og treysti því að hæstv. ráðherra komi til þess að hafa það yfir landslýðnum en það er skrifað ,,Urschwyzerkirsch``. ,,Kirsch`` kannast ég við en hitt orðið ræð ég ekki við í framburði og bið hæstv. utanrrh. að leysa úr þessum vanda og koma Alþingi í skilning um hvaða vökvi er á ferðinni. Þetta er á bls. 18, líklega í u.þ.b. tíundu línu, svo þingmenn geti kynnt sér ritháttinn á þessum drykk.
    Margt fleira er þarna upp talið eins og brenndir drykkir bragðbættir með einiberjum og brenndir drykkir eins og ,,Eau-de-vie d'herbes du Jura`` og verður nú hæstv. ráðherra hugsi eðlilega ef málið er þannig vaxið að einnig þessum vökva beri að hella niður með þeim breytingum sem hér eru fyrir lagðar á þessu merka máli.
    Virðulegur forseti. Alvara þessa máls er hins vegar hitt sem yfir skyggir það sem hægt er að hafa gaman af úr þessum textum. Bak við þetta mál allt saman standa hugmyndir, ég vil ekki segja draumurinn því mér er ekki gert að nota það nema í jákvæða átt, hugmyndir manna um að ná inn í hin heilögu vé Evrópubandalagsins. Þeim er að fjölga þingmönnunum í stjórnarflokkunum sem eru orðnir mjög óþolinmóðir að sjá það skref stigið. Við höfum verið að fá áherðingar frá gildum mönnum, nú síðast úr Sjálfstfl., þar sem er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem hefur í þessum mánuði skrifað tvær kjallaragreinar í DV með áherðingum um að nú sé mál til komið að stíga skrefið. Hv. 1. þm. Norðurl. v. vitnaði til þess texta sem lesa má í kjallaragrein formanns efh.- og viðskn. Alþingis í dag. Það er ekkert tæpitungumál sem þar er fram mælt. En það var önnur grein sem var birt eftir sama þingmann, 8. mars, um Ísland og EB þar sem einnig er talað alveg í sömu átt og mjög eindregið mælt með því að nú herði menn sig upp og leggi inn umsókn. Það er í rauninni engin yfirbreiðsla á þeirri hugsun sem fram er borin af þessum þingmanni sem er einn af burðarásunum í Sjálfstfl. og er auðvitað að tala þar fyrir munn margra. Þeim er því farið að fjölga sem koma fram með þessar áherslur. Nú var þessi hv. þm., framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, sem situr ekki á Alþingi, í för fyrir allnokkru síðan og fékk þá m.a. stuðning frá hv. 10. þm. Reykv., ef ég man rétt, í sambandi við hugmyndirnar um að fara að horfa inn framtíðarlandið í þessum efnum.
    Það sem mun gerast á næstu missirum er að þessar fylkingar munu herða róðurinn, leita samstöðu um þetta og knýja á hver á sínum bæ. Ég vil út af fyrir sig ekkert spá um leikslok í þeim efnum og auðvitað vona ég að það verði ekki liðstyrkur til þess að þessar hugmyndir hljóti einhvern teljandi byr á Alþingi, hvað þá að það verði meirihlutasjónarmið hér að þetta beri að gera. En ég er nokkuð viss um að hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., á eftir að mæla fyrir þessu sem flokksstefnu áður en mjög langt um líður. Hann lagði þetta mál fyrir út frá sínum bæjardyrum í mars í fyrra og það var nokkuð ljóst hvaða hugsanir voru þar ráðandi í þeim skrifum. Það verður spennandi að sjá skýrslu hæstv. ráðherra núna um utanríkismál, að hve miklu leyti hún endurspeglar hina sömu hugrenningar og uppi voru fyrir ári síðan.
    En það sem er uggvænlegra er það sem er að koma fram innan Sjálfstfl. í vaxandi mæli frá þingmönnum sem vilja láta taka mark á sér með því að skrifa trekk í trekk áherðingargreinar um að nú beri að sækja um aðild að Evrópubandalaginu.
    Ég er mjög smeykur um að í tengslum við hugmyndir um að fara nú að leita eftir formlegum samningum um stöðu okkar gagnvart Evrópubandalaginu þá muni þessi öfl reyna að snara slíkum viðræðum yfir í það að þar verði um aðildarviðræður að ræða, a.m.k. könnunarviðræður um aðild að Evrópubandalaginu. (Gripið fram í.) ( ÖS: Við stöndum gegn því.) Formaður þingflokks Alþfl. segist munu standa gegn því og kannski er það bjarghellan sem getur munað um í þessu máli. Það væri sannarlega gott og engum stuðningi ber að hafna í þessum efnum. Við skulum alveg átta okkur á því að þessi liðsafnaður sem er að skríða saman og kominn er inn í þingsali og mælir með að sæki um aðild að Evrópubandalaginu er lið sem ber að taka alvarlega.
    Það er ekki eingöngu innan ríkisstjórnarflokkanna heldur er það einnig úr öðrum flokkum. Við þekkjum sjónarmið hv. 10. þm. Reykv. í þessum efnum. Hún hefur ekkert til sparað að koma því á framfæri í máli og nefndarálitum hvert hennar hugur stefnir í þessu máli. Sem betur fer hefur það ekki hlotið mikinn byr í hennar flokki. Við skulum vona að á því verði ekki breyting. En ég tók eftir því áðan þegar hv. 1. þm. Norðurl. v. var að tala og ég spurði hann um hvort allir í hans flokki yrðu með í andstöðunni, þá vísaði formaður þingflokks Framsfl. á að það yrði að spyrja hvern og einn. Ég er ekki svo svartsýnn í rauninni að það þurfi að fara í grafgötur um það. Ég vona a.m.k. að svo sé ekki. En það var athyglisvert, þetta svar frá formanni þingflokks Framsfl. Ég hafði vænst þess að það yrði ótvíræðara en þar kom fram í ljósi þeirra svardaga sem gefnir voru fyrir síðustu kosningar af forustu Framsfl. í aðdraganda kosninga.
    Það eru öfl innan Evrópubandalagsins sem hafa hug á því að leggja í landvinninga í norðurátt eins og hefur komið fram í þessari umræðu nú þegar. Þegar við ræddum skýrslu EFTA-nefndarinnar á dögunum þá var frá því greint að sá merki félagsskapur ,,kengúruhópurinn`` sem heitir á ensku ,,The Kangaroo Group --- The Movement for Free Movement`` --- hreyfingin um frjálsa hreyfingu --- ætlar að efna til fundar undir kjörorðinu ,,Útfærsla Evrópubandalagsins til norðurs`` í maímánuði. Hv. þm. Páll Pétursson upplýsti að meðal þeirra sem þar kæmu við sögu í dagskrá væri m.a. hv. 10. þm. Reykv., sem væri þátttakandi á þeirri ráðstefnu í sérstökum panel, leidd til öndvegis í kengúruhópnum, komin niður af girðingunni og yfir hana. Það er því víða róið á miðum þeirra sem eru sígandi að fylkja liði um kröfuna um að sótt verði um aðild að Evrópubandalaginu.
    Þetta mál er nátengt því vegna þess að Evrópskt efnahagssvæði hefur sennilega aldrei verið hugsað þannig að það entist til langframa. Það er til orðið sem taktískt bragð, sem leikflétta af hálfu stjórnmálamanna á Norðurlöndum og víðar innan EFTA sem hafa átt í erfiðleikum með að ná fylgi við hugmyndir sínar um að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Gott dæmi um það er forusta Verkamannaflokksins í Noregi sem hafði mikið að segja þegar upp var lagt í samninga um Evrópskt efnahagssvæði og ætlaði að nota það sem krókaleið til þess að ná fylgi við inngöngu í Evrópubandalagið sem Norðmenn eru að hefja samninga um á allra næstu vikum.
    Virðulegur forseti. Þetta frv. sem á að reka smiðshöggið á staðfestingu Alþingis á þessum samningi er til 1. umr. Þetta mál fær væntanlega vandlega athugun í þingnefnd, bæði sá frumvarpstexti sem fyrir liggur sem og þau efnisatriði sem því tengjast og kemur síðan trúlega til 2. umr. einhvern tímann fyrir vorið þannig að við eigum eftir að ræða þetta mál betur. En hitt er nokkuð ljóst að það liggur ekkert á. Við getum þess vegna geymt það til næsta þings að lögfesta þennan gjörning jafnvel þó að meiri hluti væri fyrir því og væri skynsamlegt að bíða til næsta þings með það og sjá hvernig málin líta út síðsumars eða á haustdögum í þessu efni þannig að menn séu ekki að flýta sér í frágangi á máli sem er í rauninni ófrágengið og algjör óvissa er um, enn sem komið er, hvaða niðurstöðu muni fá.