Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:00:05 (6491)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta þótti mér heldur slakt hjá formanni Framsfl. sem rökstuðningur fyrir þeim skeytum sem hann var að senda mér áðan. Ég skil hins vegar ósköp vel erfiða stöðu hv. þm. sem formanns í flokki sem er þverklofinn í þessu máli. Það er ekki út af fyrir sig vegna þeirrar staðreyndar sem ég er að ræða þessi mál efnislega og hina pólitísku stöðu í þeim heldur vegna þess að það er stóralvarlegt þegar komnir eru slíkir brestir í flokkum sem hafa hingað til, þar á ég við Framsfl., því að Kvennalistinn er því miður ekki heill í því, lýst andstöðu við inngöngu í EB. En það er einmitt sú gata sem hér er verið að feta. Ég veit að hv. þm. hefur ekki minnsta áhuga á því. Hann er væntanlega jafneinarður í andstöðu við það að Ísland lendi inni í Evrópubandalaginu og ég. Ég ætla honum ekkert annað í þessu máli. En það er hinn pólitíski stuðningur við andstöðuna í þessum efnum sem máli skiptir og sú tillaga sem hér er flutt um þetta efni við þessar aðstæður að fara að taka upp eða leita eftir tvíhliða samningum. Hv. þm. vissi auðvitað fyrir fram hvaða svör hann fengi hjá ríkisstjórn sem ætlar að keyra EES-samninginn í höfn og sem hefur það bak við eyrað að stíga fyrr en seinna næsta skref í þessu máli, inn í Evrópubandalagið.