Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:32:18 (6502)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Enn tókum við eftir því að hæstv. utanrrh. tók ekki af skarið varðandi afstöðu sína til þessara mála. Hann skýrði hvers vegna hann hefði lagt til fyrir ári að fara í rækilega könnun á vegum íslenskra stjórnvalda um það hvort ekki væri tímabært að sækja um aðild. Hann sagði raunar í skýrslu sinni orðrétt, virðulegi forseti, með þínu leyfi:
    ,,Hitt er rétt að endanlegt svar við þessum spurningum fæst ekki fyrr en á það hefur verið látið reyna með samningum á grundvelli umsóknar``, sagði ráðherrann í skýrslu sinni. Hann huggar menn með því í þinginu að með EES-samningi væri búið að tappa dampinum af þeim sem ákafastir væru í inngöngu í Evrópubandalagið. Betur að satt væri. Hvað er það sem við heyrum þessa dagana annað en háværar kröfur frá fulltrúum atvinnulífsins, þar á meðal nefndum þingmanni, Vilhjálmi Egilssyni, formanni Verslunarráðsins, Þórarni V. Þórarinssyni og hvað þeir heita nú allir, kröfuna um það í öllum bænum: Nú er tími til að sækja um. Þetta er samræmi í málflutningi eða hitt þó heldur eða veruleikaskyn. Hvað eigum við að kalla það?