Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 18:43:03 (6946)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Í umræðu um þessa þáltill. hafa þeir sem hér hafa talað farið nokkuð vítt um völl og er það ekki óeðlilegt þegar verið er að leggja til breytingu á stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi sem felst í því skrefi sem hér er mælt með af hæstv. utanrrh. og ríkisstjórn að tekið verði með aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu.
    Ég ætla þó ekki að nota þetta tækifæri til að ræða utanríkismál í mjög víðu samhengi eins og út af fyrir sig væru efni til heldur fyrst og fremst að beina sjónum að því skrefi sem hér er verið að taka og því samhengi sem þar er um að ræða. Ég vil þó vekja athygli á því, og það er óhjákvæmilegt, að rökstuðningur hæstv. ráðherra fyrir þessu máli er næsta sérkennilegur þegar fjallað er um breytingarnar á aðstæðum í heiminum og í Evrópu sérstaklega sem rökstuðning fyrir því að nú gerist Ísland aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu.
    Það er öðrum þræði dregið fram, sem getur talist staðreynd, að heimurinn hefur breyst á liðnum árum og að hernaðarógn sem fylgdi kalda stríðinu sé ekki hin sama og áður, sé úr sögunni, og óvinurinn sé horfinn þó það sé ekki sagt með þeim orðum. Á sama tíma og þetta er dregið fram fáum við í dag inn á borð okkar skýrslu frá hæstv. utanrrh. þar sem mikið er gert úr því í sambandi við svonefnt varnarlið hér á landi að það horfi í heldur slæmt efni og þar geti verið samdráttur á ferðinni og það blasir við að svonefndar varaliðsherdeildir, sem ætlað er að verði til varna á Íslandi, verði lagðar niður á tímabilinu 1995--1996. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Íslensk stjórnvöld fylgjast vel með þessum tillögum og er þegar farið að huga að öðrum bandarískum herdeildum sem geta e.t.v. komið í staðinn.`` Og annað í þessum dúr sem ég ætla ekki að rekja nánar hér vegna þess að þessi skýrsla er ekki dagskrármál hér en margt skondið stendur í þessum kafla sem við ræðum þegar kemur að umræðum um þessa skýrslu utanrrh. Þversagnirnar eru satt að segja alveg himinhrópandi þegar verið er að tala um breytingar á alþjóðavettvangi annars vegar og hins vegar stöðu herliðs í landinu og þörfina á slíku. Það er jafnvel verið að gera því skóna í þessari nýkomnu skýrslu hæstv. utanrrh. að það þurfi að margefla hlut Íslendinga í þessum efnum og samtengja störf svonefnds varnarliðs í landinu, bandarísks herliðs, og íslenskra stofnana til þess að gæta að ýmsum stöðum á landinu þar sem við blasi að bandaríska herliðið, jafnvel að óbreyttu, sé engan veginn í stakk búið til að gæta þessara mikilvægu mannvirkja hér á landi.
    Þetta nefni ég hér til þess að vekja athygli á því hversu mikils ósamræmis gætir annars vegar í mati á alþjóðlegum aðstæðum, sem notað er sem rökstuðningur fyrir því skrefi sem hér er verið að taka, og hins vegar þegar kemur að spurningunni um stöðu erlends herliðs í landinu og þörfinni út frá sjónarmiði þeirra sem hafa metið að hér væri hernaðarógn á ferðinni gagnvart Íslandi að gera miklu betur og treysta þessar varnir. Hvar er óvinurinn, hæstv. utanrrh., sem nú er verið að verjast? Menn hljóta að spyrja um það.
    Þegar þau tíðindi gerðust í nóvembermánuði að ríkisstjórnin skuldbatt Ísland þjóðréttarlega með svokallaðri aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu þá fóru ekki fram á Alþingi neinar umræður um það efni utan einu sinni utan dagskrár að frumkvæði hv. þm. Steingríms Hermannssonar tveimur dögum áður en undirrita átti þetta skjal af hálfu íslenskra stjórnvalda og skuldbinda okkur með þeim hætti. Þetta mál var aldrei formlega afgreitt í utanrmn. Þar var engin tillaga, ef ég man rétt, fram borin um þetta efni og það verður að segja að mikil skemmri skírn var að öllu leyti á aðdraganda þessa máls. Fæstir þingmenn höfðu hugmynd um það hvað til stóð og hvað í þessu skrefi fælist. Engin áform voru uppi um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að leita álits þingsins fyrir fram eða leggja það fyrir Alþingi með formlegum hætti. Þó að

málið hafi verið kynnt í utanrmn. þá hafði nefndin við undirritun þessa skjals af hálfu íslenskra stjórnvalda 20. nóv. ekki fengið að sjá sjálft aðildarskjalið eða samþykktir Vestur-Evrópusambandsins þar eð þær voru trúnaðarmál. Þótt fram hefði komið að ríkisstjórnin hygðist taka afstöðu til aukaaðildar fyrir árslok var ekki leitað eftir formlegu áliti eins og ég hef getið um. Á þessum vettvangi höfðu hins vegar talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna þegar lýst andstöðu sinni við aukaaðild.
    Þetta mál hefur sannarlega margar hliðar. Málsmeðferðin sýnir dæmalaust virðingarleysi framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi og stjórnskipun lýðveldisins til viðbótar við það sem hefur verið að gerast vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Þetta finnst mér vera skýr hættumerki fyrir lýðræðið í landinu þegar staðið er að mikilvægum ákvörðunum með þessum hætti. Með aukaaðild okkar að Vestur-Evrópusambandinu er verið að tengja Ísland inn í hernaðarsamstarf Evrópubandalagsins sem ekki einu sinni öll aðildarríki Evrópubandalagsins vilja gerast aðilar að. Danmörk, Grikkland og Írland hafa staðið þar fyrir utan og eftir að Danir felldu Maastricht-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslunni á síðasta ári þá var það eitt af skilyrðum danskra stjórnvalda að Danmörk komi hvergi nærri hernaðarþætti Evrópubandalagsins, þ.e. Vestur-Evrópusambandinu, með fullri aðild að því.
    Fyrir utan Ísland voru það Tyrkland og Noregur sem skrifuðu undir þessa aukaaðild en það ber að leggja á það áherslu að Ísland verður eina ríkið sem tengist hernaðarþætti Evrópubandalagsins með aukaaðild og sem ekki hefur leitað eftir aðild að bandalaginu. Að þessu leyti höfum við algjöra sérstöðu og það er ekkert undarlegt þó menn tengi þetta skref við gælur valdamikilla manna í stjórnarflokkunum við að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og taka það mál á dagskrá.
    Það hefur verið upplýst eftir að þetta skref var stigið og raunar í aðdraganda þess, degi fyrr eða svo, hvað í þessari aukaaðild fælist. Ég ætla ekki að fara að rekja það hér í einstökum atriðum. Það liggur fyrir í þessari þáltill. og þó það sýnist ekki vera mikið bindandi ákvæði sem í felast þá er þó alveg ljóst að með því að tengja okkur inn í þessi samtök með þessum hætti er verið að opna brú inn til Evrópubandalagsins á einu mikilvægasta sviði þess ef Maastricht-samningurinn verður að veruleika og sú samrunaþróun sem hann byggir á.
    Það er opið samkvæmt þessum aukaaðildarsamningi fyrir þá sem aukaaðilar eru að þau ríki geti tengst ákvörðunum Vestur-Evrópusambandsins, sem heitir því sakleysislega nafni, hverju sinni. Hins vegar er jafnljóst að aukaaðilar geta ekki hindrað ákvarðanir sem samstaða hefur náðst um meðal aðildarríkja. Að mörgu leyti er aðstaða Íslands og annarra sem aukaaðild hafa að Vestur-Evrópusambandinu ekki ólík því sem verður hjá þeim ríkjum í Evrópsku efnahagssvæði sem ekki eru aðilar að Evrópubandalaginu, þ.e. að taka orðalaust við því sem samþykkt er á vettvangi Evrópubandalagsins, að vísu ekki með sams konar eða hliðstæðum skuldbindingum og eru í samningnum um EES.
    En enn er þó eftir einhver smááfangi til þess að aukaaðild gangi í gildi og er það þó ekki ítarlega útfært í þáltill. eða því sem henni fylgir. Þar er þess getið að fyrst eftir að Grikklandi hefur verið veitt formleg aðild að samtökunum þá gangi þetta aukaaðildarskjal í gildi en fram að þeim tíma verði ríkin þrjú virkir áheyrnaraðilar í Vestur-Evrópusambandinu. Er þó ekki nánar skilgreint hvað í þeirri stöðu felst.
    Í grg. með þáltill. eru miklar vangaveltur um það hvað þetta skref þýðir með tilliti til Atlantshafsbandalagsins og aðildar Íslands að því. Þar gætir þeirrar tvíhyggju sem ég nefndi áðan, að því er Ísland varðar og að því er framtíð Atlantshafsbandalagsins varðar. Vissulega er hér mjög margt óvissu háð en fari svo að Maastricht-samningurinn og samrunaþróunin í Evrópu gangi eftir í aðalatriðum eins og þar er gert ráð fyrir, þá er alveg ljóst að hverju er stefnt með Vestur-Evrópusambandinu. Því er ætlað að verða hernaðarþáttur Evrópubandalagsins fyrst og fremst og þjóna hagsmunum þess í utanríkispólitík á hernaðarsviðinu og auðvitað verða hagsmunir Evrópubandalagsins þar í fyrirrúmi og allt annað hlýtur að víkja sem ekki tengist því og ekki samræmist hagsmunum þessa stórveldis sem þarna er í mótun.
    Ég ætla ekki að ræða hér líkurnar hvað mælir með og hvað mælir á móti að þetta gangi eftir. Um það getum við rætt síðar þegar skýrsla utanrrh. verður til umræðu en ég tel að í rauninni sé þessi tillaga óbein yfirlýsing af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar hvert halda skuli í sambandi við hernaðarlegt samstarf, samstarf í öryggismálum, þ.e. að tengja það við hagsmuni Evrópubandalagsins, við hernaðarþátt Evrópubandalagsins og kemur það kannski ekki svo mjög á óvart.
    Ég held að það sé afar ófarsælt skref sem hér er verið að stíga. Á meðan Íslendingar hafa ekki markað stefnu sína með öðrum og ákveðnari hætti en fyrir liggur gagnvart Evrópubandalaginu og alveg sérstaklega í ljósi þess að við erum að tengjast því bandalagi þó með mjög ákvarðandi hætti með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Þegar þetta tvennt er lagt saman er alveg ljóst að við erum að ganga mjög langt í þá áttina að binda okkur í öllum meginatriðum á viðskiptasjónarmiði og í öryggismálum við Evrópubandalagið án þess í rauninni að geta þar svo sem nokkru um ráðið, án þess að vera annað en viðhengi, vera tengt því rétt eins og ómálga aðili. Enda mun það atriði verða vafalaust fram reitt af þeim sem reka vilja á eftir að Ísland sæki um beina aðild að Evrópubandalaginu.
    Eitt af því sem rætt var um miðjan nóvember í aðdraganda undirritunar var kostnaður við þessa þátttöku. Það er svo merkilegt að hæstv. utanrrh. sá enga ástæðu til þess í sinni framsögu að skýra nánar hver kostnaðarhlutdeildin væri af þátttöku í þessu Vestur-Evrópusambandi og stiklaði hann þó á því máli í nóvembermánuði sl. eins og flestir muna sem á það hlýddu þegar hæstv. ráðherra varð þrísaga í því máli. Nefndi hann 280 millj. fyrst, síðan 2,8 millj. og þriðja upplýsingin til Alþingis var að hann vissi raunar ekki

nokkurn skapaðan hlut hvaða kostnaðaráhrif aðild hefði fyrir Ísland. Það er verkefni fyrir utanrmn. að fá þetta skýrt því ráðherrann virðist ekki neinu nær ef marka má framsögu hans um þetta atriði en hann var þegar hann var að verja gerðir sínar og ríkisstjórnarinnar í nóvember sl.
    Ég held að það sé mikil þörf á því fyrir hv. utanrmn. að fara vandlega ofan í saumana á þessu máli. Hér er verið að vitna í samninga og plögg sem eru kannski tiltölulega meinleysisleg að yfirbragði, eins og Petersberg-yfirlýsinguna, sem mun vera tengd við bæ í Þýskalandi þar sem fundur var haldinn og þessi yfirlýsing frá gengin. Viss hluti af þessari yfirlýsingu er eins og sagt er, aukaaðildarríki ,,munu að öllu leyti samþykkja efni A-kafla III. hluta Petersberg-yfirlýsingarinnar sem verður hluti aukaaðildarskjalsins.``
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að orðlengja um þetta efni frekar nú. Ég varaði mjög eindregið við, eins og við aðrir talsmenn Alþb. þegar þessi mál voru til umræðu í nóvember, því skrefi sem hér væri verið að stíga. Ég held að á þeim tíma sem síðan er liðinn hafi í rauninni enn frekar komið í ljós hvílíkt bráðræði það er fyrir okkur Íslendinga að ætla að fara að tengjast Evrópubandalaginu á hernaðarsviði með þeim hætti sem hér er gert og án þess að um það hafi farið fram nokkrar teljandi umræður á Alþingi eða athuganir á vegum utanrmn., hvað þá að allir þingflokkar á Alþingi hafi verið þátttakendur í þeirri umræðu.
    Ég vænti þess að við nánari skoðun þessa máls komist menn að því á Alþingi að þetta sé rangt skref, að meiri hluti verði fyrir því á Alþingi að vísa þessu máli frá. Það hafa að vísu ekki komið fram vísbendingar í þá átt í umræðunni til þessa að svo gæti orðið. En ég vek að lokum, virðulegur forseti, athygli á dálítið sérstöku orðalagi í sjálfri þáltill. þar sem segir: ,,Alþingi ályktar að lýsa stuðningi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu (VES).``
    Þetta er tillögutextinn. Það er ekki verið að biðja um samþykki fyrir því heldur að lýsa stuðningi við þessa ákvörðun. Einnig orðalag þessarar tillögu tel ég að þurfi að athuga nánar í utanrmn.