Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 13:38:19 (7464)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vísa til 18. gr. þingskapa Alþingis þar sem segir:
    ,,Forseti skal gera áætlun um afgreiðslu mála úr nefndum í samráði við formenn þeirra þannig að unnt sé að skipa málum niður á dagskrá þingsins í hagkvæmri tímaröð og dreifa þeim sem jafnast á þingtímann.``
    Í haust fluttum við þingmenn Alþb. tvö mikilsverð mál sem eru á verksviði iðnn. þingsins. Annað er frv. um jarðhitaréttindi, 69. mál þingsins, sem vísað var til nefndar 13. okt. á síðasta ári. Hitt frv. var um orku fallvatna, 157. mál þingsins, sem vísað var til nefndar 4. nóv. sl.
    Þegar ég mælti fyrir fyrra þingmálinu, 69. máli, um jarðhitaréttindi, þá tók hæstv. iðnrh. þátt í þeirri umræðu og sagði m.a., með leyfi forseta, ég leyfi mér að vitna til þess því að það varðar málið og málsmeðferðina:
    ,,Ég veit að hv. 4. þm. Austurl. er mikill áhugamaður um þetta mál og ég treysti á gott samstarf við hann. Ég vil segja það alveg skýrt að ég held að það væri mjög affarasælt að það frv. sem stjórnin hyggst leggja fram komi fram sem fyrst og verði rætt í þinginu og í hv. iðnn. samhliða því sem frv. sem hv. 4. þm. Austurl. stendur að sem 1. flm.``
    Síðar í umræðunni mun það hafa komið fram af hálfu hæstv. ráðherra að hann vænti lögfestingar á þessu máli fyrir jólahlé. Þetta mál, annað af tveimur sem ég nefndi var af hálfu ríkisstjórnarinnar á þeim lista sem fylgdi með stefnuræðu hæstv. forsrh. sl. haust sem annað af tveimur aðalmálum sem vænta mætti frá ríkisstjórninni. Hitt var um orku fallvatna eða eignarhald á virkjunarrétti fallvatna. Það mál einmitt sem liggur frv. fyrir um í iðnn. þingsins. Hvorugt málanna hefur enn sést í þinginu. Bæði málin snerta náið stöðu Íslands gagnvart samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, íslenskar auðlindir. Og hv. iðnn. mun hafa verið mjög hægfara í þessu máli fram að þessu, e.t.v. með vísan til þess sem fram hefur komið frá hæstv. ráðherra þó að mér sé ekki kunnugt um það í einstökum atriðum.
    Ég hlýt að átelja það að þessi mál hafi ekki verið til umfjöllunar í nefndinni á þessu ári, það best ég veit á fundum nefndarinnar, og ég vænti þess að það upplýsist hér. Ég bið hæstv. forseta um íhlutun um málið þannig að um þessi þýðingarmiklu frumvörp verði fjallað í iðnn. fyrir þinglokin og afstaða liggi fyrir. Þessi mál hafi verið flutt margsinnis.