Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:37:24 (7538)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það voru örfá atriði sem ég vildi bæta við en skorti tíma til í fyrri ræðu. Það eru mörg heilræði sem koma fram í þessu máli. Ég er ekki í vafa um að hv. flm. eru að koma hér ýmsum skilaboðum til ríkisstjórnarinnar í gegnum tillöguna og greinargerðina með henni. Ég benti á þann þátt sem snýr að menntun og því mikla happi fyrir möguleika Íslendinga í Kína sem urðu við það að öldungunum í Peking datt í hug að loka fyrir skólahald um skeið sem veldur þessu sem kemur fram í greingargerð með tillögunni að starfsaldur fólks er lágur, sérfróðra manna aðeins innan við tíu ár að mér skilst og þurfa þeir því á aðstoð að halda. Þannig sést að fátt er svo með öllu illt ef við Íslendingar getum notið góðs af þessum tilþrifum kínverskra stjórnvalda.
    En það sem ég vildi benda á í sambandi við þetta mál og bakgrunn þess rökstuðnings sem hér er fluttur er það að ekki getur það nú talist að öllu leyti fagnaðarefni að þetta stóra ríki sé að leggja inn á braut iðnvæðingar og það nokkuð óheftrar iðnvæðingar eins og mér sýnist af lýsingu sendimanns hæstv. landbrh. sem er 1. flm. málsins og tók ómakið af landbrh. að fara í austurveg eins og kunnugt er af fréttum.
    Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur þegar við heyrum um þær breytingar sem þarna eru að gerast og vitum það af fregnum að umhverfi manna í Kína, þó það hafi nú ekki komið fram í máli hv. 1. flm. þessari tillögu, þykir ekki að öllu leyti hið besta hvað varðar umhverfi. Mengun mun óvíða vera meiri og tilfinnanlegri en í iðnaðarhéruðum í Suður-Kína ef marka má fréttir --- að vísu ekki hér í greingargerð með þessari tillögu. Og við skulum aðeins íhuga hvaða þýðingu það hefur, hvaða afleiðingar það hefur fyrir aðstæður í umhverfismálum heimsins ef milljarðurinn í Kína og gott betur reynir að feta slóð óheftrar iðnvæðingar og sækja inn á hliðstæða braut og Vesturlönd hafa gert. Þá fer nú að þrengjast um hjá kotkörlunum hér á Vesturlöndum og reyndar mannkyni öllu. Ég tala nú ekki um ef Indverjar tækju upp á hinu sama. Ég er að minna á þetta hér vegna þeirrar einföldu augljósu staðreyndar, hæstv. forseti, að bústaðurinn jörð þolir ekki orkunotkun, efnislega framleiðslu og sóun sem henni tengist, þá mengun sem þessu fylgir í eitthvað viðlíka mæli og tíðkast hefur í hinum iðnvædda hluta heimsins til þessa. Og þess vegna eru tíðindi, hvaðan sem þau koma, um að þjóðir séu að feta svipaða slóð og Vesturlönd engin fagnaðartíðindi nema þá að því fylgi að verið sé að jafna aðstæður á jörðunni milli landa og heimshluta, að hinn

ríkari hluti heimsins dragi þá saman að því er varðar okkar hlut í umsvifum, orkunotkun og þeirri mengun sem henni fylgir. Ég þarf ekki annað en vísa til þeirra áhrifa sem aukinn koltvísýringsmengun er líkleg til að valda á jörðinni en margt annað sem bætist við. Þess vegna þurfum við auðvitað í umræðum um þessi mál að minnast þessara þátta sem snerta okkur eins og jarðarbúa alla og það geta ekki talist nein sérstök fagnaðartíðindi að feta sig inn á braut óheftrar iðnvæðingar þarna og við þurfum að minnast þess að sjálf eigum við auðvitað skyldur að ganga í öfuga átt, þ.e. að draga úr þeirri sóun sem fylgir búskap Vesturlanda. Ég veit að hv. formaður Verslunarráðs Íslands tekur undir með mér að hagvaxtarmódelið sem er afleiðingin eða mælikvarðinn á ,,efnahagslega velgengni`` sem svo er kölluð og ég vil nú setja innan gæsalappa sem stefnir umhverfi jarðar hraðfara í átt til þrenginga, svo ekki sé sagt til glötunar.
    En ég vil ljúka með því að það er ánægjulegt að framkvæmdastjóri Verslunarráðsins skuli vera viðstaddur umræðuna. Hann hefur eflaust kynnt sér þann boðskap, það nýja ljós sem flm. þessarar tillögu um sendiráð í Peking og viðskiptaskrifstofu í Suður-Kína hafa kveikt innan Sjálfstfl., það nýja ljós sem þar hefur verið tendrað. Ég undrast það út af fyrir sig að flm. hafi ekki tryggt formlegan stuðning framkvæmdastjóra Verslunarráðsins við málið.