Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 15:16:34 (7666)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það ber sannarlega að fagna því sem hæstv. ríkisstjórn kann að gera og horfir til réttrar áttar en því miður eru þau ekki mjög mörg eða fyrirferðamikil þau atriði. Sú skýrsla sem hv. þm. vísaði til og mun hafa átt nokkurn hlut í að taka saman fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hefur að geyma ýmis jákvæð stefnumið og ég fagna því að slík sjónarmið koma fram. Ég óttast hins vegar að það geti orðið kannski eitthvað þyngra fyrir varðandi efndirnar, þó ég vilji ekki verða fyrir fram með hrakspár. Það sætir nokkurri furðu að þegar unnið er að málum af toga eins og þarna er um að ræða í þessari stefnumörkun, að unnið er lokað að tillögugerð og það í rauninni var ekki aðeins stjórnarandstöðu heldur stjórnarflokkum, þ.e. fulltrúum innan stjórnarflokkanna sem sinna þessum málum á öðrum vettvangi, var algjörlega hulið að það væri verið að vinna að stefnumörkun í umhverfismálum. Að slíku þarf auðvitað að vinna með sem breiðastri þátttöku til þess að skapa skilning á því sem verið er að gera, en þá er a.m.k. vel ef reynt er að kynna þau sjónarmið og ég ætla síst að lasta það.
    Það sem hv. þm. vék að umhverfisgjöldunum og sveiflum sem það ylli fyrir ríkissjóð að beita umhverfisgjöldum sem hagstjórnartæki þá sýnist mér að þingmaðurinn hafi misskilið þennan tillöguflutning, a.m.k. eins og ég les í tillöguna, því þar er gert ráð fyrir því að tekjunum af þessum umhverfisgjöldum eða því sem fæst inn af þeim sé varið til umhverfisbóta en varði sem sagt ekki almenna tekjuöflun ríkisins sem er allt annað heldur en hv. þm. var að leggja til í tillögu fyrr í vetur. Þannig að á þessu er verulegur munur og ekki ástæða til að hafa þungar áhyggjur af þessum þætti.