Evrópskt efnahagssvæði

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 15:36:18 (7894)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er sannarlega raunaleg staða sem hæstv. iðnrh. er í varðandi þetta mál og ekki aðeins hæstv. ráðherra heldur þjóðin öll vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki náð saman um þetta undirstöðumál, þetta stóra mál sem nú er komið inn í nýtt samhengi með þeim samningi sem hér er hugmyndin að lögfesta. Nú hefur hæstv. ráðherra svardaga uppi um það að málin komi fram í haust í þingbyrjun og vill hugga okkur með því að svo muni verða og við höfum ráðrúm til ársins 1995 til þess að ganga frá málum að því er hæstv. ráðherra staðhæfir.
    Þetta er auðvitað ekki fullnægjandi á neinn hátt því að sjálfsögðu ætti að vera búið að ganga frá málum með heldum og ákvarðandi hætti þegar verið er að leiða mál til lykta eins og það sem hugmyndin er að greiða um atkvæði í dag. Ég vil inna hæstv. iðnrh. eftir því hvaða atriði það eru sem fyrirstaða er um af hálfu samstarfsaðila hæstv. ráðherra í ríkisstjórn. Hvaða atriði eru það hjá Sjálfstfl. --- því ég les það á milli línanna að þar sé fyrirstaðan, ég geri ráð fyrir því að flokkur hæstv. iðnrh. standi heill að baki honum í þessu máli --- hvaða atriði eru það sem valda fyrirstöðu hjá Sjálfstfl. í þessum efnum? Mér finnst knýjandi nauðsyn að fá það fram. Ég held að hæstv. ráðherra hefði fyrir lifandis löngu átt að taka undir í sambandi við þau frv. sem flutt hafa verið um þetta efni, og tvö slík liggja í iðnn. þingsins í líklega fimmta eða áttunda sinn, ég hef ekki alveg tölu á því hversu oft þau hafa verið flutt síðan ég ásamt fleiri þingmönnum fyrst flutti frv. um þetta mál í ársbyrjun 1982 eða 1983. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra greini okkur frá því í hverju ágreiningurinn er fólginn því ég held að það sé nauðsynlegt að almenn umræða geti farið fram um þetta grundvallaratriði sem gæti kannski orðið til þess að hnekkja þeirri andstöðu sem virðist vera í sambandi við málið.