Störf í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:08:44 (7984)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Í 24. gr. þingskapa Alþingis segir, með leyfi forseta:
    ,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu`` o.s.frv. eins og segir þar í framhaldi.
    Nú liggur það fyrir í frétt Morgunblaðsins í morgun og staðfest af utanrrh. í fréttaviðtölum að mikilla breytinga sé að vænta í sambandi við starfsemi herstöðvarinnar í Keflavík. Þetta eru vissulega góð tíðindi sem ég ætla ekki að fara að ræða hér efnislega, góð tíðindi út frá almennum sjónarmiðum, en hitt er öllu lakara að mér sýnist að hér hafi verið brotið gegn ákvæðum þingskapalaga varðandi þetta mál eins og ég vitnaði til. Ég leitaði upplýsinga hjá utanrrn. í morgun um það hvenær vitneskja hefði komið um þetta til íslenskra stjórnvalda. Embættismaður vísaði starfsmanni þingmáladeildar á ráðherrann beint og ráðherrann hafði samband við mig nú í hádegishléi og greindi mér frá því síðan í símtali að vitneskja um þetta efni hefði borist þegar þann 16. apríl sl. og hann hefði tilkynnt hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og hv. formanni utanrmn. um þetta mál þann 19. apríl sl. Ég hef innt ritara utanrmn. eftir því hvort mál þetta hafi komið til umræðu í nefndinni. Ég er þar varafulltrúi Alþb. og hef ekki setið alla fundi síðan en var á síðasta fundi og starfsmaðurinn upplýsti að ekki hefði verið minnst orði á þetta mál í utanrmn. þingsins. Ég vek athygli hæstv. forseta á því hvernig á þessum málum er haldið af trúnaðarmönnum þingsins, hvernig gengið er gegn þingsköpum með þessum hætti sem ég hér lýsi, séu þessar upplýsingar réttar og þær liggja fyrir frá hæstv. utanrrh., og ég lýsi undrun á þessum vinnubrögðum og bið hæstv. forseta um að kanna þetta mál því að það brýtur gegn 24. gr. þingskapa að halda þannig á máli og það er fyrst í gegnum blaðafréttir á þessum degi að þjóðin er upplýst um það sem hefur verið að ganga á milli Stjórnarráðsins íslenska og sendiráðs í Washington og bandarískra stjórnvalda. Þetta er alvarlegt mál sem verður væntanlega rætt frekar síðar í dag efnislega, en ég vildi nota þetta tækifæri hér við hæstv. forseta að vekja athygli á því hvernig hér er haldið á málum af ríkisstjórninni og trúnaðarmanni Alþingis sem formanni utanrmn. gagnvart nefndinni.