Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Póllands

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 10:11:17 (8134)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Fyrirvari minn við þetta mál snertir þá þætti þessa fríverslunarsamnings við Pólland sem varða landbúnaðarsviðið og einnig iðnaðarsviðið. Ég vil að vísu ekki fullyrða að þarna sé um að ræða bein ákvæði sem geta verið skaðleg okkar hagsmunum, en ég tel hins vegar að ekki hafi verið gengið úr skugga um eins og þurft hefði að vera að svo sé ekki og þá hef ég í huga rýmkun á heimildum varðandi unnar landbúnaðarafurðir sem snerta þennan samning þar sem verið er að feta ekki ósvipaða slóð og í EES-samningnum og þar sem við þurfum sannarlega að gæta okkar. Það lá ekki fyrir utanrmn. nein skrifleg greinargerð frá landbrn. um þetta efni sem ég hefði talið að hefði þurft að fylgja málinu. Það er mjög margt sem hefur komið fram á undanförnum mánuðum að því er varðar óljós atriði, ófrágengin atriði á landbúnaðarsviði, m.a. í tengslum við EES-samninginn, og því kallar það á varfærni í málum sem þessum.
    Hitt atriðið sem ég vildi nefna er iðnaðarsviðið, en við eigum mikil samskipti og viðskipti við Pólland á því sviði, ekki síst á sviði skipasmíða og skipaviðgerða og það vantaði inn í málsmeðferðina að mér þótti af hálfu okkar í utanrmn. að fá skilmerkileg svör frá hagsmunaaðilum í málm- og skipasmíðaiðnaði að því er þetta varðar, en við skulum vona að samningurinn veiti svigrúm til eðlilegra aðgerða ef að mati íslenskra stjórnvalda æskilegt er og eðlilegt að grípa til þeirra og því hef ég ekki sett mig á móti málinu, en geri þessa fyrirvara sem ég hef hér gert grein fyrir.