Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:16:15 (8238)

     Hjörleifur Guttormsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Ég hafði rétt hafið ræðu mína áður en hlé var gert vegna þessarar merku umræðu sem síðan hefur farið fram um iðnaðarmál. Ég tek það fram við hæstv. forseta að mér er það alveg að meinalausu þó ég geri hlé á máli mínu. Ég segi það nú vegna þess að mér heyrðist að það stæði til að ræða hér mjög fljótlega annað mjög þýðingarmikið mál, annað en það sem hér er nú rætt sem sannarlega er mikilsvert en út frá öðru sjónarhorni en mælt hefur verið fyrir af meiri hluta utanrmn.
    Ég nefndi það í upphafi máls míns að það væri mjög erfitt að finna fyrir því rök, svo ekki væri meira sagt, að leggja fyrir Alþingi að fullgilda samning af þeim toga sem hér um ræðir í ljósi aðstæðna í Ísraelsríki. Ég nefndi það einnig að ábyrgð okkar Íslendinga á því hroðalega ástandi sem þar ríkir og þeim grófu brotum sem þar eru væri meiri en margra annarra þjóða og þess vegna þyrftum við í þessu máli að gæta okkar alveg sérstaklega. Ég held að það sé rétt, virðulegur forseti, að leiða aðeins til vitnis inn í þessa umræðu aðila sem hafa verið á vettvangi ekki alls fyrir löngu. Það er nú svo að fyrir okkur sem aldrei höfum til Ísraels komið og reynum að setja okkur inn í aðstæður út frá fréttum að það er auðvitað mjög lærdómsríkt að heyra vitnisburð þeirra sem þar hafa dvalið. Ég tala nú ekki um stjórnvöld sem heimsótt hafa Ísrael á liðinni tíð hafa nú ekki gert mikið af, þ.e. að líta út fyrir þá staði sem yfirvöld í Ísrael hafa vísað þeim á, hvað þá að fara í heimsókn á eigin vegum til hinna hernumdu svæða, þar sem ástandið er með þeim hætti sem þeir þekkja og lýsa sem þangað hafa komið. Það var auðvitað skelfilegt til þess að vita að hæstv. núv. forsrh. skyldi leggja leið sína til Ísraels á þeim tíma sem hann gerði. Ég ætla ekki að gera það að sérstöku umræðuefni hér en ég minni á það og ég minni á það sem ég held að hafi verið tilfinning þjóðarinnar á þeim dögum sem hæstv. forsrh. dvaldi í þessu ríki, í þessu ofbeldisríki, svo ég gefi því þá einkun sem ber, að það hafi verið röng ákvörðun af æðsta manni íslensku ríkisstjórnarinnar að þiggja boð til að heimsækja þetta ríki.
    Mér var að berast, virðulegur forseti, í póstinum í gær fréttabréf samtaka sem starfa hérlendis og heita Frjáls Palestína. Í málgagni þessa félags er að finna ýmis mjög athyglisverð atriði sem draga fram þróun mála eins og hún hefur verið að undanförnu síðustu missirin í þessu landi. Það vill svo til að ein aðalgreinin í þessu fréttablaði er rituð af einum hv. alþingismanni, sem er hér í þingsal og ég þykist vita að hv. þm. Árni Ragnar Árnason muni ekki hafa fyrir því að fara að lesa hér úr eigin verkum af þeirri hógværð sem ég þekki hann að. En ég tel alveg ótvírætt að það sé gagnlegt fyrir okkur Íslendinga og alþingismenn hér að heyra vitnisburð þessa alþingismanns Sjálfstfl. sem dvaldi á þessu svæði á síðasta ári og hefur ritað raunar áður um þetta efni í sama fréttarit en bætir nú við mjög fróðlegum upplýsingum, sem ég vil leyfa mér að grípa niður í, í grein sem er í þessu nýútkomna tölublaði.
    Hv. þm., sem ferðaðist til herteknu svæðanna, einnig til Ísraels og Jórdaníu með þingmannasamtökum um samvinnu Evrópu og Arabaþjóða í samstarfi við Hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir flóttamenn í Palestínu UNRWA frá 22. febr. til 1. mars 1992, þ.e. fyrir rúmu ári, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,UNRWA [þ.e. Hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna] starfrækir í öllum búðunum skóla og heilsugæslu, og á svæðinu sjúkrahús sem þjóna þeim öllum, veitir flóttamönnum félagslega þjónustu, starfsþjálfun, endurhæfingu og sérstaka þjálfun fyrir bæklaða, sem eru mjög margir vegna afleiðinga stríðsástandsins og mjög tíðra árekstra. UNRWA rekur kvennamiðstöðvar, veitir lögfræðiaðstoð og aðstoð við að koma á fót atvinnurekstri eða tekjuöflun, önnur slík á sér ekki stað hér. Starfsmenn UNRWA reyna að draga úr árekstrum við hernámsliðið, jafnvel ganga á milli ef til árekstra kemur. Allir skólar eru tvísetnir, jafnvel

þrísetnir. Ísraelar banna skólahald suma daga af öryggisástæðum, þannig glötuðust um 40% skóladaga á sl. ári. Ísraelar hafa einnig lokað skólum, nú er sex skólum UNRWA lokað, og er þá brugðið á það ráð að kenna í moskum, sem eru einu miðstöðvar Palestínumanna sem leyfðar eru. Öllum menningar-, félags- og æskulýðsmiðstöðvum þeirra hefur verið lokað eða ekki leyft að opna þær sem nýlegar eru. Opinber þjónusta Palestínumanna sjálfra er lömuð og leita þeir því til UNRWA sem bregst við eftir getu. Um 15.000 fjölskyldur flóttamanna fá daglega mat, teppi eða aðra neyðarhjálp. Útgjöld UNRWA á Gaza eru um 60 millj. dollara á ári (um 20 kr. á dag á hvern flóttamann).
    Við ókum hringferð um Gaza, [segir þingmaðurinn] syðst um smáborgina Rafah með tugum þúsunda íbúa. Henni var skyndilega breytt þegar samdist með Ísraelum og Egyptum í Camp David eftir áralangt stríð. Þeir sömdu um ný landamæri og þau liggja um Rafah. Fjölskyldur kallast á yfir einskismannsland og landamæragirðingar með varðturna á báða bóga, þar sem áður voru götur og hús. Íbúarnir voru einskis spurðir.``
    Síðar í greininni segir hv. þm. undir fyrirsögninni: Undirokun á vinnumarkaði --- þrælahald nútímans?
    ,,Á Gaza-ströndinni er nú 40--60% atvinnuleysi, svo tugir þúsunda vinnufærra manna eru án atvinnu, en atvinnumöguleikar þeirra eru sem láglaunavinnuafl fyrir atvinnuvegi og ,,landnámsbyggðir`` Ísraels. Eftir Persaflóastríðið jókst mjög atvinnuleysi því að í Flóaríkjunum höfðu allmargir Palestínumenn unnið um árabil, en hafa síðan verið reknir þaðan og koma nú heim atvinnulausir. Það er óleysanlegt vandamál því fyrir var gífurlegt atvinnuleysi. Afkoma fólks á svæðinu hefur versnað gríðarlega því tekjur þessara manna komu áður nær óskertar heim til fjölskyldna þeirra og voru umtalsverðar. Þá hefur dregið mjög úr framlagi Flóaríkja til UNRWA og Palestínu, sem áður var umtalsvert.
    Framboð vinnuafls í Ísrael hefur aukist mjög vegna stöðugs og aukins innflutnings gyðinga frá öllum heimshlutum, einkum Sovétríkjunum fyrrverandi. Þeir ganga fyrir Palestínumönnum um atvinnu og taka jafnharðan betur launuðu störfin, svo tekjur Palestínumanna minnka og atvinnulausum fjölgar jafnt og þétt.``
    Vítahringur hefndarstríðs og kúgunar, er yfirskrift á næsta þætti hjá hv. þm.
    ,,Palestínumenn hófu hófu Intifata-uppreisnina 1987 vegna hertra aðgerða Ísraelsmanna á herteknu svæðunum og aukinnar eignaupptöku, einkum á jörðum og landi, en síðan hafa Ísraelar hert öryggisráðstafanir. Strangari reglur gilda um ferðir út af hernumdu svæðunum til vinnu eða til að leita atvinnu. Frá því Persaflóastríðið hófst hafa þær enn harðnað því meðan það stóð jukust viðsjár Palestínumanna og Ísraela.
    Það nýjasta er að Palestínumenn á herteknu svæðunum þurfa að hafa vinnuleyfi, auk sérstaks ferðaleyfis og skírteinis um búsetu á herteknu svæði Ísraels. Ferðaleyfi fá þeir ekki sem eru á skrá fyrir ítrekuð mótmæli og andstöðu við hernaðaryfirvöldin á herteknu svæðunum. Vinnuleyfi fá þeir svo ekki nema að hafa ráðningarsamning hjá vinnuveitanda í Ísrael.``
    Nokkru síðar: ,,Að undanförnu hefur öryggisástandið enn versnað og Ísrael enn hert tökin. Ekki líður svo vika að ekki komi til átaka við Ísraela, oftast við hersveitir þeirra.``
    Síðar: ,,Af og til verða árekstrar við ,,landnema`` og þeir leiða alltaf til mjög harðra viðbragða Ísraelshers, því bæði stjórnmálamenn og herinn eru mjög viðkvæmir fyrir ,,landnámsbyggðunum``. Í ársbyrjun 1992 var fyrirmælum hermanna breytt og þeim gefnar frjálsar heimildir til að skjóta Palestínumenn.`` --- Ég bið menn að leggja við hlustir í lýsingu hv. þm. Árna Árnasonar á þessu ástandi. ,,Ísraelar taka nú fleiri til yfirheyrslu, gera fleiri útlæga og halda fleiri föngum um sinn eða lengi án sakarefna. Í síðustu viku [segir þingmaðurinn en það er nú eitthvað síðan þetta var ritað] létust Palestínumenn í fangelsum Ísraels af afleiðingum pyntinga, rétt fyrir upphaf síðustu lotu friðarviðræðnanna var 12 Palestínumönnum vísað úr landi án sakarefna.``
    Síðar í greininni kemur lýsing á ,,gettóinu`` Gaza, þar sem hv. þm. Árni Árnason segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Örvænting Palestínumanna er mikil, einkum fólksins á Gaza-ströndinni. Því eru nánast allar bjargir bannaðar og framkoma Ísraela í þess garð er harðneskjuleg, niðurlægjandi og niðurbrjótandi.
    Hér að framan hefur verið sagt frá atvinnuástandinu, valdi Ísraela á vatnslindum og upptöku landareigna, en 95% af ,,landnámsbyggðum`` gyðinga eru á ræktarlöndum sem eru í einkaeign Palestínumanna.
    Allir fjölmiðlar eru bannaðir, útvarp, sjónvarp, allar fréttir, dagblöð og tímarit. Aðeins veggjakrotið og samkomur í moskum eru eftir til að miðla tíðindum, skilaboðum og öðru markverðu. Og moskunum er lokað þegar slær í brýnu, þangað gætu þeir flúið.
    Á Gasa hefur verið útgöngubann frá því klukkan átta að kvöldin alla daga um árabil, og símasambandslaust við umheiminn, algjör einangrun.
    Öll vegaskilti og landakort sýna bæi og ,,landnámsbyggðir`` Ísraela. Bæir og byggðir Palestínumanna eru hvergi nefnd á nafn.
    Palestínumenn mega ekki gefa út persónuskilríki.``
    Síðar segir hv. þm., því ég stikla hér aðeins á nokkrum þáttum úr grein hans, undir yfirskriftinni: Lægra settir í eigin landi.
    ,,[Árið] 1986 samþykkti Evrópuþingið beinan innflutning afurða frá Vesturbakkanum til Evrópubandalagsins. 1987 kom hann til framkvæmda, en EB varð að þvinga Ísraela til að leyfa útflutninginn. EB þarf oft að hafa afskipti af Ísrael, sem vill stöðva hann eða eyðileggja [þ.e. útflutninginn] og beitir til þess

alls konar ráðum, gefur ekki út leyfi, tefur sendingar á umskipunarstöðum o.fl. Gaza-fólki er alveg meinaður útflutningur afurða sinna.
    Háskólum Palestínumanna er lokað af Ísraelum, sumum hefur nú verið lokað samfellt í þrjú ár.
    Kynþáttum, þjóðum og trúfélögum`` --- hv. þm., leggið nú við hlustir: ,,Kynþáttum, þjóðum og trúfélögum sem búa í Ísrael er mismunað. Gyðingar fá réttindi umfram alla aðra, og í þeirra þágu eru kristnir og múslimar beittir misrétti.``
    Þetta er ekki úr mínum penna, þetta er hv. þm. Árni Árnason sem þarna var á ferð fyrir rúmu ári síðan og er að lýsa eigin reynslu í þessari grein:
    ,,Þó verður þess vart að gyðingar sem giftast maka af öðru trúfélagi missa stöðu sína innan samfélags gyðinga, eru lagðir í einelti, njóta ekki forgangsréttar að atvinnu og eignum, og virðist yfirleitt leiða til skilnaðar. Palestínumenn fá minni réttindi en fólk af öðrum arabískum uppruna, svo sem bedúínar, drúsar og sýrkassar. Palestínumenn sem ekki flúðu út úr Ísrael 1948 (búsettir í Ísrael; ,,ísraelskir arabar``) eru betur settir en hinir sem flúðu til þeirra svæða sem síðar voru hertekin 1967 (Gaza, Jerúsalem og Vesturbakkinn). Öllum þjóðum innan Ísraels öðrum en Palestínumönnum, gefst kostur á ókeypis skólagöngu fyrir börn sín, en Palestínumenn verða að greiða skólakostnað að fullu. Palestínumenn búsettir í Ísrael hafa minni rétt til opinberra starfa en allir aðrir.
    Palestínumenn á hernumdu svæðunum fá ekki borgararétt, aðeins þrjú aðskilin skírteini:
atvinnuleyfi, ferðaleyfi og persónuskírteini, sem tilgreinir að viðkomandi sé Arabi af ,,óskilgreindu þjóðerni``, búsettur í tilteknu héraði í Ísrael: Jerúsalem svæðinu (þeir fá meiri réttindi en Palestínumenn á öðrum herteknum svæðum), Samaríu eða Júdeu ef viðkomandi býr á Vesturbakkanum, annars Gaza (þeir fá lökust réttindi).
    Innflytjendur til Ísraels frá fyrrverandi Sovétlýðveldum fá strax ríkisborgararétt og í vegabréfi þeirra er tilgreint ,,án þjóðernis`` en það telur Ísrael vera skilgreint þjóðerni(!) [þ.e. að vera án þjóðernis].``
    Síðan undir fyrirsögninni: Nýlendustefna og landnám.
    ,,Alvarlegasta átakaefnið er nýlendustefna gyðinga og ,,landnám`` með upptöku eigna Palestínumanna. Eignir Palestínumanna, hús og lönd, eru teknar af þeim undir margs konar yfirskini:
    1. eign er yfirgefnin af palestínskum eiganda 1967 eða síðar,
    2. svæði lýst ríkiseign,
    3. eignarnám í almannaþágu,
    4. eignarnám af öryggisástæðum,
    5. eign telst hafa verið í eigu gyðinga 1936 eða fyrir 1948.
    Þegar eignarnámsástæður teljast vera til staðar gengur landið til Jewish Foundation, sem ekki er heimilt að selja eignir öðrum en gyðingum. Svæði lýst ríkiseign er síðar lýst opið eingöngu gyðingum og virðist aðferð til að taka lönd undir ,,landnám``. Ákvæðum um eign yfirgefna af palestínskum eiganda 1967 eða síðar er m.a. beitt við hluta eignar, og eru þá notuð til þess að hrekja burtu þá sem eiga aðra hluta hennar. Eignarhlutinn er seldur eða afhentur gyðingum, sem flytja inn og krefjast síns hlutar í eigninni (stundum aðeins hluti íbúðar). Ef fyrir eru palestínskir eigendur annarra eignarhluta stofna gyðingar til ósættis, og kæra síðan ósættið. Þá er öllum eigendum skipað að fara af eigninni til að stilla megi til friðar. Þar með teljast aðrir hlutar eignarinnar einnig yfirgefnir af palestínskum eiganda, og eru seldir eða afhentir gyðingum.``
    Í lok þessarar greinar segir þingmaðurinn, svo ég fari að stytta lesturinn og hlaupi hér aðeins á köflum, undir fyrirsögninni ,,Þeir vilja okkur feiga``. Hann er að greina frá reynslu sinni:
    ,,Þeir telja það stefnu Ísraels [þ.e. Palestínumenn] að ekki takist friðarsamningar, og Ísraelsstjórn ætli sér að hrekja Palestínumenn á Gaza í sjóinn og eyða þjóðinni sem slíkri af yfirborði jarðar. --- ,,Þeir vilja okkur feiga.`` --- Það er tilvitnun eftir viðmælanda greinarhöfundar. --- ,,Almenningur í Evrópu hefur enga hugmynd um hve alvarlegt ástandið hér er og hve mikilvægt er að Ísrael fáist til að semja um frið og réttindi okkur til handa annars förumst við.``
    Og önnur tilvitnun: ,,Hvers vegna beita vestrænar þjóðir ekki Ísrael sams konar viðskiptaþvingunum og Suður-Afríku? Er einhver munur á þessum tveimur aðskilnaðarríkjum kynþátta og trúarbragða?``
    Þeir sögðust ekki greina möguleika á breytingum í framhaldi af þingkosningum Ísraela, og ekki geta gert ráð fyrir breyttri afstöðu Ísraels til samninga eftir kosningar. Enginn ísraelskur stjórnmálamaður hafi enn sem komið er lýst fylgi við að Palestínumenn fái full borgararéttindi eða að stofna eigið þjóðríki.
    Nýlega létust Palestínumenn í ísraelskum fangelsum, af afleiðingum pyntinga. Frá upphafi Intifata 1987 hafa fjölmargir Palestínumenn látist eftir pyntingar í fangelsum Ísraels. Yfir 100 þús. Palestínumenn hafa orðið örkumla eða látist í átökum síðan Intifata hófst, hærra hlutfall en í Víetnam.``
    Þetta segir greinarhöfundur, virðulegur forseti, undir lok þessa yfirlits í frásögn af reynslu sinni úr ferð til þessa ríkis. Það eru aðrar frásagnir en við höfum fengið frá þeim fulltrúum íslenskra stjórnvalda, ráðherrum sem sótt hafa ísraelsk stjórnvöld heim á liðnum árum á kostnað hins opinbera. Ég bið hv. alþm. um að setja sig inn í þessar aðstæður og reyna að tengja þetta mál þessar lýsingar frá fyrstu hendi, frá þingmanni í þessum sal, við þá tillögu sem hér er til umræðu. ( Forseti: Forseti vill inna hv. þm. eftir því hvort hann er u.þ.b. að ljúka máli sínu eða hvort hann vill fresta ræðu sinni því hér er ætlunin að hefja utandagskrárumræður.) Virðulegur forseti. Ég hafði í hyggju að segja talsvert meira. En ég tel að í rauninni hafi

ég með tilvitnun í ræðu annars þingmanns hér sagt flest það sem segja þarf í bili um þetta mál. Ég hef möguleika á að koma hér inn í umræðu síðar og mun væntanlega nota mér þann rétt síðar við þessa umræðu. Þetta mun verða síðari umræða um málið og þar á ég einhvern rétt eftir. Ég vil að aðrir komist hér að til að segja álit sitt á þessu máli og því vil ég með þessum orðum ljúka ræðu minni um leið og ég þakka hv. þm. Árna Árnasyni fyrir það að koma frá sér þeim upplýsingum sem hann hefur reitt fram Alþingi og íslenskri þjóð til upplýsinga.