Rannsóknir á botndýrum við Ísland

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 10:01:15 (8304)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Í máli hv. formanns sjútvn. og frsm. fyrir þessari tillögu kom fram að hér fyrir einhverjum árum mundi hafa verið samþykkt tillaga um skyld efni og ég held að það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, að ég aðeins upplýsi um það og tengi það aðeins við þetta mál því það er satt að segja ekki alveg á réttum stað að Alþingi sé að þvæla í málum árum saman í óvissu um það hvað gert hefur verið á vegum þingsins. Mér finnst að þær tillögur allar þrjár sem hér eru undirstaða fyrir þessu máli tengist þeirri ályktun sem Alþingi gerði 24. feb. 1987 samhljóða og það er rétt, virðulegi forseti, að ég kynni hana.
    Ég er að vísu með þáltill., ég held að það hafi aðeins einu atriði verið breytt og ég leyfi mér með þeim fyrirvara að lesa það hér úr þingmáli:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir að fram fari skipulegar rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnslóð og kortlagning slíkra miða til að auðvelda veiðar, ekki síst innfjarða.
    Gerð verði áætlun um þetta verkefni með það í huga að ljúka slíkum yfirlitsrannsóknum á næstu fimm árum og til þess verði veitt sérstakt fjármagn úr ríkissjóði . . .  ``
    Í tillögunni var gert ráð fyrir í fyrsta sinn á fjárlögum 1987, ég held að það hafi ekki verið sett af kurteisi við fjárveitinganefnd.
    Í haust, snemma á þingi, beindi ég fsp. til hæstv. sjútvrh. um rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnsævi með sérstöku tilliti til þessarar þál. og það liggur fyrir á þskj. 294 á þessu þingi, svar hæstv. ráðherra, allítarlegt með fskj. upp á 18 síður við þessari fsp. Þar kemur fram m.a., virðulegur forseti, að í samræmi við þál. fól sjútvrn. Hafrannsóknastofnun 3. mars 1987 að gera fimm ára áætlun um skipulegar rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnslóð og kortlagningu slíkra miða ásamt kostnaðaráætlun þar um. Á vegum Hafrannsóknastofnunar var slík áætlun unnin ásamt kostnaðaráætlun fyrir fyrsta árið af fimm

og fylgir hún hér með á fskj. Í þáltill. var tekið fram að rannsóknir skyldu fjármagnaðar sérstaklega. Í fjárlagatillögum stofnunarinnar og ráðuneytisins fyrir árið 1988 var í samræmi við þáltill. óskað eftir nýrri stöðuheimild fyrir náttúrufræðing til rannsókna á vannýttum hryggleysingjum. Fjmrn. féllst ekki á beiðni þessa. --- Hver ætli hafi verið fjmrh. þá? --- Var málið þá tekið upp við fjárveitinganefnd á haustmánuðum 1987 en fékk ekki úrlausn. Sérstök fjármögnun til þessa verkefnis hefur því ekki fengist. Þrátt fyrir það hefur Hafrannsóknastofnun reynt að stunda hluta þessarar rannsóknar eftir því sem þröng fjárráð hafa leyft. Síðan kemur yfirlit yfir viðleitni stofnunarinnar til þess. Væri fróðlegt fyrir flm. þessara tillagna, ekki síst fyrir sjútvn., að kynna sér það sem þar kemur fram. Í svarinu er bent á það verkefni sem unnið er að í norrænni samvinnu og lýtur stjórn umhvrn. en um það verkefni, sem varðar einmitt tegundafjölbreytni, magn og útbreiðslu botndýra á íslenska hafsvæðinu, segir að þessi rannsókn mun þó ekki veita upplýsingar um stofnstærð hugsanlegra nytjastofna í framtíðinni nema að mjög litlu leyti. Þannig að það leysir ekki þann vanda sem hér blasir við.
    Um svipað leyti, það mun hafa verið vorið 1988, þinginu seinna, fékk ég samþykkt á Alþingi tillögu svohljóðandi, virðulegur forseti, þann 11. maí 1988:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efla starfsemi Hafrannsóknastofnunar á grundvelli áætlunar stofnunarinnar um haf- og fiskirannsóknir 1988--1992. Einkum skal við það miðað að gera stofnuninni mögulegt að auka rannsóknir á vistkerfi íslenska hafsvæðisins og eldi sjávarlífvera.``
    Þetta var samþykkt á Alþingi. Ég gekk eftir því hverjar efndirnar væru og það er ekki mjög auðvelt að lesa út úr svari hæstv. sjútvrh. frá því í haust um það efni því framlög eru þar metin á fjárlögum hvers árs en það er vísað til að í einstaka þætti hafi verið veitt fjármagn, t.d. til að efla starfsemi tölvudeildar. Síðan er það verkefnið sem varðaði auknar rannsóknir á hrygningu og klaki þorsksins þar sem óskað var eftir um 10 millj. kr. á yfirstandandi fjárlögum og fjárln. sinnti ekki málinu. Ég flutti hér tvær tillögur við afgreiðslu fjárlaga, fyrst um 10 millj., síðan um 5 millj., og þetta var kolfellt af stjórnarliðinu, ég man nú ekki hvernig atkvæði féllu hjá hv. þingflokksformanni Alþfl., en alla vega nægði þessi tillaga ekki til að fá eyri í þetta verkefni í gegnum fjárlög þessa árs.
    Ég bið hv. alþm. að reyna að skoða þessi mál í einhverju samhengi og vera ekki að dreifa hér pappír og stilla þinginu frammi fyrir samþykktum, endurtekningu á samþykktum sem liggja fyrir af hálfu þingsins þó auðvitað ætli ég ekki að hafa á móti því að menn geri slíkt ef þeir telja að það friði samvisku þeirra. En það væri betra að menn sýndu eitthvað í verki hér í tengslum við fjárveitingar til þeirra verkefna sem varða undirstöðu okkar en vera ekki með sýndarmennsku af því tagi sem þessi tillöguflutningur ber vott um. Allar þrjár tillögurnar sem hreyft var hér af hv. þm. eru auðvitað góðra gjalda verðar. Þær snerta þetta verkefni sem hugmyndin var að yrði tekið á heildstætt af Hafrannsóknastofnun samkvæmt áætlun og með fjármagni til nokkurra ára. Menn eru að kroppa í þetta um stuðning við tilraunaveiðar og þróun veiðarfæra vegna veiða á ígulkerum, um rannsóknir á botndýrum á Breiðafirði, könnun á nýtingu ígulkera. --- Hv. formaður sjútvn., sem flytur tillögu þar um, væri ekki nær að ganga í verkin og reyna að tryggja það með þátttöku í ríkisstjórn og þeirri aðstöðu sem menn þar hafa, jafnvel sem þingflokksformenn, að komi fjármagn til þeirra verka sem Alþingi hefur lýst blessun sinni yfir og samþykkt ekki fyrir mjög löngu síðan? En ég ítreka það, virðulegur forseti, það skal ekki standa á stuðningi mínum við hvaðeina sem mætti þoka þessu máli áfram. Ef það er trú manna að þessi tillaga frá sjútvn. geri það þá ætla ég auðvitað ekki að fara að leggjast gegn henni.