Rannsóknir á botndýrum við Ísland

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 10:22:38 (8307)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vona að hv. formaður fjárln. gangi ekki á dyr þó að hér sé komið upp til andsvara, en það mátti skilja að hér væri komin upp andstaða hjá formanni þingflokks Alþfl. við þá áætlun formanns fjárln. að setjast í ráðherrastól frá 1. júní líklega að telja þannig að þetta er út af fyrir sig merkilegt. ( ÖS: Hvaðan hefur þingmaðurinn þessar upplýsingar?) Þetta eru alveg ferskar upplýsingar frá þessum morgni, að hv. formaður fjárln. ætli sér að setjast í ráðherrastól frá 1. júní. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að ræða hér í andsvari, virðulegi forseti, heldur fyrst og fremst það að það er mikil nauðsyn á því að tekið sé heildstætt á málununum og mér finnst að það skorti kannski nokkuð á að það sé gert hér með þessari tillögu sjútvn. sem ég vil síður en svo lasta og ég þakka allan þann stuðning, einnig frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni við að þoka þessum málum fram.
    Vegna þess að þingmaðurinn ræddi sérstaklega ígulker og hefur flutt tillögu þar að lútandi, þá vil ég bara rifja það upp að í þingmálinu sem var á bak við samþykkt Alþingis í febr. 1987 var einmitt sérstaklega vikið að ígulkerum með þessum hætti, virðulegi forseti. Það er örstutt. Ég bið formann sjútvn. að hlusta. ( ÖS: Hann hlustar.) Já.
    ,,Í hörpudisksplóga fæst oft talsvert af ígulkerum eða allt að 100--300 kg í stuttum togum. Hér er um tvær tegundir að ræða sem virðast a.m.k. víða algengar á 10--60 metra dýpi inni á fjörðum og flóum. Báðar þessar tegundir eru þekkt markaðsvara en mjög hátt verð er stundum í boði fyrir ígulkerahrogn, einkum á Japansmarkaði. Álitið er að veiða megi allt að fáeinum hundruðum tonna af ígulkerum hér við land með skelplógum og froskköfun þar sem dýpi er lítið og botn of harður fyrir veiðarfæri.``
    Þannig var hér listi yfir þá möguleika sem líffræðingar Hafrannsóknastofnunar sáu á þessum tíma og voru að baki þeirri samþykkt sem hér var rifjuð upp. En við skulum þá reyna að stíga á stokk hér, formaður þingflokks Alþfl. og formaður sjútvn., og reyna að tryggja það að það verði eitthvert fjármagn sem um munar til þessara mála á næstu fjárlögum og það er þar sem hlutirnir ráðast, það er á þeim vettvangi. Þar hefur sem stendur formaður sjútvn. eitthvað betri aðstöðu heldur en sá sem hér talar til þess að hafa áhrif á hlutina. Og jafnvel þó að svo færi að núv. formaður fjárln. settist í ráðherrastól, þá ætti það nú ekkert að versna aðstaðan, en hann er einmitt einn af flm. þessara mörgu ígulkeratillagna sem Alþfl. hefur borið fram á þinginu.