Fuglaveiðar og fuglafriðun

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 12:41:58 (8351)

     Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Það kemur í ljós í sambandi við þetta mál eins og stundum áður að þessi ræðustóll er hannaður fyrir tíma hins Evrópska efnahagssvæðis. Hann hefur verið smíðaður með tilliti til þeirra aðstæðna sem ríktu lengi vel á Alþingi Íslendinga að það var hægt að ræða mál og fjalla um mál fyrst og fremst á grundvelli íslensku stjórnarskrárinnar, íslenskra laga og þeirra reglna sem settar hafa verið af íslenskum stjórnvöldum. En nú er öldin önnur. Nú hafa aðstæður breyst, m.a. og ekki síst eftir atkvæðagreiðslu fyrir fáum dögum, þar sem meiri hluti á Alþingi Íslendinga staðfesti samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Með þeim gjörningi hafa þær aðstæður verið búnar Alþingi Íslendinga að til þess að fjalla um mál í þinginu og í nefndum þingsins þurfa þingmenn ekki aðeins á þeirri löggjöf að halda sem sett hefur verið á Íslandi, á liðinni tíð og í gildi er, og reglugerðum íslenskum, heldur þurfa menn að þekkja til Evrópuréttarins og alls sem honum fylgir, þeirra grundvallarreglna sem hann er reistur á, sem hann byggir á, og þeirra afleiddu reglna og samþykkta sem gerðar hafa verið á grundvelli þess réttar, þeirra grundvallarsamþykkta. Þar er, eins og oft hefur verið minnst á hér á þessu þingi og raunar á nokkrum fyrri þingum, ekki aðeins um að ræða eina litla bók eða fáar bækur. Þarna er safn samþykkta sem mældar verða í tugum metra á þverveginn, svo vægt sé til orða tekið, og sennilega mun meira ef allt væri tínt til sem gengur inn í grundvöll þess réttar sem þarna er um að ræða.

    Ég hef í tengslum við þetta mál, virðulegur forseti, séð mig knúinn til að taka með eitt lítið brot, eitt prómill og ekki það, af því safni sem tengist þessum Evrópurétti og sem þetta mál, það frv. ásamt nál. og brtt. sem hér er rætt, byggir á. Eins og ég hef þegar greint virðulegum forseta frá þá er nauðsynlegt af minni hálfu að fjalla allítarlega um þetta mál einmitt í ljósi þeirra breytinga á réttarstöðu fyrir Alþingi Íslendinga og fyrir íslenska þjóð sem blasir við að samþykktum EES-samningi. Þetta frv. sem við hér ræðum eru viðbrögð við þeim samningi, fram borið af hæstv. umhvrh. snemma á þessu þingi. Síðan hefur verið fjallað um þetta mál í þingnefnd og hv. 5. þm. Austurl., formaður umhvn., hefur mælt fyrir áliti meiri hluta nefndarinnar. Ég hef hins vegar ekki getað slegist í þann hóp sem þar stendur að áliti heldur stend að minnihlutaáliti frá nefndinni þar sem gert er ráð fyrir því sem aðaltillögu að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég mun í máli mínu gera grein fyrir því hvers vegna ég geri þá tillögu en tek ekki undir með meiri hluta nefndarinnar um að þetta frv. verði samþykkt.
    Ég mun, virðulegur forseti, byrja á því að kynna nál. sjálft þannig að ljóst verði strax á hverju ég reisi mínar skoðanir að því er snertir þetta mál. Ég vænti þess að hv. 5. þm. Austurl. sitji við þessa umræðu, svo mjög umhugað sem hv. þm. var að fá hana hér á dagskrá. Þar sem hann er frsm. meiri hluta nefndarinnar þá vænti ég þess að hann hlýði á mál mitt og auðvitað mundi ég ekki lasta það að hv. aðrir fulltrúar sem standa að meirihlutaáliti nefndarinnar legðu það á sig að vera einnig viðstaddir þessa umræðu. Ég óska því eftir því, virðulegur forseti, að hv. 5. þm. Austurl. komi í þingsal. ( Forseti: Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til að láta sækja hann.) Virðulegi forseti, þá mun ég doka við uns þingmaðurinn birtist. --- Virðulegur forseti, er hv. þm. í húsi? ( Forseti: Forseti er að reyna að fá tölvuskjáinn til þess að upplýsa forseta um það, það gengur ekki alveg nógu vel raunar. --- Hv. 5. þm. Austurl. er kominn í salinn.) Ég þakka, virðulegur forseti, og ég treysti því að áhugamaður númer eitt um að þetta mál sé rætt hér, fyrr en seinna, hlýði á umræðu framvegis.
    Álit minni hluta umhvn. er svohljóðandi, virðulegur forseti:
    ,,Umhverfisnefnd leitaði umsagna um frumvarpið og fór yfir þær er bárust á fundi 9. desember sl. Á fundi nefndarinnar 16. desember var um það rætt að láta umfjöllun þessa máls fylgja meðferð stjórnarfrumvarps um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum, sem er 302. mál yfirstandandi þings. Meðferð þess frumvarps varð eigi lokið og brá þá meiri hluti nefndarinnar á það ráð á fundi 5. maí sl. að afgreiða frumvarpið um breytingu á einni grein gildandi laga um fuglaveiðar og fuglafriðun frá nefndinni.
    Þessari málsmeðferð er minni hluti nefndarinnar ósamþykkur og vísar m.a. til eftirfarandi atriða sem fram koma um málið í umsögnum til nefndarinnar.``
    Áður en ég kem að þeim, virðulegur forseti, þá langar mig að biðja virðulegan forseta að vekja athygli hv. þm. Jóns Helgasonar á því, en sá þingmaður á sæti í umhvn. þingsins, að ég hefði kosið að hann væri í þingsal stutta stund á meðan ég fer yfir umsagnir. Að öðru leyti mun ég halda áfram, virðulegur forseti, mínum lestri ef þessum boðum væri komið til hv. 2. þm. Suðurl., Jóns Helgasonar.
    Það er þá fyrst frá Náttúrufræðistofnun Íslands:
    ,,Frumvarpsins er auðsjáanlega þörf vegna aðildar Íslands að EES svo að Íslendingar og erlendir ríkisborgarar sitji við sama borð. Það opnar þá einnig fyrir óheftar veiðar útlendinga, en íslensk lög og reglugerðir hafa löngum miðað að því að koma sem mest í veg fyrir veiðar útlendinga.
    Hér er gerð breyting á 5. gr. laga nr. 33/1966, en eftir sem áður takmarkar reglugerð um skotvopn og skotfæri (nr. 16/1978), sem sett er samkvæmt lögum nr. 46/1977, erlendum ríkisborgurum í reynd aðgang að íslenskum veiðilendum  . . .  Þrátt fyrir frumvarpsbreytinguna setur reglugerðin erlendum veiðimönnum skorður, nema henni verði breytt samhliða frumvarpinu sem þá er á hendi dómsmálaráðherra. Það er svo annað mál að 3. liður reglugerðarinnar hefur verið brotinn allra seinustu ár því að Íslendingar hafa flutt inn útlenda veiðimenn eins og um ferðaþjónustu væri að ræða. Veiðar útlendinga hafa verið kynntar í erlendum bæklingum sem hluti af ferðaþjónustu bænda. Nýlega flutti Íslendingur inn norska blaðamenn gagngert til þess að kynna þessa hlið ferðaþjónustu. Þetta er augljóslega gert með atvinnusjónarmið í huga. Íslendingarnir þekkja ekki útlendingana persónulega og er því greinilega um brot að ræða.
    Veiðum útlendinga hafa einnig fylgt lögbrot sem eru fólgin í því að þeir hafa farið með fenginn úr landi án þess að hafa tilskilin útflutningsleyfi frá umhverfisráðuneyti. Allur útflutningur á fuglum er háður leyfum að rjúpu undanskilinni. Eftirlit með því hvað er flutt út af fuglum er nánast ekkert nema sérstakar ábendingar um yfirvofandi brot hafi komið fram. Frumvarpið opnar á það . . .  `` --- Virðulegur forseti. Mér sýnist frsm. meiri hlutans vera horfinn af vettvangi og hafði ég þó óskað eftir nærveru hans í þingsal --- ( Gripið fram í: Viltu halda honum inni?) ,, . . .  að útlendingar geti komið til landsins og stundað fuglaveiðar, t.d. rjúpnaveiðar, í atvinnuskyni. Þeir mættu flytja allar þær rjúpur sem þeir vilja úr landi án leyfa. Nýtt frumvarp til laga um fuglafriðun og fuglaveiðar gerir ráð fyrir að leyfi þurfi einnig vegna útflutnings á rjúpum. Meðan hér á landi er engin stýring á hve mikið einstakir veiðimenn mega veiða af fuglum er ekki á bætandi að erlendir ríkisborgarar geti veitt hér óheft.`` --- Virðulegur forseti. Hvað veldur því að sá hv. þm. sem lagði ofurkapp á að mál þetta yrði einmitt rætt nú, frsm. meiri hluta nefndarinnar, hefst ekki við í þingsal til að hlýða á álit minni hlutans? ( Forseti: Forseti vildi af þessu tilefni og öðru spyrja hv. þm. hvort hann væri ekki tilbúinn til þess að gera hlé á ræðu sinni.) Hvenær sem er, virðulegur forseti. ( Forseti: Nú þegar, ef samkomulag gæti orðið um það.) Að sjálfsögðu, virðulegur forseti. Ég

hef ekki lagt kapp á að mál þetta kæmi til umræðu, ég hef eingöngu hlýtt fyrirmælum forseta. ( Forseti: Þá vildi forseti óska eftir því að hv. þm. gerði hlé á ræðu sinni.) Það er velkomið.