Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 16:00:49 (8382)

     Hjörleifur Guttormsson :

    Virðulegur forseti. Framferði Ísraels hefur hlotið almenna fordæmingu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en ísraelsk stjórnvöld hafa skellt skollaeyrum við öllum samþykktum þeirra. Fyrir liggja skýlaus brot Ísraelsstjórnar á alþjóðasamningum um mannréttindi og vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Á síðasta ári steig Ísraelsstjórn enn eitt óheillaskref í samskiptum við Palestínumenn þegar á fimmta hundrað óbreyttra borgara voru reknir úr landi yfir í einskismannsland.
    Alþingi ályktaði um deilur Ísraels og Palestínumanna 18. maí 1989 þar sem þingið leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna. Ljóst er að engar forsendur eru til þess fyrir Palestínumenn að hagnýta sér ákvæði fyrirliggjandi fríverslunarsamnings eða þess samnings sem hér er gerð tillaga um og ákvæði 24. gr. samningsins um undanþágur af öryggisástæðum en þær veita ísraelskum stjórnvöldum svigrúm til geðþóttaákvarðana. Hér ætti ekki að liggja fyrir sú tillaga sem nú eru greidd atkvæði um heldur tillaga um það að þingið álykti um að heimila ríkisstjórninni að standa að efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Ísrael. Ég segi nei.