Ferill 18. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 18 . mál.


18. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Flm.: Páll Pétursson, Geir H. Haarde, Svavar Gestsson,


Össur Skarphéðinsson, Kristín Ástgeirsdóttir.



1. gr.


    Í stað orðanna „fjögurra varaforseta“ í 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: sex varaforseta.

2. gr.


    2. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skal ljúka skýrslugerðinni innan 10 vikna og skal skýrslan þá prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi.

3. gr.


    49. gr. laganna breytist þannig:
    3. málsl. 5. mgr. orðast svo: Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en þrjár mínútur í fyrra sinn og eigi lengur en tvær mínútur í síðara sinn og ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í fyrra sinn og eigi lengur en tvær mínútur í síðara sinn.
    Síðari málsliður 7. mgr. orðast svo: Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en þrisvar, eigi lengur en tvær mínútur í fyrsta sinn og eigi lengur en eina mínútu í annað og þriðja sinn.

4. gr.


    Í stað 4. og 5. málsl. fyrri málsgreinar 50. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Enginn má tala oftar en tvisvar um hvert mál, málshefjandi og viðkomandi ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í fyrra sinn og eigi lengur en tvær mínútur í síðara sinn, en aðrir þingmenn og ráðherrar eigi lengur en tvær mínútur í senn.

5. gr.


    Síðari málsliður 2. mgr. 55. gr. laganna orðast svo: Enginn má þó tala lengur en þrjár mínútur í senn.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við samkomulag sem tekist hefur milli allra þingflokka um breytingar á þingsköpum Alþingis. Meginefni þess felst í breyttri skipan forsætisnefndar og nokkrum breytingum sem varða ræðutíma þingmanna.
    Samkvæmt frumvarpinu verður forsætisnefnd skipuð sjö þingmönnum, forseta og sex varaforsetum. Breyting þessi miðar að því að gera öllum þingflokkum kleift að fá aðild að forsætisnefnd en þó þannig að höfð sé hliðsjón af þingstyrk flokkanna.
    Eftirfarandi breytingar verða á ræðutíma þingmanna: Ræðutími fyrirspyrjenda og ráðherra í fyrirspurnatímum er styttur þannig að þeir mega aðeins tala í tvær mínútur í síðara sinn í stað þriggja mínútna fyrir fyrirspyrjanda og fimm mínútna fyrir ráðherra eins og nú er. Ræðutíma við óundirbúnar fyrirspurnir er breytt þannig að fyrirspyrjandi og ráðherra mega tala þrisvar, en aðeins í tvær mínútur í fyrsta sinn og ekki lengur en í eina mínútu í annað og þriðja sinn. Er þess vænst að orðaskipti þingmanna og ráðherra verði þannig hnitmiðaðri og að þetta nýmæli í þingsköpum, óundirbúnar fyrirspurnir, njóti sín betur með þessum tímareglum. Ekki er gert ráð fyrir að aðrir þingmenn geti blandað sér í orðaskipti fyrirspyrjanda og ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum eins og í hefðbundnum fyrirspurnatíma. Ræðutími málshefjanda og viðkomandi ráðherra í hinum styttri utandagskrárumræðum (hálftímaumræðum) er lengdur úr þremur mínútum fyrir málshefjanda og tveimur mínútum fyrir ráðherra í fimm mínútur fyrir báða í fyrra sinn en ræðutími þeirra í síðara sinn verður tvær mínútur eins og annarra þingmanna er þátt taka í umræðunni. Er þetta gert vegna athugasemda sem fram hafa komið um að ræðutími í þessum umræðum fyrir málshefjanda og ráðherra sé nú of knappur. Þá verður ræðutími þingmanna til að gera athugasemdir um gæslu þingskapa, um atkvæðagreiðslu eða til að bera af sér sakir styttur úr fimm mínútum í þrjár.
    Loks er í 2. gr. frumvarpsins settur skilafrestur á þær skýrslur sem Alþingi hefur samþykkt að ráðherrar geri og er miðað við 10 vikur. Í núgildandi þingsköpum eru engin slík tímamörk.