Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 55 . mál.


112. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Finns Ingólfssonar um útboð á vegum iðnaðarráðuneytisins á árinu 1991 til og með 31. ágúst 1992.

    Hversu mörg útboð í vöru, þjónustu og framkvæmdir voru á vegum ráðuneytisins og stofnana, sem undir það heyra, á árinu 1991 til og með 31. ágúst 1992?
    Útboðin voru 45.

    Hvaða útboð voru þetta?
    Rafmagnsveitur ríkisins:
    17 útboð voru gerð á vegum Rafmagnsveitnanna, þ.e. aðveitustöð Þorlákshöfn, byggingarhluti; aðveitustöð Ólafsfirði, byggingarhluti; skrifstofu- og geymsluhúsnæði Borgarnesi; rennslismælar vegna hitaveitu á Siglufirði; aflspennir í aðveitustöð Dalvík, 16 MVA, 66/33/11 kV; útboð og verklýsing vegna mælauppsetningar fyrir hitaveitu á Siglufirði; aflrofar 33 kV í aðveitustöð Dalvík og aðveitustöð Ólafsfirði; rafstrengir; tíðnibreytir fyrir hitaveitu á Siglufirði; ræsting á aðalskrifstofu Laugavegi 118, Reykjavík; ný botnloka fyrir Grímsárvirkjun; aðveitustöð Eskifirði, byggingarhluti; viðgerð á stíflu Skeiðsfossvirkjunar; strenglögn (33 kV) Sauðárkrókur-Kýrholt; rafstöð Fáskrúðsfirði, byggingarhluti; viðgerð á steypuskemmdum á yfirfalli stíflu við Grímsárvirkjun; klæðning á íbúðarhúsi við Skeiðsfossvirkjun.
     Orkustofnun:
    Eitt útboð var gert á vegum stofnunarinnar vegna símaskiptiborðs, útboðið var gert af Innkaupastofnun ríkisins.
     Sementsverksmiðja ríkisins:
    Níu útboð voru gerð á vegum verksmiðjunnar vegna viðhaldsverkefna, vinnufatnaðar, kola, gifs og flutninga.
    Landsvirkjun:
    18 útboð voru gerð á vegum Landsvirkjunar, þ.e. aflvélar, aðrennslisgöng, stöðvarhús, Eyjabakkastífla, vinnuslóðar fyrir Fljótsdalsvirkjun; gröftur fyrir stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar; lagfæring aflvéla í Búrfelli; tækjageymsla við Hrauneyjafoss; raflagnir, stjórnbúnaður loftræstikerfis og tækjageymsla í Blöndustöð; Hólar, undirstöður fyrir rafbúnað; laxastigi, gröftur, uppsteypa o.fl., stálturnar, innlend stálsmíði, forsteyptar undirstöður og jarðvinna við Búrfellslínu 3.

    Í hve mörgum og hvaða tilvikum var lægsta tilboði tekið?
    Í 35 tilvikum var lægsta tilboði tekið, þ.e. 15 útboðum Rafmagnsveitna ríkisins, níu útboðum Sementsverksmiðjunnar og 11 útboðum Landsvirkjunar.

    Í hve mörgum og hvaða tilvikum var lægsta tilboði ekki tekið? Hvaða rökstuddu ástæður lágu að baki þeirri ákvörðun?
    Í tveimur tilvikum Rafmagnsveitnanna var lægsta tilboði ekki tekið. Næstlægsta tilboði var tekið í 16 MVA aflspenni fyrir aðveitustöð á Dalvík, en lægsta tilboð kom frá Júgóslavíu en vegna ástandsins þar var talinn leika vafi á því að afhendingartími stæðist auk þess sem ýmsum upplýsingum um tæknileg atriði var ábótavant. Lægsta tilboði var ekki tekið í nýsmíði botnloka uppistöðulóns Grímsárvirkjunar í Skriðdal þar sem efnisliðir og smíðahönnun voru mjög vanáætluð í tilboðinu og fjárhagsstaða lægstbjóðanda talin vafasöm. Í tilviki Orkustofnunar var tilboði meðal hinna lægstu tekið, það var tilboð sem best uppfyllti skilmála útboðsins og þar sem vænta mátti öruggrar viðhaldsþjónustu af hálfu seljanda. Í sjö tilvikum Landsvirkjunar var lægsta tilboði ekki tekið. Vegna aflvélar fyrir Fljótsdalsvirkjun voru þrjú lægstu tilboðin framlengd til 1. janúar 1994. Aðrennslisgöng, stöðvarhús, Eyjabakkastífla, vinnuslóðar, einnig fyrir Fljótsdalsvirkjun, lægstbjóðanda var gefið vilyrði fyrir verkinu en vegna frestunar framkvæmda var tilboðið ekki framlengt. Vegna frestunar framkvæmda féllu tilboðin vegna graftar fyrir stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar úr gildi. Lægsta tilboð vegna raflagna í Blöndustöð var ekki í samræmi við útboðsskilmála/kröfur. Samið var um stálturna við Búrfellslínu 3 í framhaldi af öðru verki.