Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 104 . mál.


122. Tillaga til þingsályktunar



um fjármögnun á gerð vega og tengdra samgöngumannvirkja.

Flm.: Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason, Einar K. Guðfinnsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd sem hafi eftirfarandi verkefni:
    að kanna hvar sé mögulegt og réttlætanlegt að fjármagna gerð vega og tengdra samgöngumannvirkja á annan hátt en með framlögum samkvæmt núgildandi lögum um bensíngjald og Vegasjóð,
    að kanna hvernig þurfi að breyta núgildandi lögum um bensíngjald og Vegasjóð til þess að mögulegt og réttlætanlegt sé að fjármagna vegi og tengd samgöngumannvirki í auknum mæli á annan hátt en nú er gert,
    að kanna hvaða áhrif annars konar fjármögnun en með framlögum úr Vegasjóði samkvæmt núgildandi lögum hefði á uppbyggingu samgöngukerfisins.

Greinargerð.


    Mál þetta var flutt á síðasta þingi en fékkst ekki rætt og er nú flutt að nýju.
    Við gerð langtímaáætlunar í vegagerð, sem lögð var fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990–1991 en hlaut ekki afgreiðslu, var gerð úttekt á vegakerfinu og metið hvað það mundi kosta að koma því í viðunandi horf. Niðurstaðan var sú að heildarkostnaður miðað við vísitölu vegagerðar 4.560 væri 74,1 milljarður króna. Það má áætla að miðað við framlög til vegagerðar síðustu árin tæki það 25–30 ár að ljúka þessum framkvæmdum. Þá er aðeins að litlu leyti tekið tillit til þeirrar þróunar sem mun verða á þessu tímabili og til þeirra framkvæmda sem sú þróun mun útheimta.
    Það er því ljóst að fjáröflun til vegagerðar er alls ófullnægjandi, jafnvel þótt tekjustofnar væru nýttir til fulls og skiluðu sér að fullu til framkvæmda. Ef auka á framkvæmdir þarf því annaðhvort að hækka hið almenna bensíngjald og þungaskatt eða leita annarra leiða til fjármögnunar vegagerðar. Það má færa rök fyrir því að almenn hækkun á bensíngjaldi og þungaskatti sé ekki heppileg leið, m.a. þar sem hinn almenni greiðandi tengi verðhækkun á bensíni ekki við bætt samgöngumannvirki. Því er skynsamlegt að leita nýrra leiða þó ekki sé hægt að hafna almennri hækkun alfarið.
    Víða í Evrópu, t.d. á Ítalíu, Spáni og í Frakklandi, eru vegir fjármagnaðir af einkaaðilum sem síðan hafa rétt á innheimtu veggjalds af þeim sem um veginn fara. Á Norðurlöndum og í Bretlandi er fjöldi brúa og ganga fjármagnaður á þennan hátt og í Bretlandi er áformað að fjármagna vegi á sama hátt. Það er einnig athyglisvert að í Noregi hafa verið tekin upp aðgangsgjöld af bílum sem aka inn í borgir, t.d. í Ósló og Bergen. Annars staðar hafa tímabundið verið tekin upp staðbundin bensíngjöld sem renna í staðbundinn vegasjóð eins og í Tromsö til þess að standa straum af uppbyggingu vegakerfis á því svæði.
    Í ljósi þess sem hér kemur fram telja flutningsmenn nauðsynlegt að þessi mál verði könnuð á þann hátt sem fram kemur í tillögunni.