Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 119 . mál.


210. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um aðgerðir vegna heilsutjóns af völdum háspennuvirkja.

Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Til hvaða aðgerða munu stjórnvöld grípa með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna sem benda til þess að háspennuvirki geti valdið krabbameini?

    Þegar á árinu 1979 birtust rannsóknaniðurstöður er bentu til þess að fylgni væri á milli búsetu nærri háspennuvirkjum og sjaldgæfra krabbameina í börnum. Síðar hafa birst margar rannsóknir um heilsufarsleg áhrif rafsegulsviðs, sumar þeirra hafa stutt fyrri niðurstöður. Aðrar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á samband þarna á milli. Á nokkurra vikna tímabili, frá miðjum september til októberbyrjunar 1992, var skrifað í fjölmiðlum annars staðar á Norðurlöndum um frumniðurstöður fjögurra rannsókna, tveggja sænskra og tveggja danskra, er allar fjalla um heilsufarsleg áhrif rafsegulsviðs. Tvær byggjast á rannsóknum á starfshópum, sem útsettir eru fyrir rafsegulsvið, tvær eru rannsóknir á börnum búsettum þar sem vitað er að áhrifa rafsegulsviða gætir meira en annars staðar.
    Niðurstöður þessara rannsókna hafa enn ekki birst í vísindaritum og eru rannsóknaraðilar afar varkárir í túlkunum á niðurstöðum. Telja þeir að ekki sé komin sönnun á orsakasamhengi rafsegulsviðs og krabbameina.
    Niðurstaðan er því sú að áfram þurfi að fylgjast náið með rannsóknum á heilsufarslegum áhrifum rafsegulsviðs og mun ráðuneytið leita samstarfs við aðra aðila í því skyni.