Ferill 179. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 179 . mál.


320. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um landeyðingu vegna ágangs straumvatna.

    Svar við fyrirspurninni var unnið í samráði við landgræðslustjóra sem fer með þennan málaflokk fyrir hönd landbúnaðarráðuneytisins.

    Hefur farið fram heildarúttekt á landeyðingu vegna ágangs straumvatna?
    Heildarúttekt á landbroti af völdum fallvatna fór fram við undirbúning að gerð landgræðsluáætlana I (þjóðargjafar) og II. Enn fremur hafa velflestar matsnefndir fyrirhleðslna, sem samkvæmt lögum um landbrot af völdum fallvatna, nr. 43/1975, með áorðnum breytingum, eiga að starfa í öllum sýslum lands, gert sérstakar úttektir á þessum vanda í viðkomandi sýslum.
    Fyrirliggjandi eru slíkar úttektir fyrir Suðurland, Austurland og Norðurland og einnig að nokkru leyti fyrir Vesturland. Hins vegar liggur ekki fyrir hversu stór svæði eyðast árlega á þennan hátt. Slíkt mat hefur ekki verið framkvæmt vegna mikils kostnaðar.

    Ef svo er, á hvaða svæðum er talið að þessi landeyðing sé hvað mest og hröðust?
    Landeyðing er mest og hröðust á Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra, væntanlega í ofangreindri röð, þótt það geti verið misjafnt milli ára vegna þess hve farvegir jökulvatna breytast oft.

    Hefur ráðuneytið unnið að því að raða varnaraðgerðum vegna ágangs straumvatna í forgangsröð?
    Landgræðslan hefur fyrir hönd landbúnaðarráðuneytisins raðað verkefnum í forgangsröð sem endurspeglast árlega í tillögum stofnunarinnar til fjárlaga. Forgansröðun breytist þó frá ári til árs, sbr. það sem áður er sagt um jökulvötn og eftir því hvernig miðar við lausn einstakra mála.

    Ef svo er, hverjar eru þær varnaraðgerðir og hver er áætlaður heildarkostnaður við þær?
    Árlega er unnið við varnaraðgerðir á 30–40 stöðum á landinu. Þörf er aðgerða á miklu fleiri stöðum en ekki hefur fengist fjármagn til að sinna nema hluta af þeim beiðnum sem borist hafa. Vegagerð ríkisins hefur unnið ítarlegar kostnaðaráætlanir fyrir nokkur af stærstu fallvötnum landsins, sbr. 3. gr. fyrrnefndra laga, og Landgræðslan hefur látið gera úttekt á einstökum verkefnum. Takmarkaður fjöldi sérhæfðra aðila, sem gert gætu heildarkostnaðaráætlun fyrir allt landið, ásamt tugmilljóna króna kostnaði samfara slíku verki, hefur hamlað því að fyrir liggi ítarlegur heildarkostnaður fyrir öll þau brýnu verkefni sem bíða og enn síður fyrir allt landið. Það er hins vegar mat landgræðslustjóra að til þess að sinna þessum málum af fullri einurð og festu og leysa þar með brýnustu vandamálin þurfi a.m.k. að veita árlega um 100 milljónum króna til þessa málaflokks í nokkur ár til stofnkostnaðar við nýjar varnaraðgerðir og viðhalds eldri mannvirkja. Tvö brýnustu verkefnin í dag eru við Markarfljót og Jökulsá á Dal. Í báðum tilvikum kostar næsti verkáfangi, sem þó er aðeins áfangi í heildarlausn, um 20 milljónir króna á hvorum stað.
    Landgræðslustjóri bendir á í svari sínu að það sem gert hefur verið á undanförnum árum og áratugum hefur ekki aðeins bjargað hundruðum eða jafnvel þúsundum hektara gróins lands, heldur hafa einnig gróið upp þúsundir hektara af gróðurvana landi í skjóli þeirra varnargarða sem gerðir hafa verið eins og í Austur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu.