Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 198 . mál.


339. Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur um umhverfismál á norðanverðum Vestfjörðum.

    Náttúruverndarráð hefur haft eftirlit með Hornstrandafriðlandi frá 1977. Í maí 1989 hóf Hornstrandanefnd að endurskoða auglýsingu og reglur sem gilda í friðlandinu. Drög að nýjum reglum voru kynnt á aðalfundi Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps vorið 1991. Þar voru reglurnar samþykktar með lítils háttar breytingum en hafa ekki verið afgreiddar frá Náttúruverndarráði. Í Hornstrandanefnd tilnefna Náttúruverndarráð og Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps þrjá menn hvort um sig.

    Hvernig er háttað eftirliti með friðlandinu á Hornströndum?
    Skipulegt eftirlit Náttúruverndarráðs með friðlandinu á Hornströndum fer fram á þann hátt að landvörður fer fótgangandi í tvær eftirlitsferðir, 2–3 vikur hvor ferð, í byrjun júlí og í byrjun ágúst. Á hverju sumri kemur landvörður við á Hesteyri, í Aðalvík, Hornvík og Hrafnsfirði en á öðrumr svæðum eftir því sem við verður komið. Landvörður fylgist með því að reglum svæðisins sé framfylgt, sinnir ýmiss konar tiltekt, setur upp skilti og vegvísa eftir þörfum, þrífur kamra, flytur þá og lagfærir, viðheldur vörðum og stikar nýjar leiðir, sér um hreinsun í fjörum, á áningastöðum og sorpbrennslu. Hann hefur samband við gesti sem verða á vegi hans og íbúa svæðisins sem dvelja þar hluta sumars.
    Þá hefur Landhelgisgæslan eftir föngum fylgst með því að ólöglegar netaveiðar í árósum séu ekki stundaðar. Varðskipsmenn eiga einnig að fylgjast með umferð manna og eftir föngum að aðstoða við að framfylgt sé lögum um náttúruvernd. Einnig hafa einstakir landeigendur sinnt eftirliti enda þarf leyfi þeirra til allra veiða, eggjatöku og annarra hlunnindanytja á svæðinu. Síðastliðið sumar fóru lögreglumenn á vegum embættis sýslumanns á Ísafirði í tvær eftirlitsferðir um friðlandið.

    Hve margir sinna því verkefni?
    Einn landvörður hefur sinnt landvörslu og eftirliti fyrir Náttúruverndarráð í friðlandinu sl. fimm ár. Sér til aðstoðar hefur hann ætíð haft sjálfboðaliða sem hann hefur útvegað sjálfur.

    Hvað er áætlað að margir ferðamenn ferðist um svæðið árlega og á hvaða árstíma?
    Erfitt er að segja til um fjölda ferðamanna sem fara inn í friðlandið en talið er að Djúpbáturinn flytji um 4.000 ferðamenn, Eyjalín um 2.500 og á eigin vegum sé um 1.000–1.500 manns.
    Fullyrða má að flestir þeir er sækja Hornstrandir heim komi þangað í júlí og ágúst. Eins og fram kemur í auglýsingu um friðlandið (Stjtíð. B, nr. 332/1985) þurfa ferðamenn, sem ekki eru landeigendur, að tilkynna um ferðir sínar í friðlandið á tímabilinu 15. apríl til 15. júní. Nokkur undanfarin ár hefur ferðaskrifstofa Dick Phillips tilkynnt um ferð fámenns hóps breskra ferðamanna í maímánuði.

    Eru fyrirhugaðar úrbætur í hreinlætisaðstöðu á svæðinu?
    Landvörður hefur m.a. það hlutverk að fylgjast með kömrum í umsjá Náttúruverndarráðs á svæðinu, flytja þá, mála og lagfæra eftir þörfum. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um að fjölga kömrum í friðlandinu en þeir eru nú átta. Kamrar á vegum Náttúruverndarráðs eru nú í Furufirði, Hornvík, Látrum í Aðalvík, Sæbóli í Aðalvík (2) Hesteyri, Veiðileysufirði og Hrafnsfirði. Sumarið 1991 voru allir kamrar í friðlandinu yfirfarnir, fúavarðir, lagfærðir og fluttir til ef með þurfti.
    Hornstrandanefnd hefur lagt til að fengnum tillögum frá landverði að aðbúnaður á tjaldsvæðinu í Hornvík verði bættur. Algengt er að ferðamenn slái upp tjöldum sínum hvar sem er í friðlandinu.
    Tveir sorpbrennsluofnar eru í friðlandinu, á Látrum og í Hornvík. Mikill áhugi er á að fá ferðamenn til þess að taka með sér allt sorp til byggða þar sem aðstaða til sorpeyðingar er betri. Starfsmenn Djúpbátsins hafa verið mjög hjálpsamir og tekið sorp, ef það er í sorppokum, með sér til Ísafjarðar og komið því þar í ruslagám. Samfara átaki um að flytja allt sorp úr friðlandinu hefur landvörður lagt til að brennsluofninn á Látrum, sem er úr lagi genginn, verði fjarlægður.

    Hvernig er háttað umferð vélknúinna ökutækja um svæðið? Er slík umferð leyfð, og ef svo er, hvernig er þá leyfisveitingum háttað?
    Eins og fram kemur í áðurnefndri auglýsingu um friðlandið er umferð vélknúinna farartækja utan vega og merktra slóða bönnuð nema leyfi Náttúruverndarráðs komi til.
    Í bréfi dagsettu 27. apríl 1989 sóttu Jósef Markússon og aðrir landeigendur Garða, Sæbóli við Aðalvík, um leyfi fyrir vélknúnu farartæki, fjórhjóli, til notkunar við birgðaflutninga frá fjöru heim að bæ. Í samráði við Hornstrandanefnd samþykkti Náttúruverndarráð beiðnina.
    Halldóra J.G. Sölvadóttir frá Sólvöllum í Aðalvík óskaði eftir leyfi, með bréfi dagsettu 11. júlí 1989, fyrir vélknúnu farartæki, þríhjóli, til birgðaflutninga frá fjöru og heim að Sólvöllum. Beiðni Halldóru var tekin fyrir á næsta fundi Hornstrandarnefndar 4. september 1989, en málið var ekki afgreitt. Að beiðni fulltrúa Landeigendafélagsins var beiðnin tekin upp á fundi nefndarinnar 4. janúar 1991 og samþykktu nefndarmenn fyrir sitt leyti að heimila notkun þríhjólsins. Á hinn bóginn var niðurstaða Náttúruverndarráðs sú að ónauðsynlegt væri að veita leyfi í þessu tilviki þar sem umferð vélknúinna farartækja á vegum og merktum slóðum er heimil samkvæmt auglýsingu nr. 332/1985 um friðlandið.
    Það er stefna Náttúruverndarráðs að halda beri umferð vélknúinna farartækja í algjöru lágmarki í friðlandinu og heimila hana aðeins til óhjákvæmilegra flutninga eftir vegum frá fjöru og að húsum.

    Er lokið við hreinsun á Straumnesfjalli og Rit?
    Hreinsun á Straumnesfjalli var lokið sumarið 1991 en hús standa þó enn. Ekki var ráðist í að fjarlægja þau vegna mikils kostnaðar. Landeigendur tóku út verkið og voru þeir sáttir við það.
    Á Ritnum (Darranum) standa byggingar fyrrum skiparatsjárstöðvar breska hersins. Þar hefur hreinsun ekki farið fram.

    Hefur verið gerð áætlun um gerð gönguleiða og göngubrúa í friðlandinu?
    Náttúruverndarráð stefnir að því að hefðbundnum gönguleiðum sé haldið við og landvörður sinni því hlutverki, svo sem með því að halda við vörðum og setja upp vegvísa. Þar sem nýjar slóðir hafa myndast hefur verið tekin sú stefna að stika þær leiðir en varða ekki eins og gömlu þjóðleiðirnar á Hornströndum.
    Náttúruverndarráð hefur ekki farið út í að byggja brýr yfir ár. Göngubrýr eru án efa til þæginda fyrir ferðamenn en ekki hefur þótt rétt að setja upp göngubrýr yfir ár á gömlum þjóðleiðum þar sem aldrei hafa verið brýr. Smíði varanlegra brúa er mikið mál þar sem erfitt er að koma efni á staðinn og vegna snjóalaga er mikil hætta á að brýr sligist. Náttúruverndarráð hefur látið merkja vöð en þau eru yfirleitt ekki erfið yfirferðar. Í ofsaveðri og mikilli úrkomu geta vöð orðið erfið en því verður að treysta að menn meti aðstæður hverju sinni. Ferðamaðurinn sem sækir Hornstrandir heim vill ferðast á frumstæðan hátt, njóta náttúrunnar og upplifa ævintýri.
    Skiltum með leiðbeiningum til ferðafólks um reglur sem gilda í friðlandinu hefur verið komið upp á sex stöðum, þ.e. á Sæbóli, Látrum, Hesteyri, í Hornvík, í Hrafnsfirði og Furufirði.
    Umræða fer nú fram milli Náttúruverndarráðs og Skipulags ríkisins um gerð skipulags að öllu friðlandinu.