Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 165 . mál.


386. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um framkvæmd ýmissa ákvæða sjómannalaga.


    Hver er réttarstaða íslenskra sjómanna sem ráðnir eru á erlend kaupskip í leigu hjá íslenskum kaupskipaútgerðum, sbr. 1. gr. sjómannalaga?
    Sjómannalögin, nr. 35/1985, gilda um alla sjómenn á íslenskum skipum en íslensk eru skip sem eru skráð á Íslandi. Þau eru annaðhvort í eigu Íslendinga eða útlendinga samkvæmt sérstöku leyfi samgönguráðherra.
    Skipverjar á erlendum kaupskipum, sem skráð eru erlendis, falla því ekki undir ákvæði sjómannalaga.

    Hefur samgönguráðuneytið sett nánari reglur um form ráðningarsamnings milli útgerðarmanns og skipverja, sbr. 6. gr. laganna? Ef svo er ekki, telur ráðherra ekki ástæðu til að reglur um form og efni ráðningarsamninga verði settar?
    Samgönguráðuneytið hefur ekki sett reglur um form og efni ráðningarsamninga við skipverja eins og heimild er til í 2. mgr. 6. gr. sjómannalaga. Kjör skipverja eru ráðin með kjarasamningum milli samtaka útgerðar og skipverja og telur ráðuneytið enga ástæðu til að hafa afskipti af málinu nema hugsanlega ef aðilar krefjast þess.

    Hefur samgönguráðherra sett reglur um læknisskoðun skipverja skv. 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga?
    Já. Reglugerð um sjón, heyrn og heilbrigði skipstjórnarmanna, vélstjórnarmanna og undirmanna á kaupskipum, nr. 379/1991.