Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 252 . mál.


576. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um úrskurði og samninga um aukið meðlag.

    Hversu margir meðlagsúrskurðir voru gefnir út og hve margir samningar um meðlag staðfestir í dómsmálaráðuneytinu á tímabilinu frá 1. júlí 1991 til 1. júlí 1992?
    Í dómsmálaráðuneytinu voru á framangreindu tímabili gefnir út 27 meðlagsúrskurðir og staðfestir 423 samningar um meðlag.

    Hversu margir meðlagsúrskurðir voru gefnir út í ráðuneytinu vegna ágreinings um aukið meðlag með börnum á ofangreindu tímabili?
    Á framangreindu tímabili voru samtals gefnir út 23 meðlagsúrskurðir í málum vegna ágreinings um aukið meðlag. Þar af var úrskurðað um aukið meðlag í 14 málum.

    Hversu margir samningar foreldra um aukið meðlag með börnum voru staðfestir í ráðuneytinu á fyrrgreindu tímabili?
    Á framangreindu tímabili voru staðfestir 33 samningar um aukið meðlag með börnum.

    Hve mörg börn áttu í hlut samtals
         
    
    í málum skv. 2. lið,
         
    
    í málum skv. 3. lið?

    Í málum skv. a-lið var krafist aukins meðlags með 35 börnum. Þar af var úrskurðað um aukið meðlag með 18 börnum.
    Í málum skv. b-lið voru staðfestir 33 samningar foreldra um aukið meðlag með 46 börnum.

    Hver var meðalupphæð meðlags með einstöku barni skv. 2.–3. lið?
    Fjárhæð aukins meðlags með börnum er úrskurðað var í dómsmálaráðuneytinu á framangreindu tímabili er sem hér greinir:
    Með níu börnum var úrskurðað um 1 1 / 2 meðlag. Með níu börnum var úrskurðað um tvöfalt meðlag. Meðalupphæð aukins meðlags samkvæmt úrskurðum var samkvæmt þessu 1 3 / 4 hlutar meðlags.
    Fjárhæð aukins meðlags með börnum samkvæmt samningum á framangreindu tímabili er sem hér greinir:
    Með einu barni var samið um 1 1 / 3 hluta meðlags.
    Með 9 börnum var samið um 1 1 / 2 meðlag.
    Með 32 börnum var samið um tvöfalt meðlag.
    Með 1 barni var samið um þrefalt meðlag.
    Með 2 börnum var samið um 3 2 / 5 hluta meðlags.
    Með 1 barni var samið um 3 1 / 2 meðlag.
    Meðalupphæð aukins meðlags samkvæmt staðfestum samningum foreldra var samkvæmt þessu rétt rúmlega tvöfalt meðlag.

    Hver var upphæð hæsta meðlags með einstöku barni skv. 2.–3. lið?
    Hæsta meðlag sem úrskurðað var með einstöku barni á framangreindu tímabili var tvöfalt meðlag. Hæsta umsamið meðlag á sama tímabili með einstöku barni var 3 1 / 2 meðlag.

    Hvaða vinnureglur lagði dómsmálaráðuneytið til grundvallar við mat á ágreiningi um aukið meðlag á fyrrgreindu tímabili?
    Í IV. kafla barnalaga, nr. 9/1981, er í gildi voru á því tímabili er þessi liður fyrirspurnarinnar lýtur að, var fjallað um framfærslu barna, en þau lög voru felld úr gildi 1. júlí sl. með barnalögum, nr. 20/1992. Rétt þykir að benda sérstaklega á ákvæði 2. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 16. gr. eldri barnalaga í sambandi við fyrirspurnina.
    Ákvæði 2. mgr. 15. gr. barnalaga kvað svo á að framfærslueyri skyldi ákveða með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsaðstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra.
    Í 2. mgr. 16. gr. sagði m.a. að í meðlagsúrskurði mætti aldrei ákveða lægri meðlagsgreiðslu en barnalífeyri næmi eins og hann væri ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar. Samkvæmt þessu voru reistar skorður við því hve lágt meðlag gat orðið en hins vegar voru engar takmarkanir á því hve hátt það gat orðið, heldur var það lagt í mat úrskurðaraðila.
    Þar sem ákvæði barnalaga um framfærslu voru fremur almenns eðlis mynduðust þeim til fyllingar ákveðnar reglur í dómsmálaráðuneytinu við úrlausn ágreiningsmála aðila um fjárhæð meðlags umfram lágmarksmeðlag.
    Þegar fram kom krafa um hærri meðlagsgreiðslur en lágmarksmeðlag var ákvörðun tekin á grundvelli upplýsinga sem ráðuneytið óskaði eftir að aðilar létu í té um þau atriði er mælt var fyrir um í 15. gr., þ.e. fjárhagsstöðu og aðra hagi beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra og þarfir barns. Óskað var eftir staðfestum ljósritum skattframtala aðila fyrir tvö undanfarandi ár ásamt vottorði um tekjur eða launaseðli vegna tekna á yfirstandandi ári. Þá var óskað eftir greinargerð hvors aðila um sig um fjárhag og félagslegar aðstæður. Ef krafa um aukið meðlag byggðist á staðhæfingu um veikindi barns eða forsjáraðila var óskað eftir læknisvottorði. Síðan voru heildartekjur hvors aðila um sig framreiknaðar til úrskurðardags samkvæmt fyrirliggjandi gögnum þannig að fyrir lágu meðaltekjur á mánuði a.m.k. tvö undanfarandi ár.
    Þegar framreiknaðar meðaltekjur á mánuði lágu fyrir var kannað hvort viðkomandi hefði getu til greiðslu meðlags umfram lágmarksmeðlag. Ráðuneytið studdist við þá reglu að hefði meðlagsgreiðandi 25% hærri tekjur en meðallaun karla á aldrinum 20–60 ára taldist hann hafa fjárhagslega getu til að greiða 50% meðlag til viðbótar lögboðnu lágmarksmeðlagi með einu barni. Til þess að meðlagsgreiðandi teldist geta greitt 25% meðlag til viðbótar eða 75% aukið meðlag með einu barni þurftu tekjumörk hans að hækka um 10% o.s.frv.
    Athugunarefni var við hvað skyldi miða þegar tekjur aðila samkvæmt skattframtölum virtust ekki gefa rétta mynd af raunverulegum tekjum. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að embætti ríkisskattstjóra gefur út viðmiðunarreglur varðandi álagningu opinberra gjalda á ákveðnar starfsstéttir. Ef meðlagsgreiðandi tilheyrði einhverri þessara starfsstétta, en tekjur hans samkvæmt skattframtali voru lægri en viðmiðunarmörkin, lagði ráðuneytið viðmiðunarfjárhæðir ríkisskattstjóra til grundvallar við ákvörðun fjárhæðar meðlags, nema sýnt væri fram á að gildar ástæður væru fyrir lægri tekjum.
    Ýmis atriði höfðu áhrif við ákvörðun í meðlagsmálum. Að því er varðaði forsjárforeldri og barn það, sem krafist var aukins meðlags með, má m.a. nefna sérstök útgjöld vegna sérþarfa eða veikinda barnsins og skert aflahæfi foreldris vegna sjúkdóms þess eða barnsins.
    Að því er varðar meðlagsgreiðanda má nefna að til frádráttar heildartekjum hans komu framlög er hann greiddi með öðrum börnum sínum og samsvarandi fjárhæð vegna eigin barna er hann hafði á framfæri sínu. Ef barnið eða börnin voru með sérþarfir, sem kölluðu á aukaútgjöld, gat orðið um frekari frádrátt frá heildartekjum meðlagsgreiðanda að ræða áður en greiðslugeta hans var metin. Þá var þeirri reglu fylgt í dómsmálaráðuneytinu að við útreikning á greiðslugetu meðlagsgreiðanda var tekið tillit til þess ef á heimili hans dvöldu ungmenni á aldrinum 18–20 ára sem voru í námi.
    Til viðbótar þessu má nefna að eignir og skuldir aðila höfðu almennt lítil áhrif við ákvörðun meðlags. Slíkt kom helst til álita ef eignir voru verulega umfram það sem venjulegt gat talist, svo og ef eignamyndun viðkomandi var augljóslega umfram það sem tekjur hans gáfu tilefni til.
    Rétt er að fram komi að það hafði almennt ekki áhrif í meðlagsmálum þótt aðilar hefðu önnur börn, þ.e. börn maka eða sambúðaraðila, á framfæri á heimili sínu, enda var oftast innt af hendi meðlag með þeim af kynforeldri þeirra eða greiddur með þeim barnalífeyrir samkvæmt almannatryggingalögum.

    Hvaða vinnureglur leggja sýslumannsembættin nú til grundvallar við mat á ágreiningi um aukið meðlag?
    Ákvæði núgildandi barnalaga, nr. 20/1992, um framfærslu barna eru að meginstefnu óbreytt frá eldri barnalögum og leggja sýslumenn til grundvallar þær vinnureglur er lýst var hér á undan og dómsmálaráðuneytið lagði til grundvallar meðan það fór með meðlagsmál á frumstigi.
    Sýslumönnum hafa verið kynnt rækilega ákvæði hinna nýju barnalaga, nr. 20/1992, og jafnframt hafa starfsmenn ráðuneytisins samið ítarlegar leiðbeiningar og verklagsreglur fyrir sýslumenn, m.a. varðandi meðlagsmál.
    Þá hafa starfsmenn ráðuneytisins útbúið eyðublöð til notkunar í meðlagsmálum sem dreift hefur verið til allra embætta sýslumanna og víðar. Eyðublöð þessi eru bæði til notkunar við gerð samninga og vegna ágreiningsmála um meðlagsgreiðslur. Þannig er til eyðublað fyrir beiðni krefjanda um meðlagsúrskurð sýslumanns, þar á meðal beiðni um úrskurð um aukið meðlag, og eyðublað fyrir greinargerð aðila um fjárhag og félagslega stöðu vegna kröfu um aukið meðlag.