Ferill 110. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 110 . mál.


582. Nefndarálit



um frv. til l. um kaup á björgunarþyrlu.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og á fund hennar kom Albert Jónsson, deildarstjóri í forsætisráðuneyti. Erindi barst frá forsætisráðherra, sjá fskj. I, í framhaldi af fyrirspurn nefndarinnar, ásamt bréfi til þyrlukaupanefndar frá Albert Jónssyni og Arnóri Sigurjónssyni, um stöðu mála varðandi kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Þar kom fram að unnið væri að undirbúningi málsins; m.a. væri verið að athuga nánar möguleika á kaupum á þyrlu af sömu gerð og þær sem varnarliðið notar en með ýmsum öðrum aukabúnaði. Þá ætti eftir að ræða við bandarísk stjórnvöld um hvernig haga mætti samstarfi um viðhald, samnýtingu á varahlutum, þjálfun o.fl. Enn fremur kom fram að svigrúm væri til þess að allir kostir yrðu kannaðir til hlítar þar sem björgunarsveit varnarliðsins hefði á að skipa fjórum nýjum þyrlum og von væri á nýrri þyrlu árið 1994. Við bættist svo þyrla Landhelgisgæslunnar.
    Nefndin fjallaði um frumvarp til laga um kaup á björgunarþyrlu á 115. löggjafarþingi. Fékk hún álit frá Sigurði Líndal, prófessor í lagadeild Háskóla Íslands, um hvaða skyldur frumvarpið legði á ráðherra ef það yrði að lögum, sbr. fskj. II hér á eftir. Segir m.a. í álitinu: „Gildi slíkrar lagasetningar er raunar takmarkað ef það er þá nokkuð. Samningur felur í sér að samningsaðilar, tveir eða fleiri, komist að sameiginlegri niðurstöðu og verður ekki séð hvernig hægt er að lögskylda annan samningsaðila til þess. Slík fyrirmæli fá einfaldlega ekki staðist . . .
    Heimild er í lið 6.13 í 6. gr. fjárlaga 1993 fyrir fjármálaráðherra að „ganga til samninga um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands og taka til þess nauðsynleg lán“.
    Undirritaðir nefndarmenn eru þess fullvissir að ríkisstjórnin vinni að framgangi þessa máls, enda afar mikilvægt að tryggja sem fullkomnast öryggi í björgunarþjónustu af því tagi sem hér um ræðir.
    Með hliðsjón af framangreindu leggja undirritaðir nefndarmenn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 8. jan. 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Sigbjörn Gunnarsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.





Fylgiskjal I.


Erindi forsætisráðherra.


(16. desember 1992.)



    Með vísan til bréfs yðar dags. 8. þessa mánaðar, þar sem óskað er upplýsinga um stöðu mála varðandi kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna, skal upplýst að áfram er unnið að undirbúningi málsins. Verið er að athuga nánar möguleika á þyrlu af sömu gerð og þær sem varnarliðið notar en með ýmsum aukabúnaði, sbr. hjálagða greinargerð dags. 4. nóvember 1992. Þá er eftir að ræða við bandarísk stjórnvöld um hvernig haga mætti samstarfi um viðhald, samnýtingu á varahlutum, þjálfun o.fl. Hér er ótvírætt um hagkvæman kost að ræða og því nauðsynlegt að skoða hann frekar.
    Í skýrslu þyrlunefndar frá október 1991 er greint ítarlega frá björgunarsveit varnarliðsins. Einnig er fjallað um möguleika á að kaupa þyrlu sömu gerðar og þær sem varnarliðið notar og hagkvæmni þess að eiga við það samstarf um rekstur og rætt um aðra kosti náins samstarfs við varnarliðið fyrir Landhelgisgæsluna. Björgunarsveit varnarliðsins hefur á að skipa fjórum nýjum þyrlum, á von á fimmtu þyrlunni á árinu 1994, hefur fullkomna viðhaldsaðstöðu og rúmlega hundrað manna starfslið. Við bætist þyrla Landhelgisgæslunnar. Því er ljóst að svigrúm er til þess að allir kostir verði kannaðir til hlítar.
    Hjá Bandaríkjamönnum er vilji fyrir hendi til aukins samstarfs björgunarsveitar varnarliðsins við Landhelgisgæsluna, þar á meðal um viðhald, samnýtingu varahluta og þjálfun.

Davíð Oddsson.


Albert Jónsson.





Greinargerð Alberts Jónssonar og Arnórs Sigurjónssonar.


(4. nóvember 1992.)



    Í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarfundar 12. maí 1992 um að forsætis- og utanríkisráðherra tilnefndu ráðgjafa varðandi viðræður við Bandaríkjamenn var ákveðið að kanna hvort unnt væri að fá keypta af útflutningsstofnun Bandaríkjahers ódýrari þyrlu en Jayhawk en með búnaði sem uppfyllti kröfur manna hér á svipaðan hátt og Jayhawk. Í greinargerð ráðgjafarhóps um val á björgunarþyrlu frá því í apríl 1992 kemur fram að Jayhawk uppfylli ásamt tveimur öðrum gerðum „allar þær lágmarkskröfur sem gera verður um tæknilega hæfni nýrrar björgunarþyrlu og mundu hver um sig auka verulega getu Landhelgisgæslunnar til að sinna björgunarhlutverki sínu“, bls. 4. Ákveðið var að láta fyrst reyna á hvort unnt væri að fá sams konar þyrlu og varnarliðið notar (Pave Hawk) en með aukabúnaði. Eftirfarandi er meginniðurstaða þeirrar athugunar.
    Verðið á Pave Hawk er áætlað 8.8 millj. dollara (um 492 millj. íslenskra króna). Þá á eftir að draga frá kostnað við útbúnað til að taka eldsneyti á flugi og kostnað við eldsneytisgeyma inni í vélinni og bæta við kostnaði vegna aukabúnaðar.
    Unnt er að gera stélhluta Pave Hawk vatnsþéttan þegar skrokkurinn er smíðaður líkt og gert er við smíði Seahawk/Jayhawk. Þá er unnt að setja fjögurra belgja neyðarflot á Pave Hawk. Í Pave Hawk má setja fullkomnari stjórnbúnað (Altitude Hold-Hover Stabilization System — AHHSS) en flugherinn notar (en ekki fjögurra ása sjálfstýringu), rótorhemla og aukaeldsneytisgeyma á burðarbita utan á vélinni (External Stores Support System). Vitað er að kostnaður við síðasttalda atriðið nemur um hálfri milljón dollara (um 28 millj. kr.) og kostnaður við AHHSS er tæplega 70.000 dollarar (um þrjár og hálf milljón króna).
    Því virðist sem hér sé um að ræða valkost sem uppfylli lágmarkskröfur og sé jafnframt á hagstæðu verði. Við bætist, sem fyrr, sá möguleiki á hagkvæmni í rekstri sem falist gæti í samvinnu við varnarliðið um viðhald, varahlutabirgðir o.fl. Sá möguleiki hefur ekki enn þá verið skoðaður nánar enda þarf fyrst að ákveða að biðja um formlegt tilboð í umrædda útgáfu af Pave Hawk í gegnum Varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og kanna nánar greiðslukjör.



Fylgiskjal II.


Álit Sigurðar Líndal.


(2. febrúar 1992.)



    Með bréfi dags. 10. janúar 1992 var þess farið á leit við mig að ég veitti nefndinni stutt lögfræðilegt álit á því hvaða skyldur frumvarp til laga um kaup á björgunarþyrlu, þskj. 161, legði á herðar ráðherra ef það yrði að lögum. Er tekið fram í bréfinu að ósk þessi eigi rót að rekja til umræðna í nefndinni um gildi slíkrar lagasetningar og um það á hvern hátt löggjafinn geti bundið hendur framkvæmdarvaldsins.
    Eftir orðanna hljóðan er með frumvarpinu sú skylda lögð á ríkisstjórnina — og er þá væntanlega átt við dómsmálaráðherra — að gera á árinu 1992 samning við framleiðendur eða seljendur um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Þessum fyrirmælum ber ráðherra að hlýða að viðlagðri ábyrgð, annars vegar pólitískri og þingræðislegri þar sem viðurlög eru vítur sem kann að lykta með vantrausti og hins vegar refsiréttarlegri þar sem verknaði er lýst í b-lið 9. gr. laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, og viðurlög ákveðin í 11.–14. gr. Vafalaust mildaði það viðurlög ef ráðherra sýndi fram á að ógerlegt hefði verið að gegna þessari skyldu.
    Gildi slíkrar lagasetningar er raunar takmarkað ef það er þá nokkuð. Samningur felur í sér að samningsaðilar, tveir eða fleiri, komist að sameiginlegri niðurstöðu og verður ekki séð hvernig hægt er að lögskylda annan samningsaðilann til þess. Slík fyrirmæli fá einfaldlega ekki staðist þannig að framangreindar hugleiðingar um skyldur og ábyrgð ráðherra eru ástæðulausar.
    Meginreglan er sú að löggjafinn getur bundið hendur framkvæmdarvaldsins innan marka stjórnlaga og hlutanna eðlis. Samkvæmt framansögðu fær það ekki staðist að lögskylda mann til að gera samning. Með samþykkt frumvarpsins væri löggjafinn því að binda hendur framkvæmdarvalds umfram það sem heimilt er.
    Í bréfinu er tekið fram að í lið 6.13 í 6. gr. fjárlaga 1992 sé ákvæði sem heimili fjármálaráðherra að ganga til samninga um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands og taka til þess nauðsynleg lán. Ekki verður annað séð en að þetta nægi til að hefjast handa um kaupin.

Með virðingu,



Sigurður Líndal.


Neðanmálsgrein: 1
 Það sem kemur fram neðst á bls. 4 í skeyti 081630Z SEP 92 varðandi það að „USAF installed system costs and logistics support/maintenance cost will most likely be substantially higher“ virðist aðallega hafa byggst á þeim misskilningi að til að setja aukaeldsneytisgeyma utan á vélina þyrfti að fara fram sérstök hönnunarvinna og prófanir. Þetta reyndist ekki rétt eins og fram kemur í meðfylgjandi skeyti dags. 18. september 1992.