Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 264 . mál.


750. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um ársreikninga sveitarfélaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða sveitarstjórnir höfðu ekki lokið fullnaðarafgreiðslu ársreikninga sveitarsjóðs og fyrirtækja hans fyrir árið 1991 fyrir lok júlí sl., sbr. ákvæði 88. gr. sveitarstjórnarlaga?

    Félagsmálaráðuneytið hefur ekki undir höndum áreiðanlegar upplýsingar um hvaða dag hvert og eitt sveitarfélag lauk afgreiðslu ársreikninga sinna. Hart hefur hins vegar verið gengið eftir því að sveitarfélögin skiluðu ársreikningunum til ráðuneytisins og beitt þeim viðurlögum sem 88. gr. sveitarstjórnarlaganna gerir ráð fyrir, þ.e. að stöðva greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til viðkomandi sveitarfélags ef það hefur ekki skilað ársreikningum sínum.
    Þau framlög, sem einkum er hægt að nota í þessu skyni, eru tekjujöfnunarframlög og þjónustuframlög. Á sl. ári voru tekjujöfnunarframlögin greidd sveitarfélögum í lok október og þjónustuframlög í lok nóvember. Þegar farið var yfir skil ársreikninganna í tengslum við greiðslu umræddra framlaga höfðu eftirtalin 13 sveitarfélög ekki skilað ársreikningum 1991 til félagsmálaráðuneytisins, Hagstofu Íslands eða Sambands íslenskra sveitarfélaga: Breiðuvíkurhreppur, Haukadalshreppur, Skarðshreppur, Saurbæjarhreppur, Rauðasandshreppur, Nauteyrarhreppur, Þverárhreppur, Akrahreppur, Fljótahreppur, Tunguhreppur, Nesjahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur og Biskupstungnahreppur.
    Við yfirferð nú eftir síðustu áramót áttu eftirtalin fimm sveitarfélög enn eftir að skila ársreikningum 1991: Haukadalshreppur, Nauteyrarhreppur, Akrahreppur, Fljótahreppur og Austur-Eyjafjallahreppur.