Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 265 . mál.


751. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um fjárhagsáætlun sveitarfélaga.

    Hvaða sveitarstjórnir luku gerð fjárhagsáætlunar á þessu ári fyrir lok janúarmánaðar?
    Í sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, er ekki gerð krafa um að sveitarstjórnir skili fjárhagsáætlunum sínum til félagsmálaráðuneytisins eða tilkynningum um hvenær þær eru gerðar eða afgreiddar. Þessar upplýsingar liggja því ekki fyrir í ráðuneytinu og ekki heldur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

    Hvaða sveitarstjórnir sóttu um lengri frest samkvæmt ákvæðum 75. gr. sveitarstjórnarlaga og hvenær luku þær gerð fjárhagsáætlunar?
    Eftirtaldar sveitarstjórnir sóttu um og fengu frest á afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 1992: Stykkishólmsbær til 17. febrúar, Eyrarsveit til 15. mars, Suðureyrarhreppur til 31. mars, Ísafjarðarkaupstaður til 13. febrúar og Búðahreppur til 31. mars.
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hvort viðkomandi sveitarstjórnir hafi lokið gerð áætlananna innan tilskilins frests en gengur út frá því að svo hafi verið.

    Hvaða sveitarstjórnir gerðu þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins á fyrsta ári yfirstandandi kjörtímabils og hverjar þeirra endurskoðuðu þá áætlun við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 1992?
    Í sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, er ekki gerð krafa um að sveitarstjórnir skili þriggja ára áætlunum til félagsmálaráðuneytisins. Ekki liggja því fyrir í ráðuneytinu tæmandi upplýsingar um gerð slíkra áætlana hjá sveitarfélögunum á yfirstandandi kjörtímabili en samkvæmt þeim upplýsingum, sem ráðuneytið hefur aflað, hafa eftirtalin sveitarfélög gengið frá slíkum áætlunum: Reykjavík, Kópavogskaupstaður, Garðabær, Hafnarfjörður, Seltjarnarnesbær, Bessastaðahreppur, Kjalarneshreppur, Mosfellsbær, Njarðvíkurbær, Keflavíkurbær, Hafnahreppur, Gerðahreppur, Sandgerðisbær, Vatnsleysustrandarhreppur, Grindavík, Innri-Akraneshreppur, Laxárdalshreppur, Reykholtsdalshreppur, Stafholtstungnahreppur, Ólafsvík, Neshreppur utan Ennis, Andakílshreppur, Borgarnesbær, Stykkishólmur, Helgafellssveit, Eyrarsveit, Patrekshreppur, Bíldudalur, Ísafjörður, Súðavík, Bolungarvík, Flateyrarhreppur, Þingeyrarhreppur, Hvammstangahreppur, Kirkjuhvammshreppur, Hólmavíkurhreppur, Kaldrananeshreppur, Kirkjubólshreppur, Árneshreppur, Skagaströnd, Blönduósbær, Sauðárkrókur, Hofshreppur, Seyluhreppur, Akureyri, Glæsibæjarhreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Hálshreppur, Eyjafjarðarsveit, Húsavík, Bárðdælahreppur, Aðaldælahreppur, Skútustaðahreppur, Dalvík, Árskógshreppur, Hríseyjarhreppur, Ólafsfjörður, Siglufjörður, Egilsstaðabær, Fellahreppur, Eiðahreppur, Seyðisfjörður, Vopnafjörður, Reyðarfjörður, Búðahreppur, Breiðdalshreppur, Stöðvarhreppur, Eskifjörður, Neskaupstaður, Mýrahreppur, Borgarhafnarhreppur, Höfn, Nesjahreppur, Hofshreppur, Bæjarhreppur, Djúpavogshreppur, Geithellnahreppur, Beruneshreppur, Hveragerðisbær, Vestmannaeyjar, Sandvíkurhreppur, Selfoss, Eyrarbakkahreppur, Stokkseyrarhreppur, Ölfushreppur, Laugardalshreppur, Grímsneshreppur, Skeiðahreppur, Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Biskupstungnahreppur, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Ásahreppur, Rangárvallahreppur, Holtahreppur, Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Vestur-Eyjafjallahreppur.
    Ráðuneytið gengur út frá því að miklu fleiri sveitarfélög hafi gengið frá slíkum áætlunum þótt staðfestingar á því liggi ekki fyrir í ráðuneytinu. Í ráðuneytinu liggja ekki fyrir upplýsingar um hvaða sveitarstjórnir hafa endurskoðað þriggja ára áætlanir við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 1992.