Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 361 . mál.


754. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Einarsdóttur um öryggi í óbyggðaferðum.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Hvað hafa stjórnvöld aðhafst í framhaldi af ályktun Alþingis frá 22. febrúar 1990 um að bæta öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum og áliti nefndar sem skipuð var á grundvelli hennar?

    Nefndin fjallaði í störfum sínum einkum um eftirtalin atriði sem gætu stuðlað að auknu öryggi í óbyggðaferðum: fræðslu og upplýsingar, tilkynningarþjónustu eða tilkynningarskyldu, tryggingar, eftirlit og löggæslu, leit og björgun og fjarskipti.
    Flestir viðmælendur nefndarinnar voru sammála um að ekki sé rétt að takmarka rétt manna til ferðlaga með boðum og bönnum. Slík forsjárhyggja væri síst til þess fallin að bæta öryggi í óbyggðaferðum. Öryggi í óbyggðaferðum verði fyrst og fremst bætt með fyrirbyggjandi aðgerðum, fræðslu, ráðgjöf og upplýsingum til ferðafólks, auk hugsanlegrar tilkynningarskyldu.
    Enn fremur þurfi fjarskipti að vera með þeim hætti að ferðmönnum verði gert skylt að tryggja sig áður en lagt er í óbyggðaferðir.
    Nefndin taldi ekki þörf á sérstakri lagasetningu eða reglum hér að lútandi en taldi þörf á bættri skipulagningu og samræmingu á starfsemi þeirra aðila sem að þessum málum vinna.

Fræðsla.
    Besta ráðið til að tryggja öryggi ferðamanna er með upplýsingum og fræðslu áður en ferð hefst. Hér á landi eru margir aðilar sem veita fræðslu um ferðalög og gefa út fræðsluefni. Nauðsynlegt er hins vegar að samræma þessa fræðslu og lagði nefndin til að Upplýsingamiðstöð ferðamála hefði forustu í þeim efnum í nafni Ferðamálaráðs og annarra er að skrifstofunni standa.
    Útgáfa fræðsluefnis. Töluvert er til af góðu aðgengilegu fræðsluefni fyrir ferðamenn á Íslandi. Skipuleggjendur ferðaþjónustu hafa í auknum mæli gert sér grein fyrir mikilvægi þess að gefa út greinargóðar upplýsingar um hálendið, um útbúnað, leiðaval og hættur. Ferðmálaráð hefur t.d. gefið út bækling um hálendisferðir á fjórum erlendum tungumálum. Þessi bæklingur hefur verið endurútgefinn og endurbættur. Einnig hefur upplagið verið aukið.
    Myndefni. Nefndin lagði til að einu sinni á dag yrðu birtar upplýsingar á íslensku og ensku um veður, ástand vega o.fl. Ferðamálaráð hefur í samvinnu við Ríkisútvarpið birt fréttir, veðurspá og veðurlýsingu á ensku og íslensku fyrir ferðamenn yfir mesta ferðamannatímann í júní, júlí og ágúst.
    Skilti og merkingar. Nefndin taldi það mjög til bóta ef merkingar á hálendinu yrðu bættar til að tryggja betur öryggi ferðamanna. Samstarfshópur á vegum umhverfisráðuneytisins, sem í eiga sæti fulltrúar frá Vegagerð Íslands, Ferðamálaráði, Náttúruverndarráði og Slysavarnafélagi Íslands, hefur unnið gott starf varðandi merkingar á hálendinu. Þessi hópur stóð fyrir því að á síðasta sumri voru sett upp 80 skilti og merkingar á hálendinu. Sett voru skilti við öll þekkt vöð og aðvörunarmerki við óbrúaðar ár. Enn fremur voru flestar aðkomuleiðir inn á hálendið merktar. Þessi samstarfshópur er nú með á lokastigi útgáfu sérstaks ferðabæklings sem á að verða tilbúinn fyrir sumarið og er hvort tveggja fjallvegakort og upplýsingabæklingur fyrir ferðamenn. Auk þess vinnur Vegagerð ríkisins nú að því að flokka og merkja fjallvegi eftir tegundum.
    Dreifing fræðsluefnis. Eins og áður hefur verið minnst á var upplag hálendisbæklingsins aukið, m.a. til þess að geta dreift honum víðar en nú, t.d. við komu Smyrils og á allar bílaleigur.
    Landabréf. Góð kort af landinu og einstökum hlutum þess eru meðal mikilvægustu hjálpartækja ferðmanna. Í máli viðmælenda nefndarinnar kom fram að kortaútgáfa Landmælinga Íslands sé í góðu lagi og skilningur stofnunarinnar á þörfum ferðamanna mikill. Einnig má nefna að Vegagerð ríkisins hefur haldið þeim upptekna hætti að gefa út kort um ástand fjallvega sem kemur út vikulega á sumrin.

Tilkynningarþjónusta.
    Starfrækt hefur verið tilkynningarþjónusta fyrir ferðamenn frá vorinu 1985. Að henni standa Landsbjörg og Securitas.

Tryggingar.
    Aðstæður hafa ekki breyst á þann veg að ástæða sé til að áskilja kaup á tryggingu til þess að standa undir kostnaði við hugsanlega leit.

Eftirlit lögreglu.
    Meðal atriða, sem lögreglan hefur tekið upp í Lögregluskóla ríkisins, er leit að fólki í snjóflóðum, og í fjárlagatillögum næsta árs verður sótt um fjárveitingu til að festa kaup á stöngum og búnaði til þessa verkefnis. Þá hafa lögreglustjórar verið hvattir til þess að fylgjast með ferðamönnum, einkum þeim sem ferðast í bifreiðum, þegar allra veðra er von. Vélsleðaferðir eru sérstakt áhyggjuefni því að þrátt fyrir góðan útbúnað og leiðsögukerfi, GPS, sem mjög margir hafa, eru slys og óhöpp allt of tíð, einkum í tilvikum þegar ekið er fram af hengjum eða menn lenda í sprungum.

Leit og björgun.
    Nefndin taldi allgott skipulag vera fyrir hendi varðandi leit að fólki sem hefur týnst eða er saknað. Auk tveggja stórra björgunaraðila, Slysavarnafélags Íslands og Landsbjargar (áður Landssamband hjálparsveita skáta og Landssamband flugbjörgunarsveita), taka Landhelgisgæslan, lögreglan og fleiri aðilar iðulega þátt í leit.

Fjarskipti.
    Niðurstaða nefndarinnar varð sú að mikið öryggi væri í því fólgið að hafa farsíma með í óbyggðaferðum, sérstaklega ef um væri að ræða burðartæki með rafhlöðum. Oftast má finna staði þar sem samband næst, jafnvel þótt sambandslaust sé í vegarslóðum, t.d. þar sem þeir liggja um skörð.
    Meðal kosta farsímakerfisins er að öll símtöl eru skráð. Fulltrúar Póst- og símamálastofnunar hafa mælt með farsíma eða talstöðvarsambandi á tíðni 2.790 á metrabylgju (Gufunesradíó).
    Mikið átak hefur verið gert hjá Pósti og síma í að fjölga radíóstöðvum. Frá áramótum 1989–1990 hafa bæst við 31 radíóstöð víðs vegar um landið, þannig að farsímakerfið hefur þést til muna og öryggi ferðamanna aukist.