Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 412 . mál.


788. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Karls Steinars Guðnasonar um leigu fiskveiðiheimilda.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hve stór hluti af fiskveiðiheimildum var leigður á sl. fiskveiðiári, hverjir hafa leigt hann og hverjum?

    Um flutning aflamarks á milli fiskiskipa gilda ákvæði 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fisk veiða. Samkvæmt þeim ákvæðum er heimilt að flytja aflamark milli skipa sömu útgerðar og skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð, enda hafi það skip sem aflamarkið er flutt til aflahlutdeild af þeirri tegund sem um ræðir. Sama gildir um flutning aflamarks milli skipa sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð, enda sé um að ræða jöfn skipti á aflaheimildum. Flutningur á aflamarki samkvæmt ofan sögðu öðlast gildi þegar Fiskistofa hefur staðfest móttöku tilkynningar um flutninginn frá þeim sem hlut eiga að máli. Allur annar flutningur á aflamarki er óheimill nema með samþykki Fiskistofu og að fenginni umsögn sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags í viðkomandi verstöð.
    Til viðbótar við framangreindan flutning á aflamarki er skv. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða heimilt að flytja aflahlutdeild á milli fiskiskipa. Breyting á aflahlutdeild fiskiskipa innan fiskveiði ársins breytir ekki sjálfkrafa aflamarki skipsins fyrr en við upphaf næsta fiskveiðiárs. Hins vegar fylgir yfirleitt flutningi aflahlutdeildar samsvarandi flutningur á aflamarki. Flutningur á aflamarki, sem tengist flutningi aflahlutdeildar, er flokkaður í kvótabókhaldinu með sama hætti og flutningur á aflamarki innan ársins. Til að skýra þetta nánar má taka tvö dæmi. Fyrra dæmið væri um útgerð sem endurnýjar gamalt fiskiskip með nýju. Þegar nýja skipið kemur til landsins fær það alla afla hlutdeild eldra skipsins. Auk þess eru eftirstöðvar af aflamarki fiskveiðiársins fluttar af eldra skip inu yfir á það nýja. Sú færsla er í kvótabókhaldinu flokkuð sem flutningur á aflamarki milli skipa í eigu sama aðila. Síðara dæmið væri um tvö útgerðarfyrirtæki, A og B. Fyrirtækin gera með sér samning á miðju fiskveiðiári um að flytja tiltekna aflahlutdeild af fiskiskipi í eigu fyrirtækis A yfir á fiskiskip í eigu fyrirtækis B. Þá kemur tvennt til. Í fyrsta lagi getur verið að fyrirtækin komi sér saman um að helmingur af aflamarki fiskveiðiársins, sem tilheyrir viðkomandi aflahlutdeild, verði fluttur með aflahlutdeildinni. Í því tilviki yrði sá flutningur á aflamarki flokkaður sem flutningur á milli skipa í eigu óskyldra fyrirtækja. Í öðru lagi gætu fyrirtækin komið sér saman um að fyrirtæki A héldi aflamarkinu út fiskveiðiárið þannig að fyrirtæki B nyti ekki góðs af aukinni aflahlutdeild fyrr en við upphaf næsta fiskveiðiárs eða við næstu úthlutun aflaheimilda.
    Þeir sem óska eftir að flytja aflamark á milli fiskiskipa þurfa að fylla út sérstök eyðublöð sem Fiskistofa lætur í té. Á eyðublaðinu koma fram upplýsingar um tegund millifærslu, þ.e. hvort um sé að ræða skip í eigu sama aðila, hvort um sé að ræða jöfn skipti á aflaheimildum o.s.frv., upplýs ingar um það hve mikið magn af einstökum tegundum eigi að flytja frá tilteknu skipi yfir á annað skip og loks undirskrift þess sem óskar eftir flutningi aflaheimildanna. Engra fjárhagslegra upplýs inga er krafist.
    Að höfðu samráði við fyrirspyrjanda eru meðfylgjandi töflur settar fram sem svar við fyrirspurn inni. Í töflu 1 koma fram upplýsingar um hreinan (nettó) flutning aflamarks af botnfiski milli út gerða (miðað er við slægðan fisk) á fiskveiðiárinu sem hófst 1. september 1991 og lauk 31. ágúst 1992. Í töflu 2 koma fram sambærilegar upplýsingar fyrir þær sérveiðitegundir sem sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla. Ef mínus er fyrir framan tölurnar þýðir það að meira hefur verið flutt frá en til skipa í eigu viðkomandi aðila. Ef talan er 0 þýðir það að jafnmikið hefur verið flutt til og frá skipum í eigu viðkomandi útgerðar.
    Við athugun á þessum upplýsingum er einkum tvennt sem ber að athuga. Í fyrsta lagi verður að hafa í huga að allar aflaheimildir eru skráðar á skip en ekki fyrirtæki. Við vinnslu á slíkum töflum verður því að byggja á skipaskrá eins og hún var á tilteknum degi. Við gerð meðfylgjandi taflna var byggt á skipaskrá eins og hún var 31. ágúst 1992. Hafi aðili t.d. keypt skip í lok fiskveiðiársins og það skip fengið flutt til sín aflamark fyrr á fiskveiðiárinu er nýi eigandinn skráður fyrir þeim flutn ingi í töflunum. Slík tafla gefur því einungis hárréttar upplýsingar ef sami eigandi átti skipið allt tímabilið. Í öðru lagi er rétt að benda á að inni í þessum tölum kann að vera flutningur á aflamarki sem tengist flutningi á aflahlutdeild. Eins og að framan greinir stafar það af því að aflahlutdeild og það aflamark, sem kann að fylgja aflahlutdeildinni, eru flutt hvort í sínu lagi.

(Tafla ekki tiltæk.)