Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 300 . mál.


820. Nefndarálit



um frv. til l. um brottfall laga nr. 67/1988, um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku, sbr. lög nr. 30/1990.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um það Ara Skúlason og Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands og Sigurlaugu Gunnlaugsdóttur, Kristin H. Gunnarsson og Stefán Stefánsson frá Suður-Afríkusamtökunum.
    Með samþykkt laga um viðskiptabann við Suður-Afríku sýndu íslensk stjórnvöld samstöðu með ályktunum Sameinuðu þjóðanna sem fordæmdu kerfisbundin mannréttindabrot hvíta minni hlutans í Suður-Afríku. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 1990 ályktun þar sem ákveðið var að beita Suður-Afríku viðskiptaþvingunum þar til fullsýnt væri að umbótaþróuninni yrði ekki snúið við. Nú standa mál svo að mannréttindabrot eru ekki lengur framin í skjóli stjórnvalda, kynþáttaaðskilnaðarstefnan hefur verið afnumin og samkomulag hefur náðst í viðræðum ríkisstjórnar Suður-Afríku og Afríska þjóðarráðsins (ANC) um stjórn landsins til aldamóta og gert er ráð fyrir þingkosningum á næsta ári þar sem kynþættir verða jafnréttháir. Í ljósi þessa verður ekki önnur ályktun dregin en að framhald verði á umbótaþróuninni.
    Viðskiptabann Íslendinga hafði fyrst og fremst pólitíska þýðingu en engin merkjanleg áhrif á efnahagslífið í Suður-Afríku. Hefur bannið því ekkert gildi nú þegar nágrannaþjóðir okkar og mikilvægir viðskiptaaðilar Suður-Afríku hafa aflétt því. Eðlilegt er því að íslensk fyrirtæki búi við sambærileg skilyrði og samkeppnisaðilar í öðrum ríkjum. Má af því tilefni nefna að Norðurlönd hafa afnumið eða eru að afnema viðskiptabannið hjá sér, sbr. yfirlit í fylgiskjali.
    Eftir sem áður verður vopnaviðskiptabann við Suður-Afríku samkvæmt bindandi ályktunum öryggisráðsins virt að fullu. Inn- og útflutningur vopna er óheimill hérlendis nema með sérstöku leyfi dómsmálaráðuneytisins og mun, ef á reynir, verða höfð hliðsjón af ályktunum öryggisráðsins komi beiðni um slík viðskipti fram.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 25. mars 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Árni R. Árnason.

Sigríður A. Þórðardóttir.


varaform., frsm.



Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Tómas Ingi Olrich.




Fylgiskjal.


Utanríkisráðuneytið:


Yfirlit um afstöðu nokkurra landa til viðskiptabanns gegn Suður-Afríku.


(25. mars 1993.)



    Viðskiptabannið var afnumið í Danmörku 17. mars 1992 og 10. júlí í Bandaríkjunum. Ríki Evrópubandalagsins hafa einnig afnumið viðskiptabann gagnvart Suður-Afríku.
     Finnsk stjórnvöld afnámu viðskiptabannið við Suður-Afríku í júní 1991. Enn er í gildi bann við fjárfestingum. Utanríkismálanefnd þingsins fjallar nú um afnám fjárfestingarbannsins. Nokkrir nefndarmenn í utanríkismálanefnd Finnlands dvöldust í Suður-Afríku dagana 27. febrúar til 5. mars og lýsti formaður utanríkisnefndarinnar því yfir við það tækifæri að síðustu leifar viðskiptabannsins, þ.e. bann við fjárfestingum, yrði afnumið innan skamms. Í framkvæmd fá hins vegar öll finnsk fyrirtæki undanþágu frá banninu við fjárfestingum í Suður-Afríku.
     Sænsk stjórnvöld hafa lagt til að viðskiptabannið verði afnumið og er málið nú til meðferðar í sænska þinginu. Ingvar Carlson, formaður sænskra jafnaðarmanna, hefur lýst því yfir að hann styðji þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Litið er á yfirlýsingu hans sem opinbera stefnu sænska jafnaðarmannaflokksins. Þó að Svíar aflétti ekki banni gegn fjárfestingum skal tekið fram að sænsk fyrirtæki, sem voru í viðskiptum við Suður-Afríku áður en bannið kom til, fá undanþágu frá viðskiptabanninu, enda sé sýnt fram á að viðskiptin skapi Svíum atvinnu.
     Norsk stjórnvöld afnámu viðskiptabannið frá 15. mars sl. Áfram verður bann við sölu á olíu, enda er Noregur olíuframleiðsluríki og beitti sér ötullega fyrir að öryggisráðið samþykkti ályktun um olíuviðskiptabann við Suður-Afríku á sínum tíma og samþykkti sérstök lög þar sem olíusala og flutningur á olíu til Suður-Afríku voru bönnuð. Öryggisráðið samþykkti hins vegar aldrei ályktun um olíuviðskiptabann. Noregur hefur setið í nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna um olíuviðskiptabann gegn Suður-Afríku frá upphafi, en hefur hins vegar nýlega sagt sig úr þeirri nefnd. Þá hefur flutningur á olíu annarra landa verið heimilaður með norskum flutningsskipum og er búist við að olíuviðskiptabannið verði að fullu afnumið á næstu mánuðum.
    Kanadísk stjórnvöld eru enn fylgjandi viðskiptabanni en fylgjast náið með stjórnmálaþróuninni í Suður-Afríku.