Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 511 . mál.


864. Tillaga til þingsályktunar



um lista- og menningarmiðstöð í Álafosshúsunum í Mosfellsbæ.

Flm.: Árni M. Mathiesen, Salome Þorkelsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir,


Björn Bjarnason.




     Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að kanna hvernig koma má á fót lista- og menningarmiðstöð í gömlu Álafosshúsunum í Mosfellsbæ. Ráðherra hafi samráð við Mosfellsbæ, Framkvæmdasjóð Íslands, samtök listamanna og þá listamenn sem nú hafa aðstöðu í húsunum.

Greinargerð.


    Í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ standa gömul hús sem áður voru í eigu Álafoss hf. en eru nú í eigu Framkvæmdasjóðs Íslands. Á undanförnum árum hafa listamenn fengið inni í þessum gömlu húsum fyrir vinnustofur sínar. Óljóst er um framtíð þessara húsa og þessa svæðis en að mati flutningsmanna er sjálfsagt að kannað verði hvort ekki getið verið framhald á þeirri starfsemi sem þegar er hafin í húsunum. Ákjósanlegt væri að um frekari þróun væri að ræða í átt til opinnar lista- og menningarmiðstöðvar þar sem listamenn geta sinnt listsköpun sinni, sýnt og selt almenningi handverk sitt og listmuni. Staðurinn gæti þannig orðið miðstöð listsköpunar og kynningar á verkum og vinnubrögðum listamanna, bæði fyrir skólabörn, allan almenning og aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Starfsemin gæti því allt í senn veitt þroska, menntun og skemmtan, og ekki síst atvinnu og lífsviðurværi.
    Fjölmargir möguleikar eru hvað varðar rekstrarform og eignarhald, allt frá eignarhaldi listamannanna sjálfra til sjálfseignarstofnunar þar sem fulltrúar ríkis, bæjar og listamanna væru í forsvari. Það yrði verkefni ráðherra og samráðsaðila hans að leggja til hvaða rekstrar- og eignarform væri heppilegast ef tillagan nær fram að ganga.
    Flutningsmenn tillögunnar leggja höfuðáherslu á að reynt verði að styðja við og nýta á jákvæðan hátt það frumkvæði listamannanna sjálfra sem átt hefur sér stað í þessum gömlu húsum og gætt hafa þau lífi á nýjan leik.