Ferill 561. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 561 . mál.


928. Tillaga til þingsályktunar



um gerð fræðslu- og kynningarþátta um störf Alþingis.

Flm.: Árni Johnsen, Árni R. Árnason, Sigbjörn Gunnarsson,

Rannveig Guðmundsdóttir, Árni M. Mathiesen, Guðjón Guðmundsson,

Einar K. Guðfinnsson, Vilhjálmur Egilsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu að semja við sjónvarpið um gerð fræðslu- og kynningarþátta um störf Alþingis og alþingismanna.

Greinargerð.

    Mikilvægt er að efla skilning þjóðarinnar á því starfi sem fer fram á Alþingi. Það er löngu ljóst að landsmenn hafa ekki haft tækifæri til þess sem skyldi að kynnast starfsemi Alþingis. Margt bendir til þess í umræðu á Íslandi að fólk hafi mjög bjagaða mynd af þeirri fjölþættu og viðamiklu starfsemi sem fer fram á Alþingi og hjá alþingismönnum. Oft er fjallað um það í almennri umræðu að fáir þingmenn sitji í þingsal og það er eins og margir haldi að það gefi einhverja raunverulega mynd af starfi Alþingis. Þá vantar inn í myndina fjölmarga þætti, nefndafundi, ýmiss konar erindi og aðra fundi, þátttöku í erlendu samstarfi, fjölþætt starf sem bæði er unnið innan veggja þeirra bygginga sem tilheyra Alþingi og utan þeirra.
    Hægt er að vinna slíka þætti á marga vegu, en fyrst og fremst er það réttur íslenskra borgara að fá tækifæri til að fylgjast með starfsemi Alþingis á raunhæfan hátt og meta þannig störf og þróun Alþingis í stað þess að þurfa stanslaust að byggja á æðisundurslitnum upplýsingum um þessi mál í fjölmiðlum. Til að mynda væri æskilegt að gera 20–25 stutta þætti um þetta efni, 5–7 mínútna þætti, og tengja þá markvisst fréttatímum sjónvarps. Þá væri hægt að gera efnið spennandi með viðtölum við þingmenn og aðra um verklag, umræður á bak við tjöldin og ýmsa þætti sem sjaldan eru í sviðsljósinu. Slíkt átak í kynningu á störfum Alþingis ætti að verða til þess að auka traust almennings á störfum Alþingis og liður í því að ekki verði trúnaðarbrestur milli Alþingis og þjóðarinnar.