Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 430 . mál.


946. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um starf og eignir húsmæðraskóla.

    Hvaða kennsla fer fram í þeim húsmæðraskólum sem enn starfa og hvernig skiptist kostnaður við þá kennslu milli
         
    
    ríkisins,
         
    
    sveitarfélaga,
         
    
    nemenda?

    Kennsla með hefðbundum sniði fer fram í tveimur húsnæðraskólum. Í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur er kennt á vorönn samkvæmt námsskrá hússtjórnarbrautar en á haustönn á sjálfstæðum námskeiðum. Ríkissjóður greiðir allan launakostnað og rekstrarkostnað hússins, en reglulegir nemendur greiða sjálfir lítils háttar innritunargjöld og allan efniskostnað. Skólinn hefur, eins og að ofan greinir, staðið fyrir allmörgum námskeiðum fyrir almenning. Ríkissjóður greiðir kennslukostnað, en þátttakendur efniskostnað. Verði afgangur rennur hann til skólans sem sértekjur.
    Í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað hefur á undanförnum vorönnum verið kennt samkvæmt námsskrá hússtjórnarbrautar. Kostnaðarskipting er í öllum megindráttum sú sama og í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Á haustönn hefur hins vegar í allmörg ár farið fram heimilisfræðikennsla fyrir grunnskóla í fræðsluumdæminu. Ríkissjóður greiðir þá kennslu auk rekstrarkostnaðar hússins en sveitarfélögin, sem þjónustunnar njóta, greiða eða endurgreiða efniskostnað, gæslulaun og aksturskostnað.

     Hvernig hefur eignum þeirra húsmæðraskóla, sem lagðir hafa verið niður, verið ráðstafað og hverjir annast þær:
         
    
    húsnæði,
         
    
    innanstokksmuni og gjafir?


Varmaland.
    Húsnæði skólans er að mestu nýtt í þágu grunnskóla á staðnum. Munir í eigu skólans og húsbúnaður, sem talinn er hafa minjagildi, er í geymslu í skólahúsinu undir eftirliti kvenfélaganna.

Staðarfell.
    Í skólahúsinu er rekin meðferðarstöð SÁÁ, en munir í eigu skólans eru geymdir í skólahúsinu undir eftirliti heimamanna.

Ósk Ísafirði.
    Samkvæmt samkomulagi aðila er hús skólans í vörslu Framhaldsskóla Vestfjarða og fer þar fram heimilisfræðikennsla fyrir grunnskóla og framhaldsskóla ásamt tilfallandi námskeiðahaldi fyrir almenning. Einnig hefur tónlistarskóli staðarins hluta hússins á leigu. Kvenfélagið Ósk hefur samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi aðgang að ákveðnum stofum í húsinu til fundarhalda og eru þar geymdir ýmsir gripir skólans.

Blönduós.
    Í skólahúsinu starfar Fræðsluskrifstofa Norðurlands vestra og eru gripir og búnaður í eigu skólans varðveittir í skólahúsinu undir eftirliti heimamanna.

Langamýri.
    Þjóðkirkjan á og rekur skólann. Munir skólans eru varðveittir í skólahúsinu í samráði við heimamenn.

Laugaland.
    Stærstur hluti húsnæðis skólans er nýttur til kennslu á grunnskólastigi en kvenfélag sveitarinnar hefur þar einnig fundaraðstöðu og þar eru geymdir gripir sem voru í eigu skólans.

Akureyri.
    Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur yfirtekið hlutverk og eignir húsmæðraskólans og annast einnig varðveislu muna og húsbúnaðar.

Laugar.
    Framhaldsskólinn að Laugum er starfræktur í húsum þeirra skóla sem áður störfuðu á staðnum, þ.e. héraðsskólans og húsmæðraskólans. Hluti af húsnæði húsmæðraskólans er þó í umsjá kvenfélaga héraðsins og þar eru geymdir merkisgripir úr eigu skólans.

Laugarvatn.
    Íþróttakennaraskóli Íslands hefur skólahúsið til afnota og einnig hefur Menntaskólinn á Laugarvatni staðið þar fyrir kennslu í heimilisfræðum, bæði fyrir eigin nemendur, nemendur grunnskólans og almenning. Kvenfélög héraðsins hafa þar einnig nokkur ítök og hafa umsjón með varðveislu gripa sem voru í eigu skólans.

    Hverjir eru eigendur einstakra húsmæðraskóla?
    Byggingu húsmæðraskólanna bar á sínum tíma að með ýmsum hætti en allir munu þeir hafa verið reistir að frumkvæði heimamanna en með verulegum styrk úr ríkissjóði. Fjölmargar lagabreytingar hafa í tímans rás haft áhrif á skiptingu á stofnkostnaði og rekstrarkostnaði þeirra og miðuðu þær flestar að því að auka kostnaðarþátttöku og ábyrgð ríkisins. Í lögum nr. 41 frá 1955 er rekstrarkostnaði og stofnkostnaði skipt þannig að ríkið greiði 75% en sveitarfélög 25%. Í lögum nr. 49 (skólakostnaðarlögunum) frá 1967 er ákvæði um að sé skóli lagður niður skuli skuldlausar eignir skiptast í sömu hlutföllum og stofnkostnaður var greiddur. Nú falla þeir hússtjórnarskólar, sem enn starfa, undir lög um framhaldsskóla. Auk þeirra lagagreina, sem gilda eða gilt hafa um húsmæðraskólana, hafa verið gerðir sérstakir samningar um marga þeirra. Yfirleitt er húsum þar ráðstafað til annarrar skólastarfsemi og tilheyrandi aðila (ríki eða sveitarfélögum) falin forsjá mannvirkja.
    Hvaða áform eru uppi um varðveislu eða nýtingu á þeim merka menningararfi kvenna sem er að finna innan veggja húsmæðraskólanna, svo og þeirra húsa sem byggð voru sem húsmæðraskólar í öllum landsfjórðungum?
    Eins og fram hefur komið hér að ofan eru flest þau hús, sem á sínum tíma voru byggð sem húsmæðraskólar, enn í notkun sem skólahús eða nýtt í þágu skólastarfsemi með öðru móti. Rekstur þeirra er yfirleitt í höndum ríkisins en varðveisla gripa sem sérstakt gildi hafa, sögulegt eða menningarlegt, er í umsjá kvenfélaga eða annarra aðila sem tengjast fyrra skólahaldi. Þau skólahús, sem til eru, munu flest verða notuð til skólahalds um mörg ókomin ár þótt breyttar aðstæður geti í einstöku tilvikum kallað á aðra nýtingu, sbr. Staðarfell.