Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 514 . mál.


984. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Guðmundar Stefánssonar um snjómokstur og upplýsingar um færð.

    Hyggst ráðherra beita sér fyrir endurskoðun reglna um snjómokstur þannig að þessi þjónusta verði aukin og bætt?
    Reglur um vetrarþjónustu hafa verið endurskoðaðar á nokkurra ára fresti, síðast í mars 1991. Við hverja endurskoðun eru reglur rýmkaðar og þjónusta aukin. Með því er leitast við að koma til móts við óskir og þarfir vegfarenda og atvinnulífs fyrir öruggar samgöngur. Með uppbyggingu vega og betri tækjum til snjómoksturs hefur þetta tekist án þess að kostnaður ykist úr hófi. Hér er þó um stóran kostnaðarlið að ræða.
    Í vegáætlun þeirri, sem nú liggur fyrir Alþingi, er reiknað með að verja 530 millj. kr. á þessu ári til vetrarþjónustu og fer sú upphæð vaxandi og er 620 millj. kr. árið 1996. Við þá tillögugerð var haft í huga að þjónustan yrði aukin og hef ég þegar falið Vegagerð ríkisins að undirbúa tillögur þar að lútandi.

    Hvaða reglur gilda um upplýsingar Vegagerðar ríkisins um færð á vegum?
    Á hverjum degi skrá rekstrarstjórar Vegagerðarinnar í tölvukerfi upplýsingar um færð og ástand vega á öllum stofnvegum og flestum tengivegum.
    Færð á vegum að vetrarlagi er flokkuð í fjóra meginflokka, þ.e. opið, fært stórum bílum og jeppum, jeppaslóð og lokað. Auk þess eru ástandi vegar og veðurfari gerð frekari skil með ástandslýsingu eins og: hálka, snjór á vegi án fyrirstöðu, snjór á vegi en fært í slóðum, skafrenningur/snjókoma, ófært vegna veðurs o.fl. Vegaeftirlitið hefur á hendi samræmingu á skilgreiningu og mati þessara þátta.
    Við mat á færð er haft í huga hvað venjulegum vegfaranda á eðlilega útbúinni bifreið er ætlandi að komast. Nokkuð ber á því að vönum mönnum á sérbúnum bifreiðum finnist gæta of mikillar varúðar í upplýsingum Vegagerðarinnar eins og vikið er að í greinargerð með fyrirspurninni. Samkvæmt eðli máls verður vart hjá slíku komist.
    Á hverjum morgni kl. 8 skulu komnar inn upplýsingar um helstu umferðarleiðir og er skipulag eftirlitsferða á hverri leið miðað við þessa tímasetningu. Í framhaldi af þessu eru síðan aðrar leiðir skoðaðar og upplýsingar skráðar í tölvukerfi.
    Fyrstu fréttir um færð eru sendar til Ríkisútvarpsins um kl. 7.30 og fyrir kl. 8 eru sendar með myndsendi allar innkomnar upplýsingar til flestra fjölmiðla um færð á öllum helstu leiðum og er þeim útvarpað í flestum tilfellum strax eftir það. Ríkisútvarpið er einnig beintengt við tölvukerfi Vegagerðarinnar og geta dagskrárgerðarmenn séð þessar upplýsingar í hljóðveri og nýtt sér eftir efnum og ástæðum í beinni útsendingu.
    Dagblaðið birtir þessar fréttir á korti um hádegið og Morgunblaðið birtir seinustu fréttir af færð frá deginum áður.
    Textavarp sjónvarps skráir inn upplýsingar um hringveginn kl. 9 en með beintengingu við tölvu Vegagerðarinnar, sem komin verður í vor, munu upplýsingar um færð á öllu vegakerfinu birtast á sjónvarpsskjánum um leið og rekstrarstjórar skrá þær inn. Einnig er fréttum af færð komið til umferðarútvarps Umferðarráðs og jafnframt er mögulegt að útvarpa beint frá stjórnstöð Vegaeftirlitsins í Reykjavík.
    Þegar færð og veður breytist yfir daginn er upplýsingum breytt í tölvukerfinu og þeim síðan komið áfram eftir sömu boðleiðum og ef tilefni er til er hringt beint í útvarpsstöðvar til að koma aðvörunum eða breytingum á framfæri.
    Náin samvinna er við Veðurstofu Íslands um fréttir af veðri og færð og ef ástæða er til er aðvörun um hálku eða ófærð af völdum veðurs komið á framfæri í veðurfréttum útvarps og sjónvarps.
    Yfir sumartímann bætast við fréttir af helstu fjallvegum landsins en þá eru vikulega gefin út kort um ástand þeirra og eru þau send til um 300 aðila sem tengjast upplýsingaþjónustu við ferðamenn, bæði innan lands og utan, og eru þau m.a. fest upp á allflestum greiðasölustöðum landsins.