Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 553 . mál.


1077. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á vegalögum, nr. 6/1977, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn frá Vegagerð ríkisins Helga Hallgrímsson vegamálastjóra, Jón Birgi Jónsson aðstoðarvegamálastjóra og Jón Rögnvaldsson, forstöðumann tæknisviðs. Þá bárust nefndinni umsagnir frá stjórn Skallagríms hf. og Hríseyjarhreppi auk umsagnar fjármálaráðuneytisins sem birt er sem fylgiskjal með nefndarálitinu. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 3. maí 1993.



Pálmi Jónsson,

Jóhann Ársælsson.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.


form., frsm.



Sturla Böðvarsson.

Guðmundur Bjarnason.

Guðni Ágústsson.



Sigbjörn Gunnarsson.

Árni R. Árnason.

Árni Johnsen.





Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneytið,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á vegalögum.


    
Með frumvarpinu er ætlunin að setja nýtt ákvæði í vegalög þar sem tilgreint verði að Vegagerð ríkisins hafi umsjón með málefnum ferja og flóabáta. Stofnuninni verði að auki heimilt að eiga ferjuskipin eða eiga hlut í eignarhaldsfélögum þeirra. Mikilvægt er að reynt verði að hemja útgjöld til ferjumála og að leitað verði leiða til hagræðingar. Að áliti fjármálaráðuneytisins er hins vegar ekki nauðsynlegt til þess að ná fram slíkum sparnaði að setja sérstök lagaákvæði um að Vegagerðin kaupi eða eigi ferjur fremur en t.d. veghefla. Í frambúðarskipan ferjumála hlýtur eignarhaldið fremur að verða á hendi ríkissjóðs þótt Vegagerðinni verði falið að fara með þann eignarhlut gagnvart rekstraraðilum og notendum.
    Undanfarin fimm ár hafa útgjöld ríkisins vegna ferjumála aukist verulega eða úr 64 millj. kr. á árinu 1987 í 306 millj. kr. árið 1992 sem er um 250% vöxtur að raunvirði. Áætlað er að þessi útgjöld aukist í 535 millj. kr. á árinu 1995 en fari síðan lækkandi eftir því sem dregur úr greiðslum af lánum. Talið er að næstu fjögur árin, 1993–1996, muni rekstrar- og stofnframlög ríkissjóðs vegna ferjumála að óbreyttu nema rúmlega 1.900 millj. kr. sem er álíka mikið og rennur árlega til viðhalds alls vegakerfisins. Lánveitingar ríkissjóðs til kaupa á ferjum voru orðnar 2.400 millj. kr. í lok ársins 1992.
    Í meginatriðum virðist útgjaldaaukningin stafa af því að stefnan í ferjumálum hefur um of verið mótuð af heimamönnum á hverjum stað. Ekki hefur verið hugað nægilega vel að mismunandi valkostum í samgöngum viðkomandi staða og áætlanagerð hefur í ofanálag oft verið afar óraunhæf. Stjórnunarlegt forræði á ferjurekstrinum hefur ekki farið saman við fjárhagslega ábyrgð. Þannig hefur rekstraraðilum heima í héraði að mestu verið látið eftir að skilgreina flutningsþarfir og ákvarða tíðni og tilhögun siglinga, en ríkissjóður hefur setið eftir með fjárhagsbyrðina.
    Aðstoð við ferjurekstur er hluti af þeirri byggðastefnu sem stjórnvöld hafa sett sér á hverjum tíma. Þótt slíkar ákvarðanir byggi yfirleitt á byggðapólitískum forsendum fremur en hagrænum hljóta stjórnvöld að reyna að tryggja að jafnan verði farnar hagkvæmustu leiðirnar til að ná settum markmiðum. Frá og með árinu 1993 er ætlunin að færa ábyrgð og yfirstjórn ferjumála á eina hendi með því móti að Vegagerð ríkisins annist ráðstöfun framlaga ríkissjóðs til ferja. Ákvæðum frumvarpsins er ætlað að styðja þessar úrbætur og styrkja hlutverk og heimildir Vegagerðarinnar.
    Að mati fjármálaráðuneytisins eru horfur á að breyting á fyrirkomulagi ferjumála geti leitt til útgjaldalækkunar. Gera má ráð fyrir að valkostir fái vandaðri skoðun en oft áður og ferjurekstur verði betur samhæfður við aðrar samgönguleiðir til lengri tíma litið samhliða því að rekstrarkostnaður verði lækkaður með útboðum. Þetta er þó að miklu leyti háð því að Vegagerðin fái nægilegt ráðrúm til að leita hagkvæmustu leiða til að uppfylla þau markmið um flutningsþarfir sem stjórnvöld setja.