Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 579 . mál.


1157. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Péturs Bjarnasonar um leiðsögumannsstörf.

    Hyggst ráðherra beita sér fyrir löggildingu starfsheitisins „leiðsögumaður ferðafólks“? Ef svo er, þá hvenær?
    Ráðherra hyggst ekki beita sér fyrir löggildingu starfsheitsins „leiðsögumaður ferðafólks“.

    Hversu margar undanþágur voru veittar útlendingum til að annast leiðsögumannsstörf á árunum 1985–1992, sundurliðað eftir árum og þjóðerni?
    Tölulegar upplýsingar um fjölda útlendinga sem fengið hafa undanþágur til að annast leiðsögumannsstörf á Íslandi ná aftur til ársins 1988.
    Árið 1988 voru samtals 27 undanþágur veittar erlendum aðilum. Þar af fengu austurrískar ferðaskrifstofur leyfi fyrir tólf leiðsögumenn, hollenskar fyrir tvo, þýskar fyrir átta, enskar fyrir tvo, amerískar fyrir einn og grænlenskar fyrir einn.
    Árið 1989 voru samtals 45 undanþágur veittar erlendum aðilum. Þar af fengu austurrískar ferðaskrifstofur leyfi fyrir 16 leiðsögumenn, þýskar fyrir tólf, hollenskar fyrir átta, enskar fyrir fimm, svissneskar fyrir tvo, belgískar fyrir einn og franskar fyrir einn.
    Árið 1990 voru samtals 46 undanþágur veittar erlendum aðilum. Þar af fengu austurrískar ferðaskrifstofur undanþágur fyrir 19 leiðsögumenn, þýskar fyrir ellefu, hollenskar fyrir níu, enskar fyrir þrjá, svissneskar fyrir tvo, franskar fyrir einn og ítalskar fyrir einn.
    Árið 1991 voru samtals 67 undanþágur veittar erlendum aðilum. Þar af fengu austurrískar ferðaskrifstofur undanþágur fyrir 26 leiðsögumenn, hollenskar fyrir 18, þýskar fyrir 16, enskar fyrir þrjá, svissneskar fyrir þrjá og loks franskar fyrir einn.
    Árið 1992 voru samtals 52 undanþágur veittar erlendum aðilum. Þar af fengu hollenskar ferðaskrifstofur leyfi fyrir 18 leiðsögumenn, þýskar fyrir 16, austurrískar fyrir 15 og svissneskar fyrir þrjá.

    Hvaða menntunarkröfur þurfa erlendir leiðsögumenn að uppfylla til að öðlast slíkar undanþágur? Er krafist sérþekkingar á Íslandi, náttúrufari, sögu þjóðarinnar og atvinnuháttum?
    Engar sérstakar formlegar menntunarkröfur eru gerðar til útlendinga sem annast leiðsögumannsstörf hér á landi. En þeir aðilar, sem veitt hafa umsagnir um undanþágubeiðnir undanfarin ár, hafa haft vinnureglur til viðmiðunar við umfjöllun undanþágna.
    Þann 22. desember sl. var skipuð nefnd á vegum samgönguráðuneytis til þess að fjalla um stöðu og starfsréttindi leiðsögumanna ferðafólks á Íslandi. Í starfi sínu er nefndinni ætlað að meta stöðu íslenskra leiðsögumanna saman borið við erlenda leiðsögumenn sem starfa á Íslandi og kanna hvaða reglur gilda um störf og starfsréttindi leiðsögumanna innan hins fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæðis. Í nefndinni sitja fulltrúar frá ferðaskrifstofum, Ferðamálaráði og Félagi leiðsögumanna. Nefndin hefur ekki skilað áliti.
    Það hefur orðið að samkomulagi á milli félagsmálaráðuneytis, Ferðamálaráðs og Félags leiðsögumanna að fyrrgreind nefnd fjalli um og veiti umsagnir varðandi þær undanþágubeiðnir erlendra aðila sem koma til með að berast fyrir nk. sumar. Nefndin hefur ákveðið að eftirfarandi þættir verði skoðaðir sérstaklega hjá hverjum umsækjanda þegar umsögn er gefin:
—    Menntun viðkomandi umsækjanda.
—    Fyrri störf.
—    Reynsla af fararstjórn.
—    Reynsla af ferðum um Ísland.

    Hvernig verður framkvæmd þessara mála háttað næsta sumar?
    Eins og áður sagði hefur orðið að samkomulagi að fyrrgreind nefnd veiti umsagnir um undanþágubeiðnir erlendra aðila fyrir næsta sumar. Félagsmálaráðuneytið mun hins vegar gefa út þau starfsleyfi sem verða veitt á sama hátt og sl. sumar.
    Aðrir þættir, sem nefndin hefur til hliðsjónar við störf sín auk þeirra sem gerð er grein fyrir í 3. lið, eru m.a. eftirfarandi:
—    Jákvæð umsögn skal að jafnaði ekki gefin nema fyrir störf á tímabilinu 15. júní til 15. ágúst og er þá miðað við upphaf ferðar.
—    Tímamörk starfsleyfis verði þau sömu og í prentaðri áætlun söluaðila ferðarinnar. Hámarkslengd ferðar er þrjá vikur.
—    Hver einstaklingur fær ekki starfsleyfi til fleiri en tveggja ferða á sumri.
—    Starfsleyfi verða gefin út til handa hverjum einstaklingi.
—    Útlendingaeftirlitinu verði tilkynnt um öll starfsleyfi.
—    Handhafi starfsleyfis hafi slíkt leyfi með sér á ferð sinni um landið.
—    Umsóknir um starfsleyfi skulu berast félagsmálaráðuneytinu a.m.k. fjórum vikum fyrir upphaf ferðar á þar til gerðum umsóknareyðublöðum.
—    Að öllu jöfnu verður umsögn neikvæð ef umsækjandi hefur starfað við fararstjórn hér á landi án þess að hafa fengið tilskilin leyfi, brotið gegn skilyrðum slíks leyfis eða brotið að öðru leyti gegn íslenskum lögum.
    Þetta fyrirkomulag fyrir nk. sumar er til bráðabirgða þar sem nefnd þeirri, sem samgönguráðherra skipaði, er ætlað að gera tillögur um framtíðarskipan þessara mála. Nefndin hefur unnið að öflun upplýsinga um hvernig þessum málum er háttað í ríkjum hins fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæðis. Ljóst var í byrjun árs að ekki yrði mögulegt vegna umfangs málsins að gera tillögur að laga- eða reglugerðarbreytingum sem gildi tækju fyrir sumarið en stefnt er að því að slíkar tillögur verði tilbúnar fyrir næsta ár.