Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 197 . mál.


1238. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1991, sbr. lög nr. 75/1991.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Um nokkurt skeið hefur verið uppi ágreiningur um uppsetningu fjárlaga og fjáraukalaga. Hefur sá ágreiningur verið milli fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar og einnig milli einstakra þingmanna. Fjárlagafrumvörp hafa verið lögð fram á greiðslugrunni en ekki rekstrargrunni. Við gerð fjáraukalaga hefur síðan verið tilhneiging til að taka inn ýmsar skuldbindingar sem ekki eru komnar til greiðslu en aðrar ekki. Af því leiðir að verið er að blanda saman tveimur aðferðum, þ.e. greiðslugrunni sem á að sýna inngreiðslur og útgreiðslur úr ríkissjóði og rekstrargrunni sem til viðbótar greiðslum sýnir einnig ýmsar skuldbindingar ríkisins.
    Við afgreiðslu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1990, sem var þriðja frumvarp sinnar tegundar það ár og til þess gert að stemma af lokatölur fjárlaga, var tekinn inn nýr liður í 3. gr., Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins 1.458.282 þús. kr. Hækkaði við það gjaldahlið frumvarpsins sem þessu nam. Í nefndaráliti fjárlaganefndar með frumvarpinu segir um það:
    „Tillaga þessi á rætur að rekja til laga nr. 39/1990, um verðjöfnunargjald sjávarútvegsins, en samkvæmt þeim var Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins m.a. lagður niður. Í ákvæðum til bráðabirgða í nefndum lögum er kveðið á um að ríkissjóður skuli taka við skuldbindingum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Meðal skulda, sem ríkissjóður yfirtók, var yfirdráttur á hlaupareikningi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá Seðlabanka Íslands að fjárhæð 1.458.283 þús. kr. Þann 1. nóvember 1990 undirritaði þáverandi fjármálaráðherra skuldabréf til handa Seðlabanka Íslands að sömu fjárhæð til greiðslu á skuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá bankanum.“
    Þar var því verið að taka inn í fjáraukalagafrumvarp skuldbindingar ríkissjóðs í formi undirritaðs skuldabréfs. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar gerðu athugasemd við þessa málsmeðferð í nefndinni og í umræðum en stóðu þó að sameiginlegu nefndaráliti með fyrirvara. Ekki var ágreiningur um að upphæðin hlyti að koma inn í ríkisreikning en setja þyrfti skýrari reglur áður en hægt væri að taka einstakar skuldbindingar inn í fjáraukalög.
    Hér er verið að afgreiða annað fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 1991. Fyrra frumvarpið var samþykkt með lögum nr. 75/1991. Þar var einnig gerð breyting á 3. gr. til hækkunar um 700 millj. kr. vegna skuldbindingar í fasteignakaupum. Í nefndaráliti fjárlaganefndar segir þar um afstöðu minni hlutans:
    „Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni telja álitamál hvort á að færa skuldbindingar ríkissjóðs vegna fasteignakaupa sérstaklega með þeim hætti sem hér er lagt til, enda eru þessi uppgjörsmál ríkissjóðs í nánari athugun og hafa þeir því um það sérstakan fyrirvara.“
    Nú ber svo við að við afgreiðslu þessa síðara fjáraukalagafrumvarps fellst meiri hluti nefndarinnar ekki á röksemdir Ríkisendurskoðunar fyrir því að taka inn skuldbindingar sem orðið hafa til með sama hætti og þær sem hér er vísað til á undan, þ.e. með undirritun skuldabréfa fyrir hönd ríkissjóðs. Hér er um að ræða eftirfarandi atriði:
    Lántökur Hafnabótasjóðs vegna framkvæmda við Sandgerðishöfn 275 millj. kr.
    Yfirtaka lána vegna Byggðastofnunar 1,2 milljarðar króna.
    Niðurfelling lána vegna Hitaveitu og Rafveitu Seyðisfjarðar 100 millj. kr.
    Auk þess er ágreiningur um meðhöndlun á fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra.
    Undirritaðir nefndarmenn telja að hér gæti misræmis í uppsetningu fjáraukalaga þar sem ýmist er verið að taka inn skuldbindingar ríkissjóðs eða ekki og virðist faglegt mat ekki ráða þar för.
    Meðan ekki eru óumdeildar og skýrar reglur um uppsetningu fjárlaga og fjáraukalaga og ríkisreikningsnefnd hefur ekki skilað tillögum og breytingum á gerð fjárlaga og ríkisreiknings teljum við að bíða hefði átt með afgreiðslu þar til ríkisreikningsnefnd hefur lokið störfum.
    Samkvæmt framansögðu kjósum við að sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar hlýtur að taka ábyrgð á misvísandi vinnubrögðum sínum.

Alþingi, 7. maí 1993.



Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

Guðmundur Bjarnason.

Jón Kristjánsson.


frsm.



Guðrún Helgadóttir.

Margrét Frímannsdóttir.