Setning bráðabirgðalaga og ummæli forseta

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 15:05:02 (3299)

[15:05]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Fyrir jólin sótti hv. 8. þm. Reykn. það fast að fá svör við því hjá hæstv. forsrh. hvort hann hygðist nota bráðabirgðalagavaldið í jólahléinu. Forsrh. vék sér undan að svara þessu beint, fór á flótta, en engu að síður það fimlega að flestir trúðu að ekki væri verið að lengja þinghléið með það fyrir augum að tryggja að það gæfist rými til þess að beita bráðabirgðalagavaldinu.
    Hæstv. forseti þingsins lét aftur á móti að því liggja að það skipti litlu máli hvort lög væru sett með þeim hætti að bráðabirgðalögum væri beitt eða þing væri kallað saman. Hæstv. forseti þingsins skuldar alþingismönnum skýringar á þeim orðum. Við búum við það ofríki framkvæmdarvaldsins að það ræður hvort Alþingi er sent heim eða haft að störfum, en við ætlumst til þess að forseti þingsins verji þingið, líti á það sem nauðsyn að þingið ákveði hvað sé gert að lögum í þessu landi áður en lögin verða til. En hér er látið að því liggja, með yfirlýsingum forseta þingsins, að það gildi nánast einu hvort bráðabirgðalagavaldinu sé beitt og svo séu þingmenn kallaðir saman. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og tel þau vítaverð.