Setning bráðabirgðalaga og ummæli forseta

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 15:14:00 (3304)


[15:14]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Meginmarkmið með breytingum sem gerðar voru varðandi bráðabirgðalagaþáttinn var það að fækka þeim tilvikum að bráðabirgðalög væru gefin út. Ég treysti mér algjörlega og auðveldlega til þess að gera samanburð á því hversu oft núv. ríkisstjórn miðað við sambærilegan starfstíma hefur sett bráðabirgðalög og gert var áður en þessi breyting varð. Ég tel nefnilega markmið þingsins um að fækka bráðabirgðalögum hafi náð fram að ganga. Menn hafa orðið miklu varkárari í þeim efnum heldur en áður og þingið þannig náð þeim markmiðum sem það ætlaði sér. En um leið ákvað þingið með pósitífum hætti að það vildi alls ekki að þessi réttur forsetans og ríkisstjórnar á hverjum tíma yrði numinn á brott. Það var ítrekað og ákveðið við athugun á greininni að hann skyldi standa með þeim breytingum sem ég áðan nefndi um það hvenær þingið skyldi ræða lögin.
    Það er enginn vafi á því í mínum huga að þessi breyting hefur orðið til þess að bráðabirgðalögum hefur fækkað og það er æskilegt og gott. Það vakti ekkert fyrir mér sérstakt á þessum dögum fyrir þingslit annað en að vænta þess og vonast til þess og trúa því að samningsaðilar sjálfir í þessari viðkvæmu deilu mundu leysa sín mál. Það er það sem við viljum öll að gerist. Ég treysti því, vonaðist til þess og vænti þess og hafði engar ráðagerðir í huga á þessu augnabliki varðandi það mál.