Setning bráðabirgðalaga og ummæli forseta

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 15:15:45 (3305)


[15:15]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að framganga hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. í þessari deilu var eingöngu látalæti vegna þess að Kristján Ragnarsson var ekki til viðræðu um neitt allan tímann af því að hann treysti því að ríkisstjórnin mundi setja bráðabirgðalög um verkfallið. Það hefur komið í ljós að Kristján Ragnarsson gat alveg treyst því. Hann hafði stuðning forsrh. og sjútvrh. til þess að halda þannig á málum að hann þurfti ekki að semja við sjómenn um eitt eða neitt. Þess vegna er það alveg óskiljanlegt að hæstv. forsrh. skuli vera svona hræddur við að koma með þetta frv. inn í þingi og taka það til umræðu. Ég átti satt að segja von á því að hæstv. forsrh. mundi vera nú þegar búinn að setja fram þá ósk við forsætisnefnd að þessi bráðabirgðalög yrðu eitt af fyrstu málum þessarar viku. En nú er búið að birta þingflokkum dagskrá vikunnar og þar er hvergi minnst á bráðabirgðalögin.
    Hæstv. forsrh. verður að horfast í augu við þá staðreynd að einn þingmaður stjórnarflokkanna sem hefur tjáð sig um bráðabirgðalögin með skýrum hætti. Það er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Hvað hefur hann sagt, hæstv. forsrh.? Hann sagði að það hefði verið rangt að kalla þingið ekki saman. Hann sagði að það hefði verið rangt að setja bráðabirgðalög og hann sagðist ekki styðja þau. Sá eini af þingmönnum stjórnarliðsins sem hefur dirfst að tala um málið hefur þannig sagt alveg skýrt að hann sé ósammála hæstv. forsrh. ( Forsrh.: Ég get ekkert um það dæmt.) Hæstv. forsrh. getur þá sjálfur komið upp í ræðustólinn og tínt upp þá þingmenn sína sem hafa opinberlega treyst sér til þess að styðja forsrh. í þessu máli.
    Þess vegna ítreka ég fyrirspurn mína sem hæstv. forsrh. svaraði ekki áðan: Er hann reiðubúinn að beita sér fyrir því að þessi bráðabirgðalög komi strax til umræðu? Hvers vegna dregur hann það að taka þau fyrir í þinginu? Nú segir hæstv. forsrh. úr sæti sínu að hann hafi þegar talað tvisvar. Það vissi hann áðan þegar hann svaraði ekki minni fyrirspurn og þess vegna vakir sú spurning alveg skýrt: Hvers vegna er ríkisstjórnin að bíða með að taka bráðabirgðalögin fyrir í þinginu?