Samkeppnisstaða innlendrar garðyrkju

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 15:51:04 (3317)

[15:51]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Áhrifa EES-samningsins er farið að gæta hjá garðyrkjubændum. Nú er leyfður innflutningur á ákveðnum tegundum blóma og grænmetis sem hefur í för með sér að sala á þeim blómum sem þeir framleiða á þessum árstíma minnkar verulega eða hættir alveg. Fer það þó nokkuð eftir því hve buddan er harður húsbóndi hjá kaupendum og það er hún eflaust hjá mörgum í dag, ekki síst með vaxandi atvinnuleysi.
    Sama gildir um það grænmeti sem má flytja inn. Vissulega er það ódýrara en innlend framleiðsla, en hvenær fáum við að sjá það í versluninni hvernig framleiðsluferlið er á viðkomandi vörum? Hvernig er sú jörð sem ræktunin fer fram á og hvaða efni eru notuð við framleiðsluna? Hvaða efni eru notuð til að halda vörunni ferskri í flutningi á milli landa?
    Mér eru minnisstæð kalkúnalærin sem ég sá þegar Bónus reyndi þann innflutning. Það var hægt að geyma þau í stofuhita að ég held í a.m.k. fjóra mánuði. Við erum að fá hér í verslanir spænska tómata núna. Garðyrkjubændur, sem hafa kynnt sér þessi mál erlendis, segja mér að þeir séu úðaðir með efni sem ekki sé einu sinni notað til að verja blóm hér á landi og það reyndar má ekki samkvæmt þeirri eiturefnalöggjöf sem hér gildir. Ég tel tímabært að stjórnvöld taki á því máli hvernig þau ætla að bæta samkeppnisstöðu garðyrkjubænda. Eða á kannski að fara eins með þá og skipasmíðaiðnaðinn? Þegar allt er komið í óefni þá vakna menn loksins upp og telja að nú þurfi að gera eitthvað en þá er það bara of seint.
    Það eru mörg verkefni fram undan til að bæta stöðu garðyrkjunnar. Það er raforkuverðið eins og hæstv. ráðherra nefndi hér áðan, það er annar rekstrarkostnaður og það er eftirlit með því hvað verið er að flytja inn og hvaðan það er. Hver er hollusta þeirra vara sem okkur er boðið að kaupa? Hvenær ætla menn að setja sér markmið yfirleitt með íslenskan landbúnað? Það væri gott að ráðherra gæti gefið svör við því hvernig hann ætlar að styðja við íslenskan garðyrkjuiðnað.