Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:12:35 (3324)


[16:12]

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins í upphafi nefna það vegna þess sem hv. þm. nefndi og hefur komið fram hjá öðrum hv. alþm. fyrr að líkur standa fremur til þess eftir þeim upplýsingum sem ég hef að GATT taki ekki gildi um næstu áramót heldur fremur um mitt ár 1995 og auðvitað á þingið eftir að samþykkja fyrir sitt leyti ályktun um aðild okkar að GATT-samningunum. Þó vilji standi til þess, eins og ég hef heyrt hjá hv. þm., að gera það þá vantar þá afgreiðslu og heimild þingsins. Þetta vildi ég aðeins nefna fyrst vegna þess að þetta hefur aðeins verið rætt í þessari umræðu og reyndar hinni fyrri.
    Menn gætu ætlað það vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur víða í þjóðfélaginu að það væri meiri háttar ágreiningur um það á þinginu með hvaða hætti ætti að haga innflutningi á landbúnaðarvörum. Ég held að þessi ágreiningur í ýmsum fjölmiðlum sé mjög orðum aukinn, það sé almenn sátt um að það eigi að auka frelsi á innflutningi á landbúnaðarvörum í samræmi við þá samninga sem við höfum gert, EES-samningana og síðan GATT-samninga, en menn eigi líka að halda sig við aðra þá niðurstöðu sem þingið nánast samhljóða hefur komist að. EES-samningurinn tekur ekki til landbúnaðarmála nema að litlu leyti, alls ekki til að mynda til kjötvara, og GATT-samningurinn hefur ekki tekið gildi. Þingviljinn hefur að mínu viti komið mjög glöggt og skýrt fram um að það stendur ekki til að leyfa hömlulausan innflutning á landbúnaðarvörum, sá innflutningur skal leyfður í samræmi við þá alþjóðasamninga sem við höfum gert eða munum taka þátt í.
    Dómur meiri hluta Hæstaréttar, sem reyndar var sá minnsti mögulegi meirihluti sem myndast getur í Hæstarétti, hefur nokkuð breytt stöðunni, ekki þó þannig að þingviljinn hafi breyst og ég hygg að enginn vilji fara að setja lög til þess að breyta dómum Hæstaréttar. En á hinn bóginn segir þessi dómur okkur það að færa má rök fyrir því að sú staðfesting þingviljans sem við töldum okkur vera að staðfesta í haust liggi hugsanlega ekki nógu skýrt fyrir og ummæli hafa fallið bæði af hálfu áfrýjanda þess máls sem dæmt var í Hæstarétti og af hálfu annarra aðila sem gefa til kynna að efasemdir séu uppi um þessa stöðu og þingviljann og því er að mínu mati og að mati ríkisstjórnarinnar nauðsynlegt að taka af allan vafa í þeim efnum og hnykkja á þessum þáttum. Það breytir ekki þessum vilja stjórnarflokkanna eða þingsins, vil ég segja, að viljinn stendur til þess að rýmka heimildir til innflutnings á landbúnaðarvörum í samræmi við þá samninga sem við gerum. Þess vegna mun ríkisstjórnin leggja fram hér í þinginu á morgun frv. að lögum, brtt. við tiltekna grein búvörulaganna, til þess að taka af allan vafa og eyða þeirri réttaróvissu sem þarna hefur skapast og ég vænti þess að gott samkomulag geti orðið um afgreiðslu þess máls í þinginu. Ég tel nauðsynlegt að það fái auðvitað góða skoðun en um leið gangi hratt fram til þess að eyða allri þeirri óvissu sem uppi hefur verið þannig að menn fari ekki til að mynda að efna til innflutnings án þess að efnisskilyrði séu í raun til þess, þannig að það sé æskilegt að frv. af því tagi megi fá hraða meðferð hér í þinginu en þó auðvitað vandaða.
    Varðandi samkomulag um forræði á innflutningi búvöru þá liggur fyrir í lögum nú þegar hvar það forræði liggur. Það sem hins vegar mun breytast varðandi GATT er það að menn eru ekki lengur að fjalla um bannreglur í þeim mæli sem nú gerist heldur verður samkeppnisstöðu landbúnaðarins gætt með verðjöfnunarþáttum. Sú breyting breytir ekki forræði málsins. Það forræði er eftir sem áður hjá landbrn.
    Vegna þess sem ég áður nefndi um GATT þá bendir flest til þess að samningarnir komi ekki til framkvæmda fyrr en um mitt ár 1995 og þingið þarf að staðfesta heimild fyrir sitt leyti til þess að Ísland sé aðili að þeim samningum. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið að skipa nefnd tilnefnda úr fimm ráðuneytum til að laga okkar löggjöf að þeim veruleika sem GATT skapar í framtíðinni. Um þetta er góð sátt í ríkisstjórn og ég vænti þess að um þetta verði líka góð sátt í þinginu.