Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:20:47 (3326)


[16:20]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sl. vor var lagt fram á þingi frv. til laga um breytingar á búvörulögum. Hefði það frv. verið samþykkt þá mundi að öllum líkindum hafa verið komið í veg fyrir það fjaðrafok sem nú hefur orðið síðustu daga í kjölfar dóms Hæstaréttar í þessu skinkumáli Hagkaupa. Ég er reyndar sannfærð um að þetta verður ekki eina mál þessarar tegundar. Það er augljóst öllum að ríkisstjórnin hefur sífellt verið að klóra í bakkann í þessum búvörumálum. Engin samstaða hefur verið um að taka á málinu og ljúka því. --- Vegna hvers? Vegna þess að innan ríkisstjórnar eru menn ekki sammála um það hvort gefa eigi innflutning búvara frjálsan og það eru í báðum stjórnarflokkunum skiptar skoðanir á því.
    Með lagabreytingunni í desember sl. var ákveðið að landbrh. hefði á sinni könnu að leggja á verðjöfnunargjöld á landbúnaðarvörur sem fluttar væru inn. En hvað eru landbúnaðarvörur? Er skilgreiningin á hreinu? Það held ég nefnilega ekki. Það getur orkað tvímælis hvenær vara er landbúnaðarvara. T.d. skilgreina ýmsar EB þjóðir sjávarútveg og vörur framleiddar úr sjávarfangi sem landbúnaðarvörur.
    Formaður landbn. telur að hér sé um lagatæknilegt mál að ræða samkvæmt skilgreiningu hans í hádegisútvarpi. Það er greinilegt að pólitískur ágreiningur er orðinn að lagatæknilegu vandamáli. Það eru líka hreint furðuleg vinnubrögð að nú skuli mörg ráðuneyti, að mér skilst, vera að vinna að því að búa til frumvarp sem á að taka á þessum innflutningsmálum. Svo kemur hv. formaður landbn. í hádegisfréttunum og segir að það sé guði fyrir það þakkandi að það hafi ekki verið haft neitt samráð við hann. Og fyrir nokkrum dögum lýsti hæstv. forsrh. því að frv. hafi verið lætt í gegnum þingið eins og þingmenn væru meðvitundarlausir. Ég tel virðingu Alþingis stórlega misboðið með svona vinnubrögðum og það er ekki von að fólk hafi tiltrú á löggjafarsamkomunni við þessar aðstæður.