Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:28:30 (3329)



[16:28]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að þetta mál sé tekið upp strax á fyrsta degi eftir að þing kemur saman að nýju. Það má raunar segja að þetta sé líka fyrsta málið sem ég lagði fyrir ríkisstjórn eftir að dómur Hæstaréttar féll. Það hefur stunduð verið fundið að því við mig síðan sá dómur féll að ég hafi verið að gera lítið úr dómnum sem er kannski ekki alveg rétt. Ég hef á hinn bóginn bent á að ekkert er einsýnt í þessum heimi og ekkert óskeikult. En dómi ber að hlýða. Það er einmitt af þeim sökum sem þessi umræða var tekin upp, það er af þeim sökum sem ríkisstjórnin ákvað það á föstudegi í síðustu viku að lagt yrði fram frv. sem tryggði það réttarástand sem Alþingi samþykkti með lögunum 21. des. sl. Um það er enginn ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar, um það er full samstaða innan ríkisstjórnarinnar og ég vil raunar sérstaklega, bæði í því samhengi og öðru þakka hæstv. umhvrh. fyrir þá góðu samvinnu sem ég hef átt við hann í landbúnaðarmálum og er einmitt til þess fallin að reyna að draga úr þeirri tortryggni sem er milli manna í þjóðfélaginu og sem er milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka því það er augljóst að á þeirri braut sem við erum nú að ganga til meira frjálsræðis í viðskiptum með landbúnaðarmál, bæði þjóða og landa á milli og eins hér innan lands, ríður á því að það sé traust á milli manna, ríður á því að orð standi, ríður á því að réttarfarið sé öruggt og þau lög sem um þessi mál fjalli ekki umdeild. Til þess að draga úr þeirri réttaróvissu sem nú er verður frv. um þessi efni lagt fram fyrir Alþingi á morgun og ég segi af því tilefni eins og ég raunar lýk oftast ræðu minni þegar ég mæli fyrir frumvörpum sem ég flyt hér að ég treysti því að landbn. muni vinna vel að athugun þess frv. og ekki ana þar né flana að neinu.