Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:30:55 (3330)


[16:30]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er vert að vekja athygli á því að tilefni þeirrar réttaróvissa sem hefur verið rædd og fékkst fram með dómi Hæstaréttar eru ekki lagabreytingar í tíð núv. ríkisstjórnar. Þær eru miklu eldri og af því að menn eru að tala um að langan tíma hafi tekið að koma málum landbúnaðarins að þessu leyti fram í tíð þessarar ríkisstjórnar þá vildi svo til að ég átti sæti í nefnd sem vann að þessari endurskoðun þegar Jón Helgason var landbrh. og það tók þá nefnd tuttugu mánuði að koma fram frv. um breytingar á búvörulögunum. Reyndar var það endurskoðun á því frv. Hafi einhverju þá sérstaklega orðið áfátt þá var það þeirri endurskoðun og þeim stjórnarflokkum, Framsfl. og Sjálfstfl. sem létu þessa grein vera að mestu leyti óbreytta frá því sem var þegar lögin voru upphaflega sett. Það er alveg óþarfi að vera að blása þessar aðstæður sem nú eru uppi sem sérstakt mál núv. ríkisstjórnar.
    Það er svo annað mál að auðvitað þarf að fjalla nú um málið í því ljósi sem fyrir liggur. Ég sé ekki að það skipti neinu verulegu máli hvernig það berst inn í þingið heldur hitt hvernig til tekst með að vinna því framgang í þinginu og ná fram í þeirri umræðu trúverðugri niðurstöðu. Ég treysti því og raunar veit að landbn. Alþingis mun ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.