Fundarstjórn forseta og stuðningur við setningu bráðabirgðalaga

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:48:23 (3338)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Vegna orða hv. 4. þm. Norðurl. v. um tímamælingu forseta í umræðunum á fyrri fundi þá verður forseti að segja að ef þessar upplýsingar, sem forseti reyndar dregur ekkert í efa, eru réttar þá harmar forseti að hafa orðið á þau mistök að hafa lokað fyrir umræður hv. þm. um störf þingsins þegar fimm mínútur voru eftir af leyfilegum tíma. Forseti taldi að liðnar væru 20 mínútur en fékk síðan þær upplýsingar eftir á að það hefðu verið um 19 mínútur þannig að það hefur þá verið 1 mínúta eftir sem forseti hefði gefið hv. 4. þm. Norðurl. v. tækifæri til að taka til máls. En þetta gerðist með þessum hætti og séu tímamælingar hv. þm. réttar þá harmar forseti það og biður hv. þm. velvirðingar á því að þessi mistök hafa orðið. En þau eru ekki að yfirlögðu ráði forseta heldur af mistökum gerð. Væntir forseti að þetta mál sé útrætt.