Fundarstjórn forseta og stuðningur við setningu bráðabirgðalaga

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:57:03 (3344)


[16:57]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég taldi að ég hefði gert það skiljanlegt fyrir stuttu síðan að ég kvaddi mér hljóðs. Það sem gerði það að verkum var síðasta yfirlýsing hæstv. forseta þingsins. Það var eins og það væri allt í einu orðið heilagt atriði og kæmi vart til greina að biðja um afbrigði í þinginu.
    Hversu oft hyggur hæstv. forseti að forseti hafi beðið um afbrigði í þinginu t.d. í desembermánuði? Við vorum að ræða hér búvörulagafrv. sem skaut allt í einu upp kollinum þegar komið var að þinglokum. Það var sjálfsagður hlutur að taka það með afbrigðum og svo var með ótal mörg önnur atriði. Á bak við það getur því hæstv. forseti ekki skotið sér. Afbrigði hafa miskunnarlaust verið notuð hér. En það kann að vera að samviska forsetans sé að vakna, að þinginu ber að stjórna af meiri gætni og láta ekki hæstv. forsrh. stjórna því með höfuðhneigingu og tilskipunum. Þingið er sjálfstæð stofnun, æðsta stofnun Íslendinga og veltur á miklu að þar sé vel á málum haldið.
    Hvað varðar bráðabirgðalögin á verkfall sjómanna, þá er það auðvitað ljóst að þar misnotaði hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin vald sitt til þess að setja bráðabirgðalög og vanvirti þingið. Ég hygg að þjóðin sé jafnkunnug því og hv. alþingismenn að Alþingi Íslendinga er hægt að kalla saman með einnar nætur fyrirvara. Sem betur fer er samgöngum þannig háttað á Íslandi. Það var því engin afsökun. Því er nú svo komið að hæstv. forsrh. liggur fastlega undir grun um það að hann hafi seinkað þinghaldinu hvað jólaleyfi varðar með það í huga að setja bráðabirgðalög á íslenska sjómenn.