Færsla grunnskólans til sveitarfélaganna

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:26:22 (3355)


[17:26]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er mat ríkisstjórnarinnar að niðurstaða kosninganna breyti ekki þeirri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að rekstur grunnskólans flytjist alfarið til sveitarfélaganna 1. ágúst 1995. Þetta byggist á því að rekstur grunnskólans er þegar að mestu í höndum sveitarfélaganna að öðru leyti en því að ríkið greiðir laun kennara. Vegna fámennis margra sveitarfélaga hefur sá háttur lengi verið hafður á að þau standa mörg saman að rekstri grunnskóla. Þannig er þetta í dreifbýlinu um allt land og á þessu yrði engin breyting þó að rekstur grunnskólans flyttist alfarið til sveitarfélaga. Að sjálfsögðu yrði slíkur rekstur einfaldari ef þau sveitarfélög sem standa saman að rekstri hvers skóla sameinuðust og þannig hygg ég að þróunin verði þótt það taki lengri tíma heldur en margir vonuðust eftir.
    Meginvandamálið við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna er hvernig á að gera þeim fjárhagslega kleift að standa undir rekstri skólanna. Mitt mat er að þetta þurfi að gerast með tvennum hætti, annars vegar með flutningi almenns tekjustofns til sveitarfélaganna og hins vegar með jöfnunarframlögum til þeirra. Kostnaður sveitarfélaganna af rekstri grunnskólans er nú mjög mismuandi. Þættir sem þar hafa áhrif eru m.a. stærð skóla, hvort hann er í dreifbýli eða þéttbýli, landfræðilegar aðstæður og fleira.
    Við breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í ársbyrjun 1990 tóku sveitarfélögin að sér verulega aukinn hlut í rekstri grunnskólanna. Mismunandi kostnaður þeirra vegna þessa hefur verið jafnaður með sérstökum framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það fyrirkomulag hefur reynst vel og ég hygg

að eðlilegt sé að fara svipaða leið þegar jafna þarf mismunandi útgjöld sveitarfélaga þegar þau taka að sér greiðslu á launum kennara við skólann.
    Nefnd á vegum menntmrn., skipuð fulltrúum þeirra aðila sem málið varðar sérstaklega, vinnur nú að því að undirbúa tillögur um hvernig sveitarfélögin eigi að standa undir rekstri grunnskólans, en mikil áhersla er lögð á góða samvinnu við þá aðila sem málið varðar. Samkvæmt upplýsingum menntmrh. er tillögu nefndarinnar að vænta á næstu vikum og það er unnið að samningu frumvarps um það efni. Kynning á því mun fara fram á næstunni hjá aðilum sem málið varðar sérstaklega, svo sem samtökum kennara og skólastjóra og samtökum fámennra skóla.